A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 12. jan. 2010

 

Ár 2010 þriðjudaginn 12. janúar var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson,  Jón Stefánsson og Eysteinn Gunnarsson varamaður.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Oddviti kynnti dagskrá fundarins í  6 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

 • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
 • 2. Styrkumsókn frá Sauðfjársetri á Ströndum.
 • 3. Erindi frá Jóni Ásbjörnssyni vegna Kleifakots og Ísafjarðarár.
 • 4. Afsögn úr Menningarmálanefnd Strandabyggðar.
 • 5. Kynning á klúbbnum Geysi ásamt beiðni um fjárstyrk.
 • 6. Fundargerð heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dags. 11. desember 2009.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

 • 1. Skýrsla sveitarstjóra. Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá eftirfarandi: a) Að undanfarna daga hafi verið unnið í að setja upp nýjar tölvur í Grunnskólanum ásamt því að endurnýja hugbúnað í eldri tölvum sem eru í notkun hjá skólastjórnendum og kennurum. Hefur starfið gengið vel og verður því lokið á næstu dögum.
 • b) Að búið er að framlengja frest til að ljúka varnargarði vestan við höfnina fram til 15. janúar aðallega vegna bilana í tækjabúnaði hjá verktakanum. Er líklegt að þessi frestur dugi til að ljúka verkinu að öllu óbreyttu og mun þá Kristján hjá Siglingastofnun við annan mann, sem er sérfræðingur í hleðslu varnargarða, taka verkið út.
 • c) Að haldinn hafi verið fundur með foreldrum leikskólabarna sem búa sunnan við Hólmavík þar sem ekki er lengur pláss fyrir öll leikskólabörn í skólabílnum. Náðist samkomulag við alla foreldra að börnin frá Miðhúsum fái far með skólabílnum daglega en barn frá Heydalsá og barn frá Tröllatungu skiptist á að nota skólabílinn þannig að barnið frá Heydalsá noti skólabílinn aðra vikuna og barnið frá Tröllatungu þá vikuna á móti. Vegna þessa vill einn sveitarstjórnarmaður láta bóka að hann sé ósáttur við þetta fyrirkomulag þar sem börnum sé mismunað.
 • d) Að búið er að flytja allar bækur frá Broddanesskóla á jarðhæðina að Höfðagötu 3 og blasir nú við að skrá þurfi þessar bækur inn í tölvukerfið hjá Héraðsbókasafninu. Er spurning um hvort betra sé að heimila ákveðinn tímafjölda í mánuði til verkefnisins eða hvort stytta eigi viðveru bókavarðar hjá bókasafninu um einhverjar klukkustundir í viku sem nýta skuli í verkefnið.
 • e) Að undirrituð sé að ganga frá fjárhagsáætlun ársins 2010 og þriggja ára áætlun ásamt tillögum um breytingar á gjaldskrám og verður boðað til fundar eftir rúma viku til að taka fyrri umræðu. Gengið hefur erfiðlega að vinna áætlun sem ekki er með hallarekstur en er samt raunhæf og rétt en það virðist loks vera að nást. Þá er gengið út frá því að setja 8,5 millj. kr. í lagfæringar á Höfðagötu 3, 1 millj. kr. í Skólabraut 18 og 4 millj. kr. til að breyta sturtuklefa í eldhús í Félagsheimilinu og kaupa á tækjum.
 • 2. Styrkumsókn frá Sauðfjársetri á Ströndum. Borist hefur erindi frá Sauðfjársetrinu á Ströndum dags. 7. desember 2009 ásamt beiðni um styrk að fjárhæð 1.500.000 kr. til reksturs og uppbyggingar setursins. Er erindið sent til Strandabyggðar þar sem héraðsnefnd Strandasýslu hefur ekki svarað erindinu sem fyrst var sent til héraðsnefndar nóvember 2008. Samþykkt var samhljóða að styrkja Sauðfjársetrið um kr. 1.200.000.
 • 3. Erindi frá Jóni Ásbjörnssyni vegna Kleifakots og Ísafjarðarár. Borist hefur erindi frá Jóni Ásbjörnssyni dags. 21. desember 2009 þar sem skorað er á sveitarstjórn Strandabyggðar að sækja um leigu á vatns- og veiðiréttindum Ísafjarðarár til ríkisins en ætlunin er að leigja ána út til næstu 10-15 ára. Bendir Jón á að Strandabyggð hafi ákveðinn forrétt til að nytja ána þar sem jörðin Kleifakot tilheyrir Strandabyggð. Samþykkt er samhljóða að fela sveitarstjóra að athuga málið.
 • 4. Afsögn úr Menningarmálanefnd Strandabyggðar. Borist hefur bréf frá Arnari S. Jónssyni dags. 21. desember 2009 þar sem hann segir sig úr menningarmálanefnd Strandabyggðar vegna anna í námi og starfi. Sveitarstjórn samþykkir afsögn Arnars og þakkar honum fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagins og gott samstarf á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar í starfi og leik í framtíðinni.
 • 5. Kynning á klúbbnum Geysi ásamt beiðni um fjárstyrk. Borist hefur kynning á klúbbnum Geysi dags. 17. desember 2009 ásamt beiðni um fjárstyrk að upphæð kr. 30.000. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að hafna erindinu.
 • 6. Fundargerð heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dags. 11. desember 2009. Lögð er fram til kynningar fundargerð heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða frá 11. desember 2009 og ný gjaldskrá fyrir árið 2010 til staðfestingar. Sveitarstjórn Strandabyggðar frestar staðfestingu gjaldskrár þar til fjárhagsáætlun liggur fyrir.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 18:40.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón