A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 02. mars 2010

 

Ár 2010 þriðjudaginn 2. mars var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Rúna Stína Ásgrímsdóttir varaoddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hennar sátu fundinn Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson, Jón Stefánsson og Ásta Þórisdóttir varamaður.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Oddviti kynnti dagskrá fundarins í  5 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
  • 2. Beiðni um fjárstuðnings frá Geislanum vegna kaupa á fótboltabúningum.
  • 3. Fundargerðir Fjórðungssambands Vestfirðinga.
  • 4. Fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar dags. 25. febrúar 2010.
  • 5. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 1. mars 2010.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra. a) Sagt er frá fundi sem haldinn var með eigendum Félagsheimilisins á Hólmavík og kynnt bréf frá Verkalýðsfélagi Vestfjarða þar sem lagt er til að stofnað verði velunnarafélag í stað núverandi eignarforms. Ætluðu fulltrúar hinna eigendanna að leggja tillöguna fyrir sína félagsmenn og láta sveitarstjóra vita um afgreiðslu erindisins. b) Þá er greint frá því að haldinn var fundur með fulltrúum eigenda Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna að Staðarflöt í Hrútafirði og mætti sveitarstjóri f.h. Strandabyggðar. Farið var yfir sögu safnsins í grófum dráttum og síðan var kynnt staða safnsins í dag og framtíðarsýn. Ljóst er að framundan er mikill kostnaður vegna viðhalds þar sem núverandi húsnæði heldur hvorki vatni né vindum. Þá er afar ófullnægjandi aðstaða fyrir gesti safnsins og þarf að huga að framkvæmdum til að bæta þar úr. Má því vera ljóst að mikill kostnaður verði vegna safnsins næstu árin fyrir utan venjulegan rekstrarkostnað. Þá var greint frá því að safnið verður 50 ára 2017. Eftir þessi erindi hófust almennar umræður þar sem málefni safnsins voru rædd í þaula. Sveitarstjórn Strandabyggðar leggur til við Héraðsnefnd Strandasýslu að teknar verði upp viðræður við aðra eigendur Byggðasafnsins um úrsögn.
  • 2. Beiðni um fjárstuðning frá Geislanum vegna kaupa á fótboltabúningum. Borist hefur beiðni frá Geislanum dags. 19. febrúar 2010 þar sem leitað er eftir styrk til niðurgreiðslu á fótboltabúningum en fyrirhugað er að kaupa búninga fyrir börn og fullorðna. Borin er upp tillaga frá Jóni Gísla um að styrkja kaupin um 50 þúsund krónur en móttillaga kom upp um að styrkja kaupin um þúsund kr. á búning og að lágmarki 50.000 kr. Varaoddviti bar móttillöguna undir atkvæði og var hún felld með þremur greiddum atkvæðum en tveir greiddu atkvæði með tillögunni. Þá var tillaga Jóns Gísla borin undir atkvæði og var hún samþykkt með þremur greiddum atkvæðum en tveir sátu hjá.
  • 3. Fundargerðir Fjórðungssambands Vestfirðinga. Borist hafa þrjár fundargerðir frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Lagt fram til kynningar.
  • 4. Fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar dags. 25. febrúar 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar frá 25. febrúar 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 5. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 1. mars 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík frá 1. mars 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða með þeirri viðbót að sveitarstjóra er falið að kanna áhuga nágrannasveitarfélaga á að stofnuð verði framhaldsdeild.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 19:00.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón