A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 15. júní 2010

Þann 15. júní 2010 var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar og var um að ræða fyrsta fund nýrrar sveitarstjórnar eftir kosningar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Hafnarbraut 19 á Hólmavík og hófst hann kl. 17:00. Jón Gísli Jónsson aldursforseti sveitarstjórnar setti fundinn og stjórnaði honum, en auk hans sátu fundinn Jón Jónsson og Katla Kjartansdóttir sveitarstjórnarmenn og Ingibjörg Benediktsdóttir og Sverrir Guðbrandsson varamenn. Jón Jónsson ritaði fundargerð.

 

Jón Gísli Jónsson kynnti boðaða dagskrá fundarins í 9 liðum, sem var eftirfarandi:

  • 1.    Kosning oddvita og varaoddvita.
  • 2.    Kosning í nefndir og ráð.
  • 3.    Samþykktir um stjórn og fundarsköp.
  • 4.    Beiðni frá eigendum Borgabrautar 4 um lagfæringu á steinkanti við lóðarmörk hússins.
  • 5.    Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum.
  • 6.    Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um kjör fulltrúa á landsþing sambandsins.
  • 7.    Skýrsla frá Ísor vegna prófunar á ferskvatnsholu.
  • 8.    Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 2. júní 2010.
  • 9.    Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 2. júní 2010.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

1. Kosning oddvita og varaoddvita.

Nýkjörin sveitarstjórn leggur fram svohljóðandi yfirlýsingu um samstarf J-lista og V-lista við stjórn sveitarfélagsins Strandabyggðar og baráttu fyrir hagsmunamálum íbúanna:

 

"Yfirlýsing um samstarf J-lista og V-lista í Strandabyggð

 

Í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum voru tveir listar í kjöri í Strandabyggð, J-listi sem fékk 129 atkvæði og 3 fulltrúa kjörna og V-listi sem fékk 125 atkvæði og 2 fulltrúa kjörna. Listarnir hafa nú við upphaf kjörtímabilsins ákveðið að taka höndum saman við stjórn sveitarfélagsins og leggja saman krafta sína í baráttunni fyrir hagsmunamálum íbúa Strandabyggðar. Framboðslistarnir munu þó að sjálfsögðu starfa áfram hvor í sínu lagi,  en ekki verður um hefðbundinn meirihluta og minnihluta að ræða í sveitarstjórn.

 

Framboðslistarnir eru sammála um að leggja áherslu á að hafa fagleg vinnubrögð í heiðri og sýna ábyrgð við fjármálastjórn sveitarfélagsins. Listarnir eru samtaka um að efla stjórnsýslu sveitarfélagsins og finna leiðir til að gera hana skilvirkari, auk þess sem ætlunin er að bæta upplýsingaflæði til íbúa. Hlúð verður að atvinnulífi, menningu og mannlífi í sveitarfélaginu, mennta- og umhverfismálum. Áhersla verður lögð á að þrýsta á stjórnvöld og stofnanir á landsvísu um margvísleg málefni sem snúa að jafnræði íbúa Strandabyggðar og annarra íbúa landsins.

 

Þrátt fyrir samstarf listanna í sveitarstjórninni verða lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri höfð og einstaka sveitarstjórnarmenn eða listana sjálfa getur auðvitað greint á um einstök mál. Sveitarstjórnarmenn munu þó kappkosta að láta slík mál ekki trufla samvinnu á öðrum sviðum."

 

Lagt var til að Jón Gísli Jónsson verði oddviti sveitarstjórnar og Jón Jónsson varaoddviti. Var sú tillaga samþykkt samhljóða.

 

Ákveðið er að auglýsa eftir umsóknum um starf sveitarstjóra og samþykkt að fela oddvita og varaoddvita að koma því ferli af stað í samvinnu við ráðningarskrifstofu.

 

2. Kosning í nefndir og ráð

Lagðar voru fram tillögur um fulltrúa í eftirtaldar nefndir og ráð:

 

Í kjörstjórn voru skipuð:

Bryndís Sigurðardóttir

Guðmundur Björgvin Magnússon

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir

 

Til vara:

Signý Ólafsdóttir

Jón Kristinsson

Birna Richardsdóttir

 

Landbúnaðar- og dreifbýlisnefnd:

Jón Stefánsson

Marta Sigvaldadóttir

Magnús Sveinsson

Viðar Guðmundsson

Dagrún Magnúsdóttir

 

Varamenn:

Reynir Björnsson

Bryndís Sveinsdóttir

Haraldur V.A. Jónsson

Matthías Lýðsson

Svanhildur Jónsdóttir

 

Fræðslunefnd

(sameinuð Leikskólanefnd og Skólanefnd Grunnskóla og Tónskóla):

Salbjörg Engilbertsdóttir

Snorri Jónsson

Ingibjörg Sigurðardóttir

Steinunn Þorsteinsdóttir

Jón Jónsson

 

Varamenn:

Ingibjörg Benediktsdóttir

Jóhann L. Jónsson

Aðalbjörg Guðbrandsdóttir

Katla Kjartansdóttir

Ragnar Bragason

 

Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefnd:

Valgeir Örn Kristjánsson

Sigurður Marinó Þorvaldsson

Ingibjörg Emilsdóttir

Þorsteinn Newton

Hafdís Sturlaugsdóttir

 

Varamenn:

Ingimundur Jóhannsson

Jóhann L. Jónsson

Ingibjörg Sigurðardóttir

Rósmundur Númason

Dagrún Magnúsdóttir

 

Kosning í aðrar nefndir, ráð og embætti, verður tekin fyrir á næsta fundi sveitarstjórnar.

 

3. Samþykkt um stjórn og fundarsköp.

Fyrirliggjandi er að yfirfara samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins. Ákveðið einróma að fela varaoddvita að fara yfir samþykktina og að hún verði lögð fyrir næsta fund til samþykktar.

 

Jón Jónsson og Katla Kjartansdóttir vilja láta bóka í þessu sambandi: „Í 17. grein samþykkta sveitarfélagsins kemur fram að sveitarstjórnarfundir skulu haldnir í húsnæði sem fullnægir ákvæðum laga og reglugerða um aðgang fatlaðs fólks. Nauðsynlegt er að finna framtíðarlausn varðandi skrifstofu og fundarsal sveitarstjórnar til að tryggja aðgengi."

 

4. Beiðni frá eigendum Borgabrautar 4 um lagfæringu á steinkanti við lóðarmörk hússins.

Tekið fyrir erindi dags. 31. maí 2010 frá eigendum Borgabrautar 4 um lagfæringu á steinkanti við lóðarmörk. Fundarmenn eru sammála um að lagfæringar séu nauðsynlegar og oddvita falið að afla frekari gagna um framkvæmdina, kostnað og heppilegan framkvæmdatíma.

 

5. Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum.

Kynnt er minnisblað um stuðning sveitarfélaga við stjórnmálasamtök. Sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt lögum samkvæmt að veita stjórnmálasamtökum sem fá menn kjörna í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum fjárframlag til starfsemi sinnar. Lagt fram til kynningar. Samþykkt að taka málið fyrir við endurskoðun fjárhagsáætlunar.

 

6. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um kjör fulltrúa á landsþing sambandsins.

Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 2. júní 2010 um kjör fulltrúa á landsþingsSambandsins. Samþykkt samhljóða að skipa Jón Gísla Jónsson oddvita sem landsþingsfulltrúa og Jón Jónsson varaoddvita sem varamann.

 

7. Skýrsla frá Ísor vegna prófunar á ferskvatnsholu.

Lögð fram til kynningar skýrsla frá Ísor (Íslenskum orkurannsóknum), dags. 28. maí 2010, eftir Þórólf H. Hafstað með titilinn Hólmavík. Prófun á ferskvatnsholu. Í henni kemur fram að neysluvatnsvinnsluhola sem boruð var síðla árs 2008 sé ónothæf í því ástandi sem hún er nú. Lagt er til í skýrslunni að frekari athuganir verði gerðar nú í júní og metnir fleiri valkostir við vatnsöflun. Samþykkt samhljóða að leita eftir samvinnu við Ísor um frekari athuganir og oddvita falið að vinna í málinu.

 

8. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 2. júní 2010.

Lögð fram fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík frá 2. júní 2010. Varðandi grein 6b er tekið vel í að gefa nýskipaðari fræðslunefnd færi á að fara á námskeið um störf slíkra nefnda, þegar færi gefst. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að skipuleggja félagsmálanámskeið sem opið verði öllum nefndarmönnum sveitarfélagsins, eftir að sumarfríum lýkur.

 

Þá vill sveitarstjórn taka undir hamingjuóskir skólanefndar til Grunnskólans á Hólmavík í grein 6d í fundargerðinni. Það er sérstakt ánægjuefni og til fyrirmyndar að Grænfánanum sé flaggað við skólann á Hólmavík og sveitarstjórn hvetur nemendur og starfsmenn skólans til dáða við að halda þessu metnaðarfulla umhverfisverkefni áfram.

 

Fundargerð Skólanefndar samþykkt einróma.

 

9. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 2. júní 2010.

Lögð fram fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 2. júní 2010. Varðandi lið 2E er tekið fram að tilboði RUV hefur þegar verið hafnað. Varðandi lið 2O er rétt að taka fram að mál varðandi sjálfboðaliða Seeds eru komin í farveg. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 19:50.
 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón