A A A

Valmynd

Fréttir

30 ára afmćlissýning leikskólans Lćkjarbrekku

| 26. júní 2018

 Í tilefni af 30 ára afmæli leikskólans Lækjarbrekku og nýrri viðbyggingu var boðað til fögnuðar þann 9. febrúar 2018 í húsnæði leikskólans. Hægt var að skoða leikskólann, ljósmyndir og gullkorn liðins tíma og listaverk núverandi nemenda.   

Þessi fögnuður vakti mikla lukku og ætlum við því að endurtaka leikinn á Hamingjudögum. Laugardaginn 30.júní kl.13-16 verður leikskólinn Lækjarbrekka með opið hús þar sem hægt verður að skoða ljósmyndir og listaverk nemenda. Í Íþróttamiðstöð Hólmavíkur verður hægt að skoða listasýningu frá líðandi skólaári og svo munu gullkorn frá nemendum leikskólans hanga á ljósastaurum á hátíðarsvæðinu.

Zumba á Hamingjudögum

| 26. júní 2018

Kristbjörg Ágústsdóttir er orðin fastagestur í Íþróttamiðstöð Hólmavíkur og gerir marga íbúa Strandabyggðar mjög hamingjusama með reglulegri komu sinni. Kristbjörg er zumbakennari og ætlar ekki að láta sig vanta á Hamingjudaga 2018. Boðið verður upp á Aqua Zumba í sundlauginni og í ár verður einnig í boði Krakka Zumba sem verður í íþróttasalnum. Allir geta takið þátt í Zumba og notið sín í dansi og skemmtilegri tónlist.

Zumba er líkamsrækt, þar sem blandað er saman þolfimi og dansi. Sérstök áhersla er lögð á suður amerísk dansspor eins og salsa, merengue, reggateon, cumbia og samba en einnig spor frá alþjóðlegum dönsum eins og flamenco, bollywood og country. Hugmyndafræðin gengur út á það að nota skemmtilega tónlist og blanda saman hægum og hröðum takti við dansspor sem auðvelt er að fylgja eftir og þolfimi til að fá út líkamsrækt sem bæði reynir á þol og mótar líkamann. Hver tími er sannkallað partý sem bætir bæði andlega og líkamlega líðan. Zumba er skemmtileg æfingaformúla sem kemur hverjum manni og konu í gott skap. Allir geta verið með og því er um að gera að njóta tónlistarinnar, hreyfa sig og brosa. Zumba er fyrst og fremst skemmtun en einnig líkamsrækt í dulargerfi.

 

Aqua Zumba eða Zumba sundlaugarpartý byggir á sömu hugmyndafræði þar sem notuð er skemmtileg tónlist og blandað er saman hefðbundinni vatnsleikfimi og danssporum. Dansað er í djúpri laug og veitir vatnið aukna mótspyrnu auk þess sem það hentar til dæmis fólki sem ekki getur eða vill hoppa. Aqua Zumba er því örugg en krefjandi líkamsrækt í vatni sem reynir á þol og er líkamsmótandi en síðast en ekki síst ótrúlega hressandi. Það er alveg pottþétt mikill gusugangur  í sundlauginni þegar Aqua Zumba tími er.

 

Kristbjörg Ágústsdóttir er alþjóðlegur Zumba fitness kennari með réttindin til að kenna m.a. Aqua Zumba, Zumba kid's og Strong by zumba. Hún kynntist Zumba í Bandaríkjunum sumarið 2010 og féll alveg fyrir því. Í mars 2012 tók hún Zumba fitness réttindin og hefur síðan m.a. kennt Zumba og Zumba kids en síðustu ár hefur hún lagt áherslu á Aqua Zumba sem hefur notið gríðarlegra vinsælda. Nánari upplýsingar er að finna á www.kristbjorga.zumba.com

Tónleikar í Steinshúsi

| 26. júní 2018
Árið 2017 hlaut Steinshús Menningarverðlaunin fyrir eftirtektarvert menningarframtak í sveitarfélaginu. Steinshús hefur unnið ötullega að uppbyggingu gamla samkomuhússins á Nauteyri frá árinu 2008 og hefur nú breytt því í safn og fræðimannasetur til minningar um skáldið Stein Steinarr sem fæddist í Skjaldfannardal 1908. Bæði sýning og fræðimannasetur er gert af myndugleik og sveitarfélaginu til sóma, auk þess að halda á lofti merkum heimildum um eitt ástæslasta skáld þjóðarinnar.

Steinshús ætla nú að auðga Hamingjudaga með menningu með tónleikum fimmtudaginn 28.júní og föstudaginn 29.júní kl.20. Það verða sagðar sögur og spiluð tónlist við hæfi. Rúnar Þór, Tryggvi Hübner og Örn Jónsson koma fram.

Dagskrá á Café Riis

| 26. júní 2018
« 1 af 3 »

Café Riis hefur ávallt verið virkur þátttakendi í Hamingjudögum og er árið í ár engin undantekning.


HAMINGJUDAGAR Á CAFÉ RIIS

Föstudaginn 29.júni

18:00-21:00 Hlaðborð, borðpantanir í síma 451-3567
22:00 Pub quiz með Pétri Jesús fyrir 18 ára og eldri, 1.000 kr inn
23:00 Dansleikur með hljómsveitinni Króm fyrir 18 ára og eldri, kr inn

Laugardagurinn 30.júní
18:00-21:00 Hlaðborð, borðpantanir í síma 451-3567
21:00 Tónleikar með Bjartmari Guðlaugssyni fyrir 18 ára og eldri, 1.500 kr inn
23:00 Dansleikur með hljómsveitinni Króm fyrir 18 ára og eldri, kr inn

Sunnudagurinn 1.júlí
11:30-14:00 Morgunverðarhlaðborð, borðpantanir í síma 451-3567

Hamingjugrill gula hverfisins

| 26. júní 2018
Að horfa á Ísland spila í HM veitir einstaklingum í gula hverfinu hamingju og ætla þeir því að horfa á leikinn saman á Sævangi. Gula hverfið ætlar svo að taka forskot á sæluna og hita upp fyrir helgina með hverfagrilli strax eftir leikinn.
Góða skemmtun!

Hamingjuhlaupiđ

| 22. júní 2018
Hamingjuhlauparar 2016
Hamingjuhlauparar 2016

Hamingjuhlaupið er að sjálfsögðu á dagskrá 2018, en þetta er einmitt 10. árið í röð sem hlaupið er haldið. Hlaupin verður 34,9 kílómetra leið eftir gamla veginum yfir Tröllatunguheiði frá Króksfjarðarnesi til Hólmavíkur. Nánar tiltekið verður lagt af stað kl. 10:10 á laugardagsmorgninum frá vegamótum Vestfjarðavegar (nr. 60) og gamla Tröllatunguheiðarvegarins, rétt vestan við Króksfjarðarnes. Leiðin liggur öll eftir bílfærum vegi, fyrstu 25,8 km eftir malarvegi og síðustu 9,1 km á malbiki eftir þjóðvegi nr. 68 frá Húsavík í Steingrímsfirði til Hólmavíkur.


Hamingjuhlaupið er gleðihlaup en ekki keppnishlaup. Hlaupararnir halda yfirleitt hópinn og fylgja fyrir fram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa alla leið geta þess vegna byrjað á fyrir fram ákveðnum áningarstöðum í hlaupinu. Tímatöflu hlaupsins má sjá hér ásamt frekari upplýsingum um Hamingjuhlaupið.


Fyrsti áfangi hlaupsins er 5,3 km, að Heiðargötugili þar sem brekkurnar upp á heiðina byrja. Á þessum kafla er lítil hækkun, eða úr u.þ.b. 20 m.y.s. upp í tæplega 100 m. Annar áfangi, 7,0 km er frá Heiðargötugili upp á hæsta punkt heiðarinnar sem er í 420 m hæð rétt sunnan við Miðheiðarvatn. Eftir það er leiðin nánast öll á undanhaldinu.


Það er Stefán Gíslason, hamingjusamur bóndasonur og hlaupagikkur frá Gröf í Bitrufirði og fyrrum sveitarstjóri á Hólmavík, sem er upphafsmaður Hamingjuhlaupsins. Sagan segir að þátttakendur öðlist mikla hamingju að hlaupi loknu.

 

Strandanornir

| 22. júní 2018

Í sumar hafa Strandabyggð, Leikfélag Hólmavíkur, Rannsóknarsetur HÍ í Þjóðfræði og Sauðfjársetur á Ströndum í samstarfi staðið fyrir skapandi sumarstörfum. Hugmyndin er sú að ungt og upprennandi listafólk geti þróast í starfi í heimabyggð, fengið stuðning við starf á sínu áhugasviði, auðgað mannlífið og um leið sannfærst um að hægt sé að starfa við fjölbreytta og skapandi iðju í heimabyggð. Rakel Ýr Stefánsdóttir hefur sinnt starfi listræns stjórnanda verkefnisins í sumar og þátttakendur hafa verið Bára Örk Melsted, Alma Lind Ágústsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir. Hafa þær myndað listahópinn Strandanornir.

Laugardaginn 30.júní kl.14:30 á Galdratúninu mun listhópurinn Strandanornir sýna frumsamið verk. Í verkinu bregða fyrir örlaganornirnar sem rifja upp sögur af Ströndum. Frá kl.13:00 munu Strandanornir einnig taka á móti gestum í spádóm.

Hulda - Hver á sér fegra föđurland

| 21. júní 2018
Föstudagskvöldið 29.júní kl. 21:00 eru áhugaverðir tónleikar í kirkjunni á Hólmavík. 
Tónleikarnari Hulda-Hver á sér fegra föðurland.
Tónlistardagskrá í tali og tónum um líf skáldkonunnar Huldu
Helga Kvam, píanó og Þórhildur Örvarsdóttir, söngur

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind var fæddist þann 6. ágúst 1881 og lést 10. apríl 1946. Hún skrifaði ljóð og prósa undir skáldanafninu Hulda. Eitt þekktasta ljóð hennar var ættjarðarljóðið Hver á sér fegra föðurland úr ljóðaflokknum Söngvar helgaðir þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944, samið í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944 og var annað tveggja ljóða sem vann samkeppni um hátíðarljóð.

Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir hafa í nokkur ár starfað saman sem dúett (píanó/söngur) og haldið saman marga þematengda tónleika þar sem efnistökin eru oftar en ekki ákveðin ljóðskáld/tónskáld bæði úr klassískum grunni og heimi dægurtónlistar. Á þessum tónleikum verða flutt lög íslenskra tónskálda við texta Huldu ásamt frumflutningi á tónlist eftir Daníel Þorsteinsson sem hann sem hann samdi sérstaklega fyrir Helgu og Þórhildi fyrir þessa dagskrá. Tónlistinni er fléttað saman við frásagnir af lífi Huldu og verkum hennar.

Tónleikarnir eru styrktir af Sóknaráætlun Norðurlands eystra, KEA, Dagskrá Fullveldishátíðar og Listamannalaunum og unnir í samstarfi við Menningarmiðstöð Þingeyinga og Minjasafnið á Akureyri.

Aðgangseyrir á tónleikana er 3000 krónur, eldri borgarar og öryrkjar 2500 krónur, ókeypis inn fyrir 12 ára og yngri.

Frekari upplýsingar má finna hér

Brenna og Pub quiz

| 21. júní 2018
Pétur Örn Guðmundsson betur þekktur sem Pétur Jesú er fjölhæfur maður með húmorinn hátt á lofti. Eins og hann segir sjálfur á facebook síðu sinni: "For humor to work it has to be funny".
Hann ætlar að eyða föstudagskvöldinu 29.júní með okkur á Hamingjudögum. Á brennunni kl.20:00 mun hann stýra fjöldasöng og svo kl.22:00 mun hann skemmta okkur með fjölbreyttum spurningum í pub quiz á Café Riis (1.000 kr inn).


Hamingjugrill

| 20. júní 2018

Á Hamingjudögum hefur oftast verið haldin hverfapartý þar sem nágrannar hittast og eiga gleðistund saman. Í ár ætlum við að prufa að hafa eitt stórt sameiginlegt hverfapartý og grilla saman. Hamingjugrill verður kl.18:00 föstudaginn 29.júní í Fiskmarkaðinum. Á staðnum verða grill og borð en svo á hver og einn að koma með borðbúnað og mat á grillið fyrir sig og sína.
Það hefur verið í höndum hverfisstjóra að skipuleggja hverfsipartýin og munu því hverfisstjórarnir í ár halda utan um Hamingjugrillið. Einstaklingar sem sitja í Tómstunda-,íþrótta- og menningarnefnd munu taka að sér hlutverk hverfisstjóra í ár og eru það:

Gula hverfið (dreifbýli): Matthías Lýðsson
Rauða hverfið (frá þjóðvegi að Sýslumannshalla): Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir og Jóhanna Rósmundsdóttir
Appelsínugula hverfið (milli sýslumannshalla og kirkju): Júlíus Freyr Jónsson
Bláa hverfið (innan við kirkju): Angantýr Ernir Guðmundsson og Esther Ösp Valdimarsdóttir

Hlutverk hverfisstjóra er að halda uppi stemmningu fyrir hátíðina. Það er í þeirra höndum að skipuleggja Hamingjugrillið með tómstundafulltrúa. Hverfisstjórar hvetja einnig íbúa og fyrirtæki í hverfinu til að taka virkan þátt í hátíðinni með skreytingum, bakstri eða almennri gleði. Það er löngu vitað mál að hverfisstjórar eru skemmtilegasta fólkið í Strandabyggð og þar sem þeir eru, þar ríkir hamingja.

Eldri fćrslur

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón