A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Skólanefnd Grunnskóla og Tónskóla - 30. apríl 2008

Fundur í skólanefnd settur kl. 17.00 í Grunnskólanum á Hólmavík 30. apríl 2008. Mættir voru Ester Sigfúsdóttir, Steinunn Þorsteinsdóttir, Halldór Jónsson varamaður,  Ingimundur Pálsson, Jóhann Áskell Gunnarsson og Sverrir Guðbrandsson fyrir hönd Skólanefndar. Stefanía Sigurgeirsdóttir fyrir hönd Tónskólans. Victor Örn Victorsson skólastjóri Grunnskólans og Kristján Sigurðsson aðstoðarskólastjóri. Gunnar Melsteð fyrir hönd kennara og Sigríður Jónsdóttir fyrir hönd foreldra.

Ester Sigfúsdóttir formaður Skólanefndar stýrði fundi og fór fram á að dagskrárliðurinn Skólaakstur yrði tekinn á dagskrá sem fyrsta mál. Var það samþykkt.


1. Skólaakstur

Skólanefnd hefur borist bréf frá Þórði Halldórssyni og Dagrúnu Magnúsdóttur, foreldrum skólabarna úr Ísafjarðardjúpi, sem kynnt var og rætt. Ester Sigfúsdóttir, formaður nefndarinnar, lagði fram svohljóðandi ályktun:

"Skólanefnd beinir því til sveitarstjórnar Strandabyggðar að leita lausna á skólaakstri úr Djúpi með hagsmuni skólabarnanna að leiðarljósi, þannig að skólaganga þeirra gangi sem best og þau missi eins lítið úr námi og kostur er vegna ófærðar. Þó séu öryggismál í hávegum höfð og aldrei lagt í tvísýnu með akstur í ófærð eða óveðri.
   Þá er því beint til sveitarstjórnar og foreldra að ræða saman með formlegum hætti og leita í ró og spekt að niðurstöðu um fyrirkomulag skólaaksturs sem sátt getur orðið um, þannig að kostnaður sé ásættanlegur fyrir sveitarfélagið.
   Ennfremur beinir skólanefnd því til sveitarstjórnar að ákvarðanir um skólaakstur og allar breytingar á fyrirkomulagi séu teknar tímanlega, t.d. þannig að ákvörðun um fyrirkomulag næsta vetrar liggi fyrir að vori. Ákvörðun sé kynnt foreldrum barna í skólaakstri og öðrum hlutaðeigandi, þannig að ekki sé óvissa um hvernig staðið verði að akstri. Hlutaðeigandi sé í framhaldi af því gefið færi á að gera skriflegar athugasemdir sem teknar verði til umræðu í sveitarstjórn.
   Loks hvetur Skólanefnd sveitarstjórn Strandabyggðar til að beita sér af alefli fyrir því við Vegagerð ríkisins að mokstur á Steingrímsfjarðarheiði hefjist að jafnaði fyrr á morgnanna og að vegurinn um Langadalsströnd sé mokaður þegar þörf krefur og viðhaldi á honum sinnt betur en verið hefur. Einnig verði þrýst á Vegagerðina að sinna snjómokstri innansveitar í Strandabyggð með eðlilegum hætti, þótt snjóflóð eða snjóflóðahætta hamli för þeirra sem leið eiga um Súðavíkurhlíð."

Ályktun samþykkt samhljóða af Skólanefnd. Áfram rætt vítt og breitt um skólaakstur. Í umræðum kom meðal annars fram hugmynd um eingreiðslu til foreldra barna í Ísafjarðardjúpi sem þau myndu þá ráðstafa til aksturs milli heimilis og skóla.
 
Skólanefnd þakkar Þórði Halldórssyni og Dagrúnu Magnúsdóttir fyrir bréfið og vísar því ásamt ályktun sinni um skólaakstur áfram til sveitarstjórnar. Skólanefnd vill benda á að vitnað er í erindisbréf skólanefnda í bréfi frá foreldrunum, en Skólanefnd Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík hefur ekki fengið erindisbréf í hendur frá sveitarstjórn, þótt um það hafi verið rætt í upphafi kjörtímabils. Það bréf sem vitnað er í er eingöngu til leiðbeiningar fyrir sveitarfélög til uppsetningar á sínum erindisbréfum og hefur ekki gildi nema ákvörðun sé tekin þar um.

Ester Sigfúsdóttir formaður taldi mikilvægt að Skólanefnd yrði sett formlegt erindisbréf þar sem rætt væri um starfssvið nefndarinnar og hlutverk í einstökum málaflokkum. Venjur hafi skapast um hvað nefndin taki fyrir og hvað sé á könnu sveitarstjórnar og ábendingar hafi einnig borist munnlega um slíkt frá sveitarstjóra, m.a. hvað varðar skólaakstur. Hins vegar sé núverandi fyrirkomulag ekki nógu gott því skilgreiningar skorti sem geti orðið til þess að bæði nefndarmenn og almenningur séu óöruggir um til hvaða aðila í stjórnsýslunni ber að leita með einstök málefni.

Skólanefnd mælir með að samskipti milli foreldra barna í skólaakstri og sveitarstjórnar verði bætt með formlegum kynningar- eða fréttabréfum frá sveitarfélaginu um fyrirkomulag og breytingar, þar sem foreldrum er gefið færi að tjá sig um breytingar og gera skriflegar athugasemdir innan gefins tíma.

Ester Sigfúsdóttir yfirgaf nú fundinn, en Halldór Jónsson varamaður tók við sem skólanefndarmaður. Victor Örn Victorsson skólastjóri tók við stjórn fundarins.


2. Málefni Tónlistarskólans á Hólmavík.
Borist hefur bréf frá Stefaníu Sigurgeirsdóttur til sveitastjóra, skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og Skólanefndar. Bréfið lesið upp og fylgir það fundargerð. Þar sem bréfið inniheldur uppsögn Stefaníu þarf að leita eftir nýjum tónlistarkennara.

Vortónleikar skólans voru haldnir í liðinni viku og tókust vel. Próf eru fram undan hjá þeim sem þau taka.


3. Málefni Grunnskólans á Hólmavík.
Starfsmannamál. Kristín S. Einarsdóttir hefur sagt upp 50% stöðu sinni við skólann. Ásta Þórisdóttir vill minnka starfshlutfall sitt úr 100% í 50%. Jóhanna Ása Einarsdóttir vill auka starfshlutfall sitt úr 50% í 100%. Hildur Guðjónsdóttir fer í fæðingarorlof í byrjun oktober til aprílloka. Talið er þurfa að auglýsa eftir kennara í eina 100% stöðu.

Hrafnhildur Þorsteinsdóttir hefur sótt um fjarnám í sérkennslufræðum og vill helga sér slíkri kennslu í framtíðinni.

Skóladagatal fyrir skólaárið 2008-2009 skoðað og samþykkt.


4. Önnur mál.
a) Skólalóð. Vinnuhópur er búin að koma þrisvar sinnum saman og hafinn er undirbúningur að endurbótum á skólalóð, þ.e. umhverfi skólans og leikvelli. Hugmyndir frá nemendum hafa verið skoðaðar og verið er að leggja lokahönd á teikningu, greinargerð og tillögu um framkvæmdaröð.

b) Borist hafði erindi frá Umhverfisnefnd um Staðardagskrá 21 og var það sent út til nefndarmanna. Stefnt er að því að ljúka yfirlestri og gera breytingatillögur fyrir næsta fund Skólanefndar.


Fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:40.


Ester Sigfúsdóttir
Steinunn Þorsteinsdóttir
Halldór Jónsson
Ingimundur Pálsson
Jóhann Áskell Gunnarsson
Sverrir Guðbrandsson
Stefanía Sigurgeirsdóttir.
Victor Örn Victorsson
Kristján Sigurðsson
Gunnar Melsteð
Sigríður Jónsdóttir

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón