A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd - 11. október 2010

Fundur var haldinn í Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Strandabyggðar mánudaginn 11. október 2010 kl. 17:00 á skrifstofu Strandabyggðar.

Mættir voru Sigurður Atlason formaður, Lýður Jónsson ritari, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ásta Þórisdóttir og Viðar Guðmundsson. Einnig var boðaður á fundinn Einar Indriðason framkvæmdastjóri Sorpsamlags Strandasýslu. Eftirfarandi dagskrá lá fyrir fundinum

1. Sorpsamlag Strandasýslu, Einar Indriðason framkvæmdastjóri.
2. Staðardagskrá 21.
3. Önnur mál.

 

Þá var gengið til dagskrár.


1. Sorpsamlag Strandasýslu, Einar Indriðason framkvæmdastjóri.

 

Einar mætti á fundinn til að upplýsa nefndarmenn um starfsemi  Sorpsamlagsins. Í máli hans kom fram að sorpflokkunin á Hólmavík hafi gengið vonum framar, sorp hafi minnkað um 60%-70% að rúmmáli og 30-40% í þyngd. Á Drangsnesi hafi sorp minnkað um 50% að rúmmáli. Kynning á flokkun hefur farið fram í Árneshreppi og flokkunargámur hefur verið tekinn í notkun. Sorpsamlag Strandasýslu er hlutafélag í eigu allra sveitarfélaga á Ströndum og sér um söfnun og förgun sorps af öllu svæðinu. Strandabyggð á tvo fulltrúa af þremur í stjórn Sorpsamlagsins og eignarhlutfallið er yfir 80%.


Fram kom á fundinum að mikill áhugi væri meðal nefndarmanna að huga að söfnun á lífrænum úrgangi til moltugerðar og bæta þjónustu við íbúa að losna við flokkaðan úrgang. Hugmyndir eru í gangi að Sorpsamlagið kaupi húsið á Skeiði þar sem sorpsöfnunin fer fram í dag og breyti því þannig að íbúar geti losað sig við flokkað sorp þegar þeim hentar. Farið var yfir áætlanir sem varða söfnun á lífrænum úrgangi og voru fundarmenn á einu máli um að hefjast þurfi handa sem fyrst að safna lífrænum úrgangi frá heimilum. Jafnframt að kynna fyrir íbúum á lögbýlum aðferðir við förgun lífræns úrgangs.

Hugmyndir og aðferðir til moltugerðar voru talsvert ræddar og ljóst er að um nokkurn kostnað er að ræða en jafnframt nauðsynlegt að finna leiðir til að koma upp þannig búnaði. Mikið leggst til af fyllingarefni af úrgangstimbri á Hólmavík og sérstaklega vörubrettum sem þyrfti að vera mögulegt að grófkurla.  Í máli Einars kom fram að hann teldi farsælast að bæta við tunnu við hvert heimili á Hólmavík sem væri sérstaklega ætluð fyrir lífrænan úrgang sem sorpbíllinn tæmdi reglulega. Nefndin ályktar  að sveitarstjórn þrýsti á að farið verði af stað með flokkun lífræns úrgangs og moltuvinnslu.


Umhverfis- og náttúruverndarnefnd ályktar að sveitarstjórn Strandabyggðar þrýsti á um kynningu á flokkun  sorps um allt svæði Sorpsamlagsins, auk þess að kynntar verði reglur um frágang og urðun sorps til bæjar og sveita. Auka þurfi við fræðslu á sviði umhverfismála og hvetja til flokkunar á öllu sorpi. Í máli Einars kom fram að tekjur Sorpsamlagsins af ákveðnum tegundum af sorpi sé um tvær milljónir króna á þessu ári. Til að mynda sé skilagjald á rúlluplasti sem rennur til Sorpsamlagsins ef því er skilað til flokkunar. Annars renni gjaldið til ríkissjóðs.

Það hljóti að vera hagsmunamál allra íbúa svæðisins að sorp sem felur í sér verðmæti sé skilað flokkað til Sorpsamlagsins sem verði síðan til þess að samlagið geti veitt íbúunum aukna þjónustu.

Einar fjallaði einnig um samstarf Sorpsamlagsins við Súðavíkurhrepp en samlagið sækir einnig sorp á bæi í Ísafjarðardjúpi. Rætt var lauslega um aukna möguleika í því samstarfi.

 

2. Staðardagskrá 21.


Umhverfis- og náttúruverndarnefnd fór lauslega yfir Staðardagskrá 21 fyrir Strandabyggð sem samþykkt var árið 2007, (http://strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/skra/19/), með það að markmiði að endurskoða texta og áætlanir í henni sem varða umhverfismál. Rætt var um aðferðarfæðina sem nefndin ætlar sér við þá vinnu. Nefndarmenn skulu skoða skýrsluna og fara yfir stöðu og stefnu ákveðinna verkefna. Samþykkt var að hafa vinnufund nefndarinnar miðvikudaginn 27. október kl. 18:00 á skrifstofu Strandabyggðar þar sem þau mál verði krufin. Í framhaldi af því verði lögð fram ný stefna og áherslur í þeim málaflokkum sem heyra undir umhverfis- og náttúruverndarnefnd.

Í Staðardagskrá 21 sem samþykkt var árið 2007 kemur fram að reglulega þurfi að endurskoða skjalið til að upplýsingar séu sem réttastar, nýjum verkefnum bætt við eftir föngum og önnur tekin út sem búið er að hrinda í framkvæmd. Á síðasta fundi nefndarinnar þann 19. ágúst 2010 lagði nefndin það til að aðrar fastanefndir sveitarfélagsins tækju viðeigandi kafla í Staðardagskrá 21 til reglulegrar umfjöllunar og endurskoðunar. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd óskaði eftir því að slík endurskoðun lægi fyrir innan þriggja mánaða.  Umhverfisnefnd Strandabyggðar vill hvetja sveitarstjórn að koma málefninu í farveg innan annarra fastnefnda sveitarfélagsins.


3. Önnur mál.


Umhverfis- og náttúruverndarnefnd barst ábending um óæskilega aðferð við losun heyrúllubagga á lögbýli í Strandabyggð. Nefndin vill beina því til sveitarstjórnar að ganga í það mál og kynna reglur um losun úrgangs.

Ekki voru tekin fyrir fleiri mál. Næsti fundur ákveðinn miðvikudaginn 27. október kl. 18:00. Fundargerð lesin upp og samþykkt samhljóða. Fundi slitið kl. 18:45.


Sigurður Atlason (sign)
Ásta Þórisdóttir (sign)
Ingibjörg Benediktsdóttir (sign)
Lýður Jónsson (sign)
Viðar Guðmundsson (sign)

 
ATH: Fundargerðin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 19. okt. 2010.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón