A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur nr. 1360 9. apríl 2024

Sveitarstjórnarfundur nr. 1360 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 9. apríl kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir varaoddviti, Jón Sigmundsson, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.


Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Innviðaráðuneytið 21.mars 2024, IRN24030139 ábending um meinta ólögmæta stjórnsýslu við boðun sveitarstjórnarfundar 21.mars 2024 ásamt greinargerð Strandabyggðar og svari Innviðaráðuneytis frá 5. apríl 2024
2. Áskorun til Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis v. samgönguáætlunar
3. Sýslumaðurinn á Suðurlandi 2. apríl 2024, beiðni um umsögn um leyfi til sölu áfengis á framleiðslustað frá Galdri brugghúsi
4. Húsnæðisáætlun Strandabyggðar
5. Svæðisskipulag Vestfjarða 2025-2050, Skipulags- og matslýsing
6. Forsætisráðuneytið,kynning á dagskrá í tilefni 80 ára afmæli lýðveldisins 2024 erindi frá 7. mars 2024
7. Tómstunda, íþrótta- og menningarnefnd, fundargerð nr. 81 frá 9. apríl 2024
8. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í mars
9. Aðalfundarboð Fiskmarkaðs Hólmavíkur 10. apríl 2024 ásamt fundargerð stjórnar frá 23.mars 2024
10. Boð á Fjórðungsþing 10. apríl 2024 ásamt ársreikningi Fjórðungssambands Vestfjarða 2023
11. Náttúrustofa Vestfjarða fundargerðir nr. 146 frá 16. febrúar 2024 og nr.147 frá 18. mars 2024 ásamt ársreikningi 2023
12. Byggðasamlag Vestfjarða, stjórnarfundur 18. mars 2024
13. Samband sveitarfélaga, fundargerðir nr. 945 frá 28. febrúar og 946 frá 15. mars 2024


Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd var gerð við fundarboðið.


Þá var gengið til umræðu.


1. Innviðaráðuneytið 21.mars 2024, IRN24030139 ábending um meinta ólögmæta stjórnsýslu við boðun sveitarstjórnarfundar 21.mars 2024 ásamt greinargerð Strandabyggðar og svari Innviðaráðuneytis frá 5. apríl 2024.



Oddviti tekur fram að Matthías Sævar Lýðsson hafi sent inn ábendingu um meinta ólögmæta stjórnsýslu og spyr Matthías hvort hann telji sig vanhæfan til að fjalla um þennan lið. Matthías telur svo ekki vera. Oddviti rekur tilurð málsins og hafði á öllum stigum samráð við löfræðing sveitarfélagins. T-listi leggur fram eftirfarandi bókun:


„Það er ljóst að innviðaráðuneytið setur út á stjórnsýslu núverandi oddvita hvað boðun sveitarstjórnarfundar nr. 1359 varðar. En, jafnframt er ljóst að ráðuneytið sér ekki ástæðu til að skoða neitt frekar stjórnsýslu sveitarfélagsins vegna þessa, þar sem nýr fundur hafi verið boðaður.
Í niðurlagi svarbréfs ráðuneytisins segir hins vegar: „Ráðuneytið fer því aftur fram á að verða upplýst um framkvæmd næsta sveitarstjórnarfundar á grundvelli 113. gr. sveitarstjórnarlaga og að hvaða leyti auglýsing fundarins sé í samræmi við 16. gr. sveitarstjórnarlaga. Að fengnum þeim upplýsingum mun ráðuneytið aftur taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að fjalla formlega um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Fer ráðuneytið fram á að svar sveitarfélagsins berist ráðuneytinu eigi síðar en 12. apríl n.k. á netfangið irn@irn.is.“.
Óljóst er hvaða „næsta fund“ ráðuneytið á við, þar sem umræddur fundur, 1359, var afstaðinn þegar ráðuneytið sendi frá sér þetta svarbréf. Ósennilegt er að átt sé við fund 1360, sem hefur verið boðaður og er öllum opinn. Ganga verður út frá því að ráðuneytið sé að kalla eftir skýringu á því, hvers vegna í fundarboði 1359 hafi komið fram að fundurinn væri lokaður. Rétt er að geta þess að sveitarstjórn tók sérstaklega afstöðu til þess í upphafi þessa fundar að fundurinn skyldi vera lokaður, eins og lög gera ráð fyrir. Ástæða þess að þetta kom fram í fundarboði, er að sú venja hefur verið þegar ljóst er að eingöngu er um trúnaðarmál að ræða til umræðu, að rétt hefur þótt að geta þess í fundarboði að fundurinn væri lokaður, þótt ákvörðunarvald um það væri í höndum sveitarstjórnar. Hefur það verið í samræmi við ákvarðanir fyrri sveitarstjórna Strandabyggðar. Mun þessi fyrri framkvæmd verða tekin til skoðunar með hliðsjón af bréfi ráðuneytisins“.


Matthías tekur til máls og þakkar fyrir þessa yfirferð. A-listinn óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:

Sveitarstjórnarmenn A-lista leggja fram eftirfarandi bókun um „Ábendingar um meinta ólögmæta stjórnsýslu Strandabyggðar.”

“Oddviti boðaði til fundar sveitarstjórnar þann 21. mars síðastliðinn. Varamenn A-lista voru boðaðir á fundinn og fengu fundargögn en aðalmenn fengu hvorki fundarboð eða fundargögn. Matthías sendi oddvita póst þar sem óskað var skýringa og að vitnað væri í lög og samþykktir, þessari fundarboðun til stuðnings. Það bárust ekki fullnægjandi svör við spurningunum. Matthías sendi því ábendingu og leitaði til Innviðaráðuneytinsins um svör. Ráðuneytið brást skjótt við og sendi fyrirspurnir á oddvita Strandabyggðar og gaf sólarhringsfrest til að svara þeim.
Innviðaráðuneytið gefur álit sitt á þessari framkvæmd við boðun sveitarstjórnarfundar 1359, í bréfi dagsettu 5. apríl 2024. Þar kemur fram að:
• Það er andstætt Sveitarstjórnarlögum að boða ekki aðalmenn til sveitarstjórnarfundar og afhenda þeim ekki fundargögn.
• Það brýtur í bága við Sveitarstjórnarlög að auglýsa í fundarboði að fundur sé lokaður. Slík ákvörðun verður einungis tekin á lögmætum sveitarstjórnarfundi af sveitarstjórn.
• Það er ólögmætt samkvæmt Sveitarstjórnarlögum að oddviti taki ákvörðun í fundarboði hvaða sveitarstjórnarmenn séu hæfir eða vanhæfir til að sitja eða að taka þátt í sveitarstjórnarfundi. Slík ákvörðun verður einungis tekin á lögmætum sveitarstjórnarfundi af sveitarstjórn.
Við boðun þessa fundar fór oddviti ekki að sveitarstjórnarlögum. Það er ótækt að oddviti sveitarstjórnar Strandabyggðar skuli ekki hafa betri þekkingu á sveitarstjórnarlögum.

Matthías tekur fram að þrátt fyrir að þessi bókun sé harðorð þá munum við öll læra af því og að oddvita hafi ekki gengið annað til en að flýta fyrir málum. Við viljum öll taka það til eftirbreytni hér eftir.


Jón Sigmundsson tekur til máls og nefnir að í ljósi þess að á vinnufundi hafi viðkomandi sveitarstjórnarmenn talið sig vanhæfa til að fjalla um málið og í ljósi beiðni Byggðastofnunar um trúnað fram yfir fund 27. mars, veltir hann því fyrir sér hvort ástæða sé til að skoða jafnræðisreglu í ljósi eignatengsla sveitarstjórnarmanna við umsækjendur.


Matthías Sævar Lýðsson óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:


“Varðandi hæfi eða vanhæfi sveitarstjórnarmanna á fundi 1359 tel ég Matthías Lýðsson að Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir hafi átt að lýsa sig vanhæfa til að fjalla um það mál sem þar var á dagskrá. Enda segir í Sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 í 20 gr. 1. mgr. „Viðkomandi telst þó aðeins vanhæfur sé hann eða hafi verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að einum lið til hliðar.“
Einnig verður að ætla að Þorgeir Pálsson hafi átt að lýsa sig vanhæfan að fjalla um málið vegna aðkomu hans að málinu á fyrri stigum vegna samskipta við Útgerðafélagið Stakkavík samanber tölvupóst Þorgeirs frá 3. apríl 2024, en í 20 gr. 4. mgr. Sveitarstjórnarlaga 138/2011 segir „Sveitarstjórnarmenn eða nefndarmenn sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélagsins og hafa sem slíkir átt þátt í að undirbúa eða taka ákvörðun í tilteknu máli sem lagt er fyrir sveitarstjórn eða nefnd eru alltaf vanhæfir þegar sveitarstjórnin eða nefndin fjallar um málið.“ Órökstuddar ásakarnir Þorgeirs Pálssonar á hendur Pétri Matthíassyni, annars eigenda Vissu útgerðar ehf, hefðu einnig átt að leiða til þess að hann lýsti sig vanhæfan þar sem samkvæmt 3. gr. 6. liðar stjórnsýslulaga nr.37/1993: „Ef að öðru leiti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu“, en ég tel að svo hafi verið.


Oddviti mun svara bókuninni en segir að þetta sé ósanngjörn umræða og að T-listinn sé heilshugar bak við hamingjuóskir til Vissu útgerðar.


Matthías Lýðsson vill taka fram að hann hafi ekki stjórn á sínu baklandi.


Jón Sigmundsson tekur til máls. Í ljósi þessara ásakana er sýnilegt að ekki sé verið að grafa stríðsaxirnar.


2. Áskorun til Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis v. samgönguáætlunar


Oddviti benti á að erindið hafi komið mjög seint inn sem fundargagn, eða á föstudag 5.4 kl 11.39 og í því ljósi og fyrri atvika af sama meiði, lagði oddviti til að umræðu um lið 2 yrði frestað til næsta fundar, þannig að sveitarstjórn gæfist færi á að ræða innihald erindisins og forgangsraða tillögum.

Matthías Sævar Lýðsson leggur til breytingartillögu: Lagt er til að sveitarstjóra verði falið að endurskoða og endurvinna þessa tillögu í samráði við sveitarstjórnarfólk og leggja fram á næsta fundi sveitarstjórnar.

Jón Sigmundsson fagnar þessari tillögu og styður hana.

Borið upp undir atkvæði sveitarstjórnar. Samþykkt samhljóða.


3. Sýslumaðurinn á Suðurlandi 2. apríl 2024, beiðni um umsögn um leyfi til sölu áfengis á framleiðslustað frá Galdri brugghúsi


Hér er í raun um að ræða endurnýjun eða staðfestingu á fyrri umsögn. Oddviti lagði til að sveitarstjórn staðfesti fyrri umsögn.

Samþykkt samhljóða.


4. Húsnæðisáætlun Strandabyggðar


Oddviti rakti tilurð þessa máls, en umræðu um það var frestað á síðasta fundi, til að sveitarstjórnarfulltrúum gæfist færi á að kynna sér innihald áætlunarinnar, en hún var lögð fyrir sveitarstjórn mjög seint vegna vinnu við uppfærslu sem hafði dregist.

Matthías Lýðsson ber fram þakkir fyrir að vinna áætlunina.

Oddviti lagði til að Húsnæðisáætlun Strandabyggðar yrði samþykkt. Samþykkt samhljóða.


5. Svæðisskipulag Vestfjarða 2025-2050, Skipulags- og matslýsing


Oddviti gaf orðið laust. Matthías rakti það sem fram hefur komið á fundum vegna Svæðisskipulags Vestfjarða. Erindið er annars lagt fram til kynningar.


6. Forsætisráðuneytið,kynning á dagskrá í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins 2024 erindi frá 7. mars 2024


Oddviti rakti tilurð erindisins og þá viðburði sem sveitarstjórnir um land allt væru beðnar að aðstoða við, hvað þessa afmælisdagskrá varðar. Orðið síðan gefið laust.

Sveitarstjórn fagnar þessu átaki og kemur því í viðeigandi farveg.


7. Tómstunda, íþrótta- og menningarnefnd, fundargerð nr. 81 frá 9. apríl 2024


Oddviti gaf formanni nefndarinnar orðið. Sigríður fór yfir fundargerðina. Fundargerðin að öðru leiti lögð fram til kynningar.


8. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í mars


Orðið gefið laust. Matthías Lýðsson vill þakka sveitarstjóra fyrir punkta eftir fundi Strandanefndarinnar og væntir góðs af áframhaldandi störfum hennar.


9. Aðalfundarboð Fiskmarkaðs Hólmavíkur 10. apríl 2024 ásamt fundargerð stjórnar frá 23.mars 2024


Oddviti bað fulltrúa sveitarfélagsins í stjórn að fara yfir málið. Fram kom að kauptilboð hefur borist í Fiskmarkað Hólmavíkur.

Sveitarstjórn Strandabyggðar staðfestir umboð sitt til Sigríðar Guðbjargar Jónsdóttur fulltrúa Strandabyggðar í stjórn Fiskmarkaðs Hólmavíkur og styður eindregið sölu á 28,2% hlut sveitarfélagsins til Fiskmarkaðs Suðurnesja.

Borið undir atkvæði sveitarstjórnar. Samþykkt samhljóða.


10. Boð á Fjórðungsþing 10. apríl 2024 ásamt ársreikningi Fjórðungssambands Vestfjarða 2023


Oddviti mun sækja þingið sem fulltrúi Strandabyggðar


11. Náttúrustofa Vestfjarða fundargerðir nr. 146 frá 16. febrúar 2024 og nr. 147 frá 18. mars 2024 ásamt ársreikningi 2023


Oddviti gaf orðið laust. Sveitarstjórn ályktar að í ljósi þess að rætt sé við aðila um ráðningu á Hólmavík, að sveitarstjóra verði falið að fá botn í málið.


Samþykkt samhljóða


12. Byggðasamlag Vestfjarða, stjórnarfundur 18. mars 2024


Oddviti gaf orðið laust. Enginn tók til máls.


13. Samband sveitarfélaga, fundargerðir nr. 945 frá 28. febrúar og 946 frá 15. mars 2024


Oddviti gaf orðið laust. Hlíf vísaði í umræðu á Landsþingi sem staðfestast í þessum fundargerðum.


Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 17.54

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón