A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Atvinnumálanefnd - 13. júní 2007

Fundur haldinn hjá Atvinnumálanefnd Strandabyggðar þann 13. júní 2007 í húsi Hólmadrangs ehf að Kópnesbraut 2 og hófst hann kl. 17:30. Gunnlaugur Sighvatsson formaður setti fundinn en aðrir fundarmenn voru Ásta Þórisdóttir, Eysteinn Gunnarsson, Þorsteinn Sigfússon og Jón Jónsson varamaður. Einnig sátu fundinn Viktoría Rán Ólafsdóttir verkefnisstjóri AtVest og Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri.


Fundarefni:
1. Tillögur Strandabyggðar til nefndar um vanda Vestfjarða og tillögur þeirrar nefndar er tengjast Strandabyggð.
2. Vinna við áfangaskýrslu um ferðaþjónustu.
3. Opnun á landbúnaðarumræðu.

Þá var gengið til dagskrár.


1. Tillögur Strandabyggðar til nefndar um vanda Vestfjarða og tillögur þeirrar nefndar er tengjast Strandabyggð.
Ásdís gerði grein fyrir þeim tillögum sem fóru til Vestfjarðarnefndar og hvar þær væru staddar í ferlinu. Búið var að samþykkja Þjóðtrúarstofu og einnig að koma upp þróunarsetri á Hólmavík sem staðsett yrði að Höfðagötu 3.

Þá eru tvö önnur verkefni sem fengið hafa kynningu í ráðuneytum en ekki hlotið enn samþykki. Annars vegar er stofnun framhaldsdeildar á Hólmavík árið 2008 þar sem boðið yrði upp á tveggja ára framhaldsnám líkt og verður hjá Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi nú í haust. Hins vegar er um átaksverkefni í eflingu á heimavinnslu lamba- og ærkjöts en bændur á Vestfjörðum og í Dalasýslu hafa ákveðið að taka höndum saman og ráða starfsmann til að vinna staðbundið með bændum til að þróa og framleiða markvisst sérhæfðar afurðir í heimahéraði og feta þannig í fótspor evrópskra bænda.

Þá greindi Jón Jónsson frá því að Þjóðtrúarstofa hafi þegar sóst eftir tveimur verkefnum sem tilgreind eru í Vestfjarðarskýrslunni og geta rétt eins verið staðsett hér. Þá er líklegt að eitt verkefni til viðbótar verði staðsett hér hjá Strandabyggð en eins og fyrr segir er ekki enn búið að taka endanlega ákvörðun um staðsetningu þessarra verkefna.

Nefndin lýsir ánægju sinni með stöðu mála sem og vilja til að leggja sitt af mörkum til að ýta tillögum úr vör.


2. Vinna við áfangaskýrslu um ferðaþjónustu.
Gunnlaugur greindi frá áfangaskýrslunni um ferðaþjónustu á Ströndum, en þar er m.a. að finna niðurstöður úr könnun sem sett var á strandir.is. Taldi hann best að haldið yrði áfram með skýrsluna í því formi sem hún er en að Viktoría tæki við henni til að leggja lokahönd á verkefnið. Ásdís greindi frá viðkomu sveitarfélagsins sem rekur upplýsingamiðstöð og tjaldsvæði og leggur auk þess mikinn kostnað í auglýsingar.

Viktoría greindi frá stöðu ferðamála á Vestfjörðum og tók fyrir gistirými, aukningu gistinátta og þjóðerni ferðamanna sem leggja leið sína á Vestfirði. Einnig sagði hún lauslega frá heimsóknum til þriggja ferðaþjóna í Strandabyggð til að fá fram þeirra skoðanir og vangaveltur. Eru þeir jákvæðir en telja vöntun á þjónustumiðstöð og leggja jafnframt mikla áherslu á góða Upplýsingamiðstöð. Eins telja þeir að bæta megi enn frekar ásýnd bæjarins og nýtilegt kort af bænum. Ákveðið var að Viktoría heimsækti þá ferðaþjóna í Strandabyggð sem eftir var að tala við og gera samantekt á viðtölunum sem gæti orðið viðhengi við skýrsluna.

Jón lagði til að vinnuferlið við skýrsluna yrði með eftirfarandi hætti áður en hún færi endanlega til sveitarstjórnar:
a) ferðaþjónar verði heimsóttir af nefndarmönnum eða starfsmönnum og unnið úr því efni sem safnast
b) stefnan send sveitarstjórn, ferðaþjónum og öðrum þjónustuaðilum til umsagnar
c) drög að stefnunni verði kynnt opinberlega og fólki gefið tækifæri til að gera athugasemdir
d) farið yfir og ræddar umsagnir og athugasemdir og stefnan negld niður í framhaldinu
e) ákveðið verði hvernig eftirfylgni og endurskoðun verður háttað og það gert hluti af stefnunni sjálfri.

Einnig lagði Jón til að áður en ákvarðanir um breytingu á Upplýsingamiðstöðinni yrði sest niður með forstöðumönnum Upplýsingamiðstöðvar og Íþróttamiðstöðvar ásamt formanni Atvinnumálanefndar og sveitarstjóra til að ræða tillögurnar.


3. Opnun á landbúnaðarumræðu.
Umræðu frestað til næsta fundar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:55.

Ásta Þórisdóttir
Jón Jónsson
Eysteinn Gunnarsson
Viktoría Ólafsdóttir
Þorsteinn Sigfússon
Gunnlaugur Sighvatsson
Ásdís Leifsdóttir

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón