A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Auglýst eftir snjómyndum frá 1995

| 13. apríl 2012
Allt á kafi á Borgabraut - ljósm. Stefán Gíslason
Allt á kafi á Borgabraut - ljósm. Stefán Gíslason
Þeir sem voru með myndavélina á lofti snjóaveturinn mikla 1995 ættu að fara að grufla í albúmum og skoða gömlu vídeóspólurnar. Á Hamingjudögum í sumar verður nefnilega sett upp sýning um snjóaveturinn á Hólmavík 1995. Sýningin mun samanstanda af stórum ljósmyndum og vídeóefni, en nú þegar hefur talsvert borist af slíku efni sem er vægast sagt magnað að berja augum.

Þeir sem luma á efni af einhverju tagi geta haft samband við Arnar Snæberg Jónsson tómstundafulltrúa í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða í síma 894-1941.


Snjóaveturinn 1995 verður lengi í minnum hafður á Hólmavík sem og annars staðar. Þessi vetur var einn sá allra snjóþyngsti í manna minnum. Veðurfar var með ágætum fyrri part vetrar, en um miðjan janúar gerði stórhríð með gríðarlegri ofankomu. Segja má að á einni nóttu hafi allt farið í kaf. Á Hólmavík voru þök húsa nálægt því að sligast undan snjóþunganum og þurftu menn þá að moka svo klukkustundum skipti. Ekki reyndist mögulegt að ferðast um á venjulegum farartækjum fyrstu dagana eftir bylinn og í blaðaviðtölum vildu sumir jafnvel meina að snjóbílar kæmust ekki einu sinni leiðar sinnar. Veturinn 1995 er greyptur í huga flestra íbúa í Strandabyggð þó ekki sé langt um liðið. Fannfergið var með hreinum ólíkindum og ljósmyndir frá þessum tíma eru lyginni líkastar og í raun er ekki hægt að lýsa þeim í orðum. Yfirskrift sýningarinnar er "Allt á kafi".

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón