A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Aukafundur sveitarstjórnar Strandabyggđar 1323 29.september 2021

 

Aukafundur nr. 1323 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn miðvikudaginn 29. september 2021 í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík, og hófst hann kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Jón Gísli Jónsson oddviti, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ásta Þórisdóttir, Pétur Matthíasson og Jón Jónsson sem jafnframt ritaði fundargerð.


Fundardagskrá er svohljóðandi:


1. Forsendur fjárhagsáætlunar 2022
2. Hagræðingaraðgerðir frá ráðgjöfum sveitarfélagsins – Trúnaðarmál


Oddviti bauð fundarmenn hjartanlega velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Ekki voru gerðar athugasemdir.


Þá var gengið til dagskrár:


1. Forsendur fjárhagsáætlunar 2022

Síðustu ár hefur Strandabyggð glímt við fjárhagsvanda, þrátt fyrir ítrekaða hagræðingu í rekstri. Ástæðan fyrir vanda Strandabyggðar felst fyrst og fremst í því að tekjur eru ekki nægar, miðað við þjónustustigið í þessu fámenna sveitarfélagi. Framlög Jöfnunarsjóðs hafa lækkað mikið síðustu ár og nauðsynlegt er að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.


Þann 30. mars á þessu ári var undirritaður samningur Strandabyggðar við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit á grundvelli 2.mgr. 83.gr. sveitarstjórnarlaga (138/2011). Samkvæmt samningnum skuldbindur sveitarfélagið sig að gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja að ákvæðum sveitarstjórnarlaga um fjármál sé fylgt í hvívetna. Samningurinn fól í sér 30 milljón króna framlag úr Jöfnunarsjóði til Strandabyggðar á þessu ári sem bætti lausafjárstöðu sveitarfélagsins. Aftur á móti var í samningnum sett sú krafa á sveitarfélagið að það færi í markvissa vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri, ásamt því að efla fjárhagslegt aðhald og eftirlit. Utanaðkomandi ráðgjafar yrðu fengnir til að gera tillögur um aðgerðir og var samið um það við fyrirtækið Ráðrík ehf. Sú vinna hefur staðið yfir síðustu mánuði og er hún m.a. grunnur að ákvörðunum sveitarstjórnar um forsendur fjárhagsáætlunar 2022.


Á 1312. fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar, þann 8. desember 2020, var samþykkt þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2022-2024. Samkvæmt þeirri fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 var rekstarniðurstaðan neikvæð sem nemur 47 milljónum króna. Til þess að standast viðmið Eftirlitsnefndar sveitarfélaga (EFS) um framlegð af rekstri, þarf viðsnúning í rekstri á næsta ári sem nemur 53 milljónum króna miðað við áætlunina. Farið var í hagræðingaraðgerðir við gerð fjárhagsáætlunar á síðasta ári og einnig hafa verið teknar ákvarðanir sem bæta stöðuna á þessu ári, en verkefninu er ekki lokið. Draga þarf úr rekstrarútgjöldum eins og kostur er, hagræða til lengri tíma og að auki skerða þjónustu og hækka álögur tímabundið, í takt við tillögur ráðgjafa og í samræmi við skuldbindingar sveitarfélagsins í áðurnefndum samningi. Nauðsynlegt er að auka tekjur sveitarfélagsins. Það verkefni kallar á erfiðar ákvarðanir við upphaf vinnu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022.


Lögð er fram tillaga um hækkun á álagningarprósentu útsvars úr 14,52% í 14,95%, í tengslum við samning við ráðuneytið og tillögur ráðgjafa. Þessi hækkun á útsvarsprósentu þýðir að áætlaðar tekjur sveitarfélagsins hækka um 7,5 milljónir. Við ákvörðunina er nýtt heimild í 4.mgr. 3.gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga (4/1995). Samþykkt með fjórum atkvæðum, Guðfinna Lára Hávarðardóttir situr hjá.


Lögð er fram tillaga um hækkun á álagningarprósentu A-liðar fasteignaskatts (á íbúðarhúsnæði) úr 0,5% í 0,625% og C-liðar fasteignaskatts (á atvinnuhúsnæði) úr 1,51% í 1,65%. Álagning á B-lið verður óbreytt 1,32%, en heimildir varðandi þann lið eru þegar fullnýttar. Þessar hækkanir álagningar þýða að tekjur sveitarfélagsins hækka um 6,8 milljónir. Þær hafa jafnframt í för með sér að framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins hækka um 6,4 milljónir til viðbótar, í samræmi við reiknireglur sjóðsins. Við ákvörðunina er nýtt heimild í 4.mgr. 3.gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga (4/1995). Til að koma til móts við fasteignaeigendur er ákveðið að greiðslu fasteignagjalda verði dreift á 9 gjalddaga í stað 8 eins og nú er. Samþykkt samhljóða.


Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir jafnframt samhljóða að óska eftir samningi um áframhaldandi stuðning frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu næstu árin, í ljósi þeirra aðgerða sem ráðist er í við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 og í takt við 83.gr sveitarstjórnarlaga (138/2011). Báðir samningsaðilar hafa þegar lýst vilja sínum um framhald á slíkum samningi.


2. Hagræðingaraðgerðir frá ráðgjöfum sveitarfélagsins – Trúnaðarmál

Tekinn var fyrir annar dagskrárliður sem trúnaðarmál og fundi lokað. Bókun færð í trúnaðarmálabók. Fundur opnaður að nýju eftir umræðu um dagskrárliðinn.


Fundargerðin yfirfarin og samþykkt samhljóða.


Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:05.


Jón Gísli Jónsson
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ásta Þórisdóttir
Pétur Matthíasson
Jón Jónsson

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón