A A A

Valmynd

Fréttir

Hamingjuhlaupiđ

Íris Ósk Ingadóttir | 28. júní 2016

Það er Stefán Gíslason, hamingjusamur bóndasonur og hlaupagikkur frá Gröf í Bitrufirði og fyrrum sveitarstjóri á Hólmavík, sem er upphafsmaður Hamingjuhlaupsins. Sagan segir að þátttakendur öðlist mikla hamingju að hlaupi loknu. 

Hamingjuhlaupið 2016 hefst á hlaðinu á Laugarhóli í Bjarnarfirði kl. 10:00 árdegis. Stefnan er tekin suður á bóginn og yfir brúna á Bjarnarfjarðará. Á vegamótunum sunnan við brúna er beygt til hægri og veginum fylgt örskamman spöl að sumarbústað sem stendur rétt ofan við veginn. Þar í grennd er beygt til fjalls og gömlum slóða fylgt upp á Bjarnarfjarðarháls. Hlaupið er upp á Sandneshrygg með Grjóthólmavatn á hægri hönd og Haugsvatn skömmu síðar. Leiðin liggur svo niður brekkurnar vestan við Kolsá alla leið niður á veg við Sandnesbæinn. Þar með er fjallahlaupahluta leiðarinnar lokið og eftir það er hlaupið eftir aðalveginum inn fyrir Steingrímsfjörð og alla leið til Hólmavíkur, þó með þeirri undantekningu að hlaupið er eftir gamla veginum fyrir ofan Grænanes.

Vegalengdin sem um ræðir er lauslega áætluð um 32,1 km og þeir sem ekki treysta sér alla leiðina geta slegist í hópinn hvar sem er eftir að komið er niður að Sandnesi. 

Hlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun. Ekki er þörf á að skrá sig í hlaupið. Þeir sem ekki treysta sér í jafn langt hlaup og þetta geta þess vegna byrjað á fyrirfram ákveðnum áningarstöðum í hlaupinu. Nánari upplýsingar um hlaupið má finnar hér.

Kassabílarallý

Íris Ósk Ingadóttir | 27. júní 2016

Kassabílarallýið er einn af föstum liðum á Hamingjudögum og veitir mörgum gleði og hamingju. Í ár mun keppnin vera haldin á laugardeginum kl. 12:30 á malbikaða planinu á bak við Hólmadrang. Hver og einn mætir með sinn kassabíl og er skylda að bera hjálm í keppninni. Verðlaun verða veitt fyrir fyrsta sætið og frumlegasta bílinn. Það er því ekki seinna vænna en að fara gera sinn kassabíl tilbúinn.

Marinó Helgi Sigurðsson var sigurskarpastur í rallýinu árið 2015 og Kristinn Jón Karlsson fékk verðlaun fyrir frumlegasta bílinn.  

Sýningar á Hamingjudögum 2016

Íris Ósk Ingadóttir | 24. júní 2016

Eftir viku mun hátíðin okkar Hamingjudagar 2016 vera formlega sett með afhendingu Menningarverðlauna Strandabyggðar í Hnyðju. Sama dag munu tvær glæsilegar sýningar vera opnar. 
Náttúrubörn á Ströndum er ljósmyndasýning sem endurspeglar magnaða og fjölbreytta náttúru og dýralíf á Ströndum. Sýningin verður opnuð á Hamingjudögum 2016 í sal Kaupfélagsins á Hólmavík. Náttúrubarnaskólinn á Sauðfjársetrinu í Sævangi stendur fyrir sýningunni og boðið verður upp á dýrindis hamingjujurtaseyði við opnunina. Sýningin verður svo opin alla helgina frá kl. 09:00 til kl. 22:30. Það er gaman að segja frá því að á sama stað í Hnyðju mun vera auður strigi og málning þar sem öllum er velkomið að taka upp pensil og mála. Saman munum við búa til Hamingjulistaverk.
Dillur er fyrsta einkasýning Andreu Kristínar Jónsdóttur - AnKrJó - á eigin verkum en áður hefur hún tekið þátt í nemendasýningu við Myndlistaskóla Mosfellsbæjar. Verkin eru ýmist unnin á krossvið eða bleyjuléreft og oftast notar hún akrílmálningu þótt önnur efni blandist við á köflum. Sýningin verður opin alla helgina frá kl. 12:00 til 18:00. 

Hnallţórukeppni

Íris Ósk Ingadóttir | 21. júní 2016

Hnallþóruhlaðborðið er einn af stærstu viðburðum Hamingjudaga ár hvert.

Við hvetjum alla þá sem mögulega hafa tök á að baka köku að gera það og mæta með hana á hlaðborðið til að tryggja að allir fái eitthvað að smakka!

Vegleg verðlaun eru í boði fyrir flottustu hnallþórurnar.

Sveitastjórn mun sjá um dómgæslu í Hnallþóru­keppninni í ár.

Mikilvægt er að fólk komi með terturnar að Vigtarskúr milli kl. 13:00 og 14:00 á laugardeginum 2. júlí.

Að lokum er fólk hvatt til að merkja hnífa, spaða og diska vel svo ekkert glatist nú!

Laust sýningarpláss

Íris Ósk Ingadóttir | 21. júní 2016
Í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík er laust sýningarpláss. Ef þú eða einhver sem þú þekkir vilt nýta tækifærið hafið þá samband við Írisi Ósk tómstundafulltrúa í síma 846-0281 eða sendið tölvupóst tomstundafulltrui@strandabyggd.is

Markađur á Hamingjudögum

Íris Ósk Ingadóttir | 15. júní 2016
Eins og undanfarin ár býðst áhugasömum aðilum að selja varning á sölubásum á Hamingjudögum laugardaginn 2. júlí frá kl. 12:00-17:00. Með básnum fylgir tvö borð og aðgangur að rafmagni. Verð á básnum er 1.500 kr. Markaðurinn verður staðsettur ef veður leyfir við Galdratúnið í veislutjöldum.


Söluaðilar á Ströndum eru eindregið hvattir til að láta vita af sér tímanlega. Tekið er við skráningum á sölubása til mánudagsins 27. júní. Vinsamlegast látið vita sem allra fyrst í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða í s. 846-0281 Íris Ósk.

Auglýst eftir tilnefningum til Menningarverđlauna

Íris Ósk Ingadóttir | 15. júní 2016
Tómstunda-, íþrótta- og menningarmálanefnd Strandabyggðar auglýsir eftir tilnefningum til Menningarverðlauna Strandabyggðar, en þau verða veitt á Hamingjudögum. Þetta er í sjöunda skiptið sem verðlaunin og verðlaunagripurinn Lóan verða veitt, en áður hafa Sigríður Óladóttir kórstjórnandi, Leikfélag Hólmavíkur, Sauðfjársetrið, Grunnskólinn á Hólmavík, Þjóðfræðistofa á Ströndum og Einar Hákonarson listamaður hlotið þau.

Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklings, félags, stofnunar, fyrirtækis eða hóps fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar í sveitarfélaginu á liðnu ári.

Tilnefningum má skila á skrifstofu Strandabyggðar eða á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is til miðnættis miðvikudaginn 22. júní. Tómstunda-, íþrótta- og menningarmálanefnd skipar dómnefnd sem velur úr innsendum tillögum.

Undirbúningur Hamingjudaga 2016

Íris Ósk Ingadóttir | 08. apríl 2016
Nú er skipulagning Hamingjudaga 2016 hafin.

Ef þú, þínir eða vinir þínir viljið leggja eitthvað af mörkum, standa fyrir uppákomu, sýna listir ykkar, opna húsið ykkar eða hvað eina er mögulegt að setja sig í samband við Íris Ósk á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

Hamingjudagar eru hátið fólksins en megintilgangur hátíðarinnar er að sem flestir taki virkan þátt í hátíðinni og öðlist með þeim hætti aukna hamingju og hugarró og fyllist af gleði og kærleika.

Hamingjudagar 2016

Salbjörg Engilbertsdóttir | 14. janúar 2016

Dagskrá Hamingjudaga sem eru haldnir 30. júní - 3. júlí er komin á vefinn og hana má finna hér

Dagskráin er glæsileg í ár eins og áður þar sem við höldum fast í ákveðnar hefðir en beytum einnig út af vananum. Dagskrá á vegum sveitarfélagsins verður aðeins á laugardeginum en aðra daga hátíðarinnar munum við leyfa fyrirtækjum, félögum og einstaklingum að njóta sín. Í ár munum við prufa að sleppa formlegum hverfafundum. Við viljum samt sem áður hvetja fólk til að hafa snyrtilegt í sínu hverfi og skreyta. Gaman væri líka að sjá nágranna grilla saman yfir hátíðina og mun KSH bjóða upp á tilboð á eitthverju girnilegu á grillið.

 

Á næstu dögum munum við telja niður í hátíðina okkar með skemmtilegum upplýsingum hér á vefnum svo fylgist með. Ef það eru eitthverjar spurning hafið þá samband við Írisi Ósk tómstundafulltrúa í síma 846-0281 eða tomstundafulltrui@standabyggd.is

Menningarverđlaun 2015

Ingibjörg Benediktsdóttir | 22. september 2015
Sigríđur Óladóttir fékk menningarverđlaun áriđ 2015
Sigríđur Óladóttir fékk menningarverđlaun áriđ 2015

Menningarverðlaun Strandabyggðar 2015 voru veitt á opnunarhátíð Hamingjudaga í Hnyðju föstudaginn 26. júní. Að þessu sinni hlaut Sigríður Óladóttir menningarverðlaun fyrir aðkomu að menningarmálum í Strandabyggð. Öflugu kórastarfi með kvennakórnum Norðurljós og vegna uppsetninga á leikritum í samvinnu við stofnanir í Strandabyggð og nú síðast, frumflutnings á söngleiknum Eddi mörgæs bjargar heiminum, sem sett var upp í samstarfi við Leikskólann Lækjarbrekku og Grunnskólann á Hólmavík.           

Sérstök heiðursverðlaun hlaut Galdrasýningin sem hefur unnið brautryðjendastarf í  menningarmálum í Strandabyggð frá stofnun safnsins en það fagnar 15 ára afmæli sínu á árinu. Galdrasýning á Hólmavík er eitt af merkustu söfnum heims og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar t.d.  Eyrarrósina. 

Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar veitir Menningarverðlaun að fengnum  tilnefningum.  Verðlaunin eru veitt fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar á liðnu ári og er markmiðið að efla menningar og listastarf í Strandabyggð.   Nefndinni er einnig heimilt að veita sérstakar viðurkenningar og heiðursverðlaun vegna menningarmála.

Stefán Gíslason fékk sérstaka viðurkenningu og þakkir frá íbúum fyrir

Fyrir ómetanlegt starf við framkvæmd og umsjón með hamingjuhlaupinu, óbilandi jákvæðni og hvatningu við keppendur.

Við óskum þessu frábæru aðilum innilega til hamingju!

Eldri fćrslur

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón