A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Til fyrirmyndar: Finna Hótel og Gistihúsið Steinhúsið

| 13. maí 2011
Mynd af vef Steinhússins: www.steinhusid.is
Mynd af vef Steinhússins: www.steinhusid.is
Vefurinn www.strandabyggd.is flytur helstu fréttir af því sem er að gerast í starfsemi sveitarfélagsins Strandabyggðar. Til viðbótar mun nú hefjast fréttaþáttur sem nefnist Til fyrirmyndar þar sem horft er til þess sem vel er gert á Ströndum. Fyrstir fyrir valinu og vel til þess fallnir eru gististaðirnir Finna Hótel og Gistihúsið Steinhúsið sem hjónin Sævar Benediktsson og Elísabet Pálsdóttir eiga og reka í skemmtilegri samvinnu við dætur sínar, Sigrúnu og Guðfinnu.

Hjónin Sævar og Elísabet tóku við gistiheimilinu á Borgabraut 4 á s.l. ári og í haust breyttu þau starfseminni í Finna Hótel þar sem þau vinna nú að gagngerum endurbótum. Þau hafa þegar hafið vinnu við að bæta glæsilegum baðherbergjum inn á herbergi á hótelinu og stendur til að halda þeirri vinnu áfram næsta haust eftir að ferðasumrinu lýkur að sögn Sævars. Þá eru þau að færa móttöku hótelsins yfir í sólskála sem byggður er við húsið og eru að bæta aðgengi fyrir gesti og gangandi, m.a. skábraut fyrir hjólastóla sem er til fyrirmyndar að mati www.strandabyggd.is, en aðgengi fyrir hreyfihamlaða er því miður víða ófullnægjandi í Strandabyggð. Frekari upplýsingar um Finna-hótel má sjá hér.

Þessa dagana er verið að klæða Gistihúsið Steinhúsið en þar er boðið upp á gistingu í húsi með sögu og sál sem byggt var árið 1911. Það voru hjónin Jakobína Thorarensen og Guðjón Brynjólfsson sem byggðu húsið sem verður 100 ára á þessu ári. Systurnar Sigrún og Guðfinna Sævarsdætur keyptu húsið árið 2006 og hófu enduruppgerð þess ásamt foreldrum sínum og hefur sú uppbygging tekist með eindæmum vel eins og sjá má hér. Í Steinhúsinu er bæði boðið upp á fallegar hótelíbúðir og gistingu í herbergjum í afar sjarmerandi gistihúsi.

Sveitarfélagið Strandabyggð óskar Sævari Benediktssyni, Elísabetu Pálsdóttur og dætrum þeirra til hamingju með hversu vel hefur tekist til og óskar þeim velfarnaðar í áframhaldandi uppbyggingu á ferðaþjónustu á Ströndum.

Fréttaþátturinn Til fyrirmyndar er afsprengi hvatningarátaksins Til fyrirmyndar sem tileinkað var Frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni á 30 ára kosningarafmæli Vigdísar, þann 29. júní 2010. Í átakinu voru Íslendingar hvattir til að staldra við og huga að því sem vel er gert, jafnt stóru sem smáu. Sveitarfélagið Strandabyggð hvetur lesendur til að senda inn ábendingar um það sem ykkur finnst vera til fyrirmyndar á Ströndum. Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Strandabyggðar eða sendið póst á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is merkt Til fyrirmyndar.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón