A A A

Valmynd

Fréttir

Hamingjuhlaupið

| 22. júní 2018
Hamingjuhlauparar 2016
Hamingjuhlauparar 2016

Hamingjuhlaupið er að sjálfsögðu á dagskrá 2018, en þetta er einmitt 10. árið í röð sem hlaupið er haldið. Hlaupin verður 34,9 kílómetra leið eftir gamla veginum yfir Tröllatunguheiði frá Króksfjarðarnesi til Hólmavíkur. Nánar tiltekið verður lagt af stað kl. 10:10 á laugardagsmorgninum frá vegamótum Vestfjarðavegar (nr. 60) og gamla Tröllatunguheiðarvegarins, rétt vestan við Króksfjarðarnes. Leiðin liggur öll eftir bílfærum vegi, fyrstu 25,8 km eftir malarvegi og síðustu 9,1 km á malbiki eftir þjóðvegi nr. 68 frá Húsavík í Steingrímsfirði til Hólmavíkur.


Hamingjuhlaupið er gleðihlaup en ekki keppnishlaup. Hlaupararnir halda yfirleitt hópinn og fylgja fyrir fram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa alla leið geta þess vegna byrjað á fyrir fram ákveðnum áningarstöðum í hlaupinu. Tímatöflu hlaupsins má sjá hér ásamt frekari upplýsingum um Hamingjuhlaupið.


Fyrsti áfangi hlaupsins er 5,3 km, að Heiðargötugili þar sem brekkurnar upp á heiðina byrja. Á þessum kafla er lítil hækkun, eða úr u.þ.b. 20 m.y.s. upp í tæplega 100 m. Annar áfangi, 7,0 km er frá Heiðargötugili upp á hæsta punkt heiðarinnar sem er í 420 m hæð rétt sunnan við Miðheiðarvatn. Eftir það er leiðin nánast öll á undanhaldinu.


Það er Stefán Gíslason, hamingjusamur bóndasonur og hlaupagikkur frá Gröf í Bitrufirði og fyrrum sveitarstjóri á Hólmavík, sem er upphafsmaður Hamingjuhlaupsins. Sagan segir að þátttakendur öðlist mikla hamingju að hlaupi loknu.

 

Strandanornir

| 22. júní 2018

Í sumar hafa Strandabyggð, Leikfélag Hólmavíkur, Rannsóknarsetur HÍ í Þjóðfræði og Sauðfjársetur á Ströndum í samstarfi staðið fyrir skapandi sumarstörfum. Hugmyndin er sú að ungt og upprennandi listafólk geti þróast í starfi í heimabyggð, fengið stuðning við starf á sínu áhugasviði, auðgað mannlífið og um leið sannfærst um að hægt sé að starfa við fjölbreytta og skapandi iðju í heimabyggð. Rakel Ýr Stefánsdóttir hefur sinnt starfi listræns stjórnanda verkefnisins í sumar og þátttakendur hafa verið Bára Örk Melsted, Alma Lind Ágústsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir. Hafa þær myndað listahópinn Strandanornir.

Laugardaginn 30.júní kl.14:30 á Galdratúninu mun listhópurinn Strandanornir sýna frumsamið verk. Í verkinu bregða fyrir örlaganornirnar sem rifja upp sögur af Ströndum. Frá kl.13:00 munu Strandanornir einnig taka á móti gestum í spádóm.

Hulda - Hver á sér fegra föðurland

| 21. júní 2018
Föstudagskvöldið 29.júní kl. 21:00 eru áhugaverðir tónleikar í kirkjunni á Hólmavík. 
Tónleikarnari Hulda-Hver á sér fegra föðurland.
Tónlistardagskrá í tali og tónum um líf skáldkonunnar Huldu
Helga Kvam, píanó og Þórhildur Örvarsdóttir, söngur

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind var fæddist þann 6. ágúst 1881 og lést 10. apríl 1946. Hún skrifaði ljóð og prósa undir skáldanafninu Hulda. Eitt þekktasta ljóð hennar var ættjarðarljóðið Hver á sér fegra föðurland úr ljóðaflokknum Söngvar helgaðir þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944, samið í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944 og var annað tveggja ljóða sem vann samkeppni um hátíðarljóð.

Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir hafa í nokkur ár starfað saman sem dúett (píanó/söngur) og haldið saman marga þematengda tónleika þar sem efnistökin eru oftar en ekki ákveðin ljóðskáld/tónskáld bæði úr klassískum grunni og heimi dægurtónlistar. Á þessum tónleikum verða flutt lög íslenskra tónskálda við texta Huldu ásamt frumflutningi á tónlist eftir Daníel Þorsteinsson sem hann sem hann samdi sérstaklega fyrir Helgu og Þórhildi fyrir þessa dagskrá. Tónlistinni er fléttað saman við frásagnir af lífi Huldu og verkum hennar.

Tónleikarnir eru styrktir af Sóknaráætlun Norðurlands eystra, KEA, Dagskrá Fullveldishátíðar og Listamannalaunum og unnir í samstarfi við Menningarmiðstöð Þingeyinga og Minjasafnið á Akureyri.

Aðgangseyrir á tónleikana er 3000 krónur, eldri borgarar og öryrkjar 2500 krónur, ókeypis inn fyrir 12 ára og yngri.

Frekari upplýsingar má finna hér

Brenna og Pub quiz

| 21. júní 2018
Pétur Örn Guðmundsson betur þekktur sem Pétur Jesú er fjölhæfur maður með húmorinn hátt á lofti. Eins og hann segir sjálfur á facebook síðu sinni: "For humor to work it has to be funny".
Hann ætlar að eyða föstudagskvöldinu 29.júní með okkur á Hamingjudögum. Á brennunni kl.20:00 mun hann stýra fjöldasöng og svo kl.22:00 mun hann skemmta okkur með fjölbreyttum spurningum í pub quiz á Café Riis (1.000 kr inn).


Hamingjugrill

| 20. júní 2018

Á Hamingjudögum hefur oftast verið haldin hverfapartý þar sem nágrannar hittast og eiga gleðistund saman. Í ár ætlum við að prufa að hafa eitt stórt sameiginlegt hverfapartý og grilla saman. Hamingjugrill verður kl.18:00 föstudaginn 29.júní í Fiskmarkaðinum. Á staðnum verða grill og borð en svo á hver og einn að koma með borðbúnað og mat á grillið fyrir sig og sína.
Það hefur verið í höndum hverfisstjóra að skipuleggja hverfsipartýin og munu því hverfisstjórarnir í ár halda utan um Hamingjugrillið. Einstaklingar sem sitja í Tómstunda-,íþrótta- og menningarnefnd munu taka að sér hlutverk hverfisstjóra í ár og eru það:

Gula hverfið (dreifbýli): Matthías Lýðsson
Rauða hverfið (frá þjóðvegi að Sýslumannshalla): Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir og Jóhanna Rósmundsdóttir
Appelsínugula hverfið (milli sýslumannshalla og kirkju): Júlíus Freyr Jónsson
Bláa hverfið (innan við kirkju): Angantýr Ernir Guðmundsson og Esther Ösp Valdimarsdóttir

Hlutverk hverfisstjóra er að halda uppi stemmningu fyrir hátíðina. Það er í þeirra höndum að skipuleggja Hamingjugrillið með tómstundafulltrúa. Hverfisstjórar hvetja einnig íbúa og fyrirtæki í hverfinu til að taka virkan þátt í hátíðinni með skreytingum, bakstri eða almennri gleði. Það er löngu vitað mál að hverfisstjórar eru skemmtilegasta fólkið í Strandabyggð og þar sem þeir eru, þar ríkir hamingja.

Nerf - byssubardagi

| 19. júní 2018
Ungmennaráð Strandabyggðar stendur fyrir viðburðinum Nerf-byssubardagi annað árið í röð. Viðburðurinn verður kl.18:00 föstudaginn 29.júní í Íþróttamiðstöðinni. Ungmennaráð mun setja upp vígvöll í íþróttasalnum og stýrir svo leikum þar sem markmiðið verður að allir leiki sér saman og hafi gaman af. Viðburðurinn er fyrir 10 ára og eldri og gert er ráð fyrir því að einstaklingar mæti með sínar eigin byssur og hlífðargleraugu.

Frjáls

| 18. júní 2018
« 1 af 2 »
Brynhildur Sverrisdóttir mun halda sína fyrstu ljósmyndasýningu á Hamingjudögum. Það sem veitir Brynhildi hamingju er að taka ljósmyndir. Hún hefur verið að taka ljósmyndir með símanum sínum en er byrjuð að æfa sig að taka myndir á ljósmyndavélar. Brynhildur vann ljósmyndakeppni Goðamótsins 2018 og má sjá myndina hennar hér með fréttinni ásamt annarri mynd sem hún hefur tekið. Ljósmyndasýningin Frjáls opnar formlega föstudaginn 29.júní kl. 17:00 og mun vera opin á laugardeginum 30.júní.

Setning Hamingjudaga og menningarverðlaun veitt

| 16. júní 2018
Setning Hamingjudaga verður föstudaginn 29.júní kl.17 í Hnyðju. Menningarverðlaunin verða veitt  og enn er tími til að skila inn tilnefningum.

Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar auglýsir eftir tilnefningum til Menningarverðlauna Strandabyggðar árið 2018.

Þetta árið verður Lóan veitt í níunda skiptið en áður hafa Sigríður Óladóttir kórstjórnandi, Leikfélag Hólmavíkur, Sauðfjársetrið (tvisvar sinnum), Grunnskólinn á Hólmavík, Þjóðfræðistofa á Ströndum, Einar Hákonarson listamaður og Steinshús við Djúp hlotið þau. Öflugt lista og menningarstarf er verðmætt öllum samfélögum en ekki síst litlum sveitarfélögum á borð við Strandabyggð og því er dýrmætt að verðlauna það sem vel er gert.

Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklings, félags, stofnunar, fyrirtækis eða hóps fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar í sveitarfélaginu á liðnu ári. Verðlaunaafhending fer fram á Hamingjudögum eins og hefð hefur skapast fyrir. 

Tilnefningum, ásamt rökstuðningi, má skila á skrifstofu Strandabyggðar eða á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is til miðnættis sunnudaginn 17. júní. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd skipar dómnefnd sem velur úr innsendum tillögum.

Fótboltamót

| 15. júní 2018
Fótboltamót HSS og Geislans 2015
Fótboltamót HSS og Geislans 2015
HSS mun vera halda fótboltamót fimmtudaginn 28.júní klukkan 18:00 á Grundum.

Öllum krökkum er velkomið að mæta og taka þátt en raðað verður í lið eftir þátttöku, styrkleika og aldri.
Mótið er fyrir stelpur og stráka, gesti og Hólmvíkinga. Skráning er ekki nauðsynleg en hægt er að skrá sig með því að hringja í Hörpu Óskarsdóttur framkvæmdarstjóra HSS í síma 894-3325.

Hamingjumarkaður

| 14. júní 2018
Að vanda verður haldinn markaður á Hamingjudögum.

Markaðurinn verður í Hnyðju þriðja árið í röð. Á markaðinum hefur alltaf myndast skemmtileg stemmning og ávallt er boðið upp á fjölbreytt úrval söluvarnings.

Vilt þú taka þátt í ár?
Það er hægt að panta borð í tölvupósti (tomstundafulltrui@strandabyggd.is) en það kostar ekkert að taka þátt.

Markaðurinn stendur frá kl 12-17 laugardaginn 1. júlí.
Eldri færslur

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón