A A A

Valmynd

Fréttir

Arnar Snæberg Jónsson sér um Hamingjudaga

| 16. febrúar 2011

Nú hefur verið ákveðið að Arnar Snæberg Jónsson, nýráðinn tómstundafulltrúi Strandabyggðar, taki að sér undirbúning og skipulagningu Hamingjudaga. Eins og verið hefur frá upphafi verður framkvæmdin öll unnin í nánu samráði við Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar.

 Arnar hefur þegar hafið störf við undirbúninginn og allar hugmyndir íbúa og velunnara hátíðarinnar eru vel þegnar! Netfang hjá Arnari er tomstundafulltrui@strandabyggd.is og símanúmer 894-1941.

Nýr vefur Hamingjudaga

| 15. febrúar 2011

Þessa dagana er splunkunýr vefur Hamingjudaga á Hólmavík að líta dagsins ljós hér á veraldarvefnum undir léninu hamingjudagar.is. Um allnokkurt skeið hafa vefmál hátíðarinnar verið í hálfgerðum ólestri, en loksins er komin lausn á því og hamingjan ríkir því á netinu jafnt sem annars staðar í Strandabyggð!

Hamingjusöm stemmning við varðeldinn

| 03. júlí 2010

Talsverður fólksfjöldi var kominn til Hólmavíkur í gærkvöldi þegar setningarathöfn Hamingjudaga fór fram. Fyrr um daginn var kassabílasmiðjan opin, stórgóðir tónleikar með Svavari Knúti og Raddbandafélagi Reykjavíkur, undir stjórn Steingríms Þórhallssonar fóru fram í Bragganum og Furðufataball var haldið fyrir alla fjölskylduna. Við varðeldinn flutti svo Jón Jónsson á Kirkjubóli Hamingjuræðuna, Gísli og Rögnvaldur gáfaði skemmtu gestum og stóðu fyrir inntökuprófum í laglausa kórinn sem nú er skipaður fimm valinkunnum Strandamönnum sem eiga það sameiginlegt að vera laglausir frá náttúrunnar hendi. Loks léku þeir Gunnar og Guðmundur Jóhannssynir og Gulli Bjarna fyrir fjöldasöng. Að því loknu héldu þér allra hörðustu á dansleik með Bjarna og Stebba á Café Riis.

Söngæfing hjá Heiðu Ólafs

| 02. júlí 2010

Í dag, föstudaginn 2. júlí, milli kl 15 og 18 verða söngæfingar hjá Heiðu Ólafs í Grunnskólanum á Hólmavík fyrir þátttakendur í söngkeppni barna 6-14 ára. Keppendur hafa verið látnir vita hvenær þeirra æfingatími er og frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri (Stína) í síma 8673164.

Húsfyllir og gríðarleg stemmning á fyrsta degi Hamingjudaga

| 02. júlí 2010
Eyþór Ingi sló í gegn á tónleikunum í kvöld
Eyþór Ingi sló í gegn á tónleikunum í kvöld

Rokkaðdáendur fylltu Braggann á Hólmavík í kvöld, á fyrsta viðburði dagskrár Hamingjudaga á Hólmavík. Fimm manna hljómsveit flutti þar Deep purple tribute við feikigóðar undirtektir heimamanna og fjölda gesta sem komnir voru á svæðið. Gestirnir létu rigninguna ekkert á sig fá, enda er útlit fyrir að henni sé að mestu lokið og veðurútlitið næstu daga mun betra en lengi var ætlað. Framundan er fjöldi viðburða og meðal listamanna sem fram koma eru Gísli Einarsson og Rögnvaldur gáfaði, Geirmundur Valtýsson, Jón á Berginu, Raddbandafélag Reykjavíkur, Svavar Knútur og hljómsveitin Hraun, töframaðurinn Jón Víðis og fleiri. Sýningar og sagnatjald, brúðuleikhús og hnallþóruhlaðborð verða á sínum stað ásamt götuleikhúsi. Þá setja undarlegir viðburðir eins og laglaus kór, skítkast og öskurkeppni svip sinn á þessa sjöttu Hamingjudaga sem haldnir eru á Hólmavík. Dagskránni lýkur kl 18 á sunnudag.

Söngkeppni barna

| 30. júní 2010
Magdalena Lýðsdóttir í söngkeppni á Hamingjudögum á Hólmavík
Magdalena Lýðsdóttir í söngkeppni á Hamingjudögum á Hólmavík
Æfing á föstudaginn fyrir söngkeppni barna verður kl 15-18 í Grunnskólanum og einnig verður haft samband við keppendur. Verið er að vinna í því að birta lista yfir þau lög sem til eru í karókí hér á síðunni og eins verður boðið upp á undirleik
(á gítar).

Mígandi hamingja á Hólmavík!

| 30. júní 2010
Laglausi kórinn, léttmessa, hamingjulaup, hnallþórur, furðuleikarnir og fiskur á Hamingjudögum á Hólmavík 1 - 4 júlí.

 

Strandamenn eru ekki venjulegt fólk og því er það engin venjuleg dagskrá sem boðið verður upp á á Hamingjudögum Strandamanna sem haldnir verða á Hólmavík í sjötta sinn dagana 1. - 4. Júlí næstkomandi. Strandamenn eru sem betur fer ekki við hestaheilsu og því setja hrossasjúkdómar ekki strik í reikninginn þegar þeir ætla að gera sér glaðan dag.
Boðið er upp á gríðarlega fjölbreitta dagskrá þar sem grín og glens er í fyrirrúmi en þó fyrst og fremst helber hamingja enda er það vísindalega sannað að Strandamenn eru hamingjusömustu íbúar jarðarkringlunnar. Á Ströndum brosir hver einasti maður hringinn, og jafnvel einn og hálfan, hvernig sem viðrar og sama hvaða hörmungar dynja á heimsbyggðinni.
Meðal þess sem hægt er að berja augum og taka þátt í á Hamningjudögum er kassabílasmiðja, Hamingjuhlaup, götuleikhús, brúðuleikhús, hnallþóruhlaðborð, söngvakeppni barnanna, hamingjudansleikur, léttmessa í Hólmavíkurkrikju, Furðufataball fjölskyldunnar og Furðuleikar Sauðfjársetursins þar sem meðal annars er keppt í kvennahlaupi, trjónufótbolta og fleiri stórfurðulegum íþróttagreinum.
Þá koma fram á hátíðinni tónlistarmennirnir Svavar Knútur og Raddbandafélag Reykjavíkur, Geirmundur Valtýsson, hljómsveitin Hraun og Jón á Berginu. Ennfremur töframaðurinn Jón Víðis og tveir af undarlegustu mönnum landsins, Gísli Einarsson, fréttamaður og Rögnvaldur Gáfaði láta gamminn geysa í uppistandi við setningu hátíðarinnar á Kópnesi.
Hvað sem öðru líður þá á það að vera líðum ljóst að hamingjan á lögheimili á Ströndum og það getur hver sem er sannreynt um þessa helgi.
Nánari upplýsingar gefur Kristín Sigurrós Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Hamingjudaga. S: 8673164

Kassabílasmiðjan hefst á miðvikudaginn

| 28. júní 2010
Kassabílasmiðjan sem frá upphafi hefur verið órjúfanlegur hluti af Hamingjudögum hefst að þessu sinni eftir hádegi á miðvikudaginn og verður frá kl 13-17 þann dag og einnig á fimmtudaginn. Verði einhverjir bílar ókláraðir þá gefst færi á að klára á föstudaginn. Þeir sem eru að smíða nýja bíla frá grunni þurfa að koma með dekk á bílana og ef til vill sæti en timbur verður á staðnum og málning. Kassabílasmiðjan er við Handverkshús Hafþórs á Höfðagötu og þar fer hið stórkostlega kassabíarallý fram á laugardaginn kl 12:30-13:30.

Svavar Knútur og Raddbandafélag Reykjavíkur stilla saman strengi sína

| 22. júní 2010
Hamingjudagar á Hólmavík innihalda sem fyrr heilmikla tónlistarveislu. Föstudagskvöldið 2. júlí munu Svavar Knútur og Raddbandafélag Reykjavíkur halda sameiginlega tónleika í Bragganum á Hólmavík. Tónleikarnir hefjast kl 20 og miðaverð er krónur 1.500.- en frítt fyrir börn.
Svavar Knút ætti vart að þurfa að kynna, en hann hefur spilað víða um land með hljómsveitinni Hraun eða einn og sér. Undanfarna fimm mánuði hefur Svavar verið á tónleikaferðalagi um Ástralíu og hefur auk þess gegnum tíðina haldið tónleika víða um heim. Þetta er í annað sinn sem Svavar heiðrar Hamingjudaga með nærveru sinni en í fyrra hélt hann tónleika í Hólmavíkurkirkju ásamt Árstíðum. Nánari upplýsingar um Svavar Knút og tónlist hans er að finna á vefsíðunni myspace.com/mrknutur auk þess sem hann er á facebook.
Raddbandafélag Reykjavíkur er sönghópur sem hefur faglegan metnað að leiðarljósi en félagslega hliðin er aldrei langt undan og léttleiki svífur yfir vötnum. Hvort tveggja er látið haldast í hendur og vera gagnverkandi í allri starfsemi sönghópsins. Viðfangsefnin spanna vítt svið og tekur kórinn fyrir lög af ólíkum stíltegundum og frá ólíkum tímabilum tónlistarsögunnar og syngur Raddbandafélagið hvort sem er án eða með undirleiks. Á fjölbreyttri efnisskrá sönghópsins er m.a. að finna íslensk og erlend þjóðlög og sönglög, barbershop lög og erlend dægurlög í léttri sveiflu. Stjórnandi Raddbandafélagsins er Steingrímur Þórhallsson sem um tíma var tónlistarkennar og organisti á Hólmavík en hefur í nokkur ár verið organisti í Neskirkju. Upplýsingar um Raddbandafélagið er að finna á vefsíðunni Raddbandafélag.is.

Hamingjudagar 2010 hefjast með stórtónleikum í Bragganum

| 19. júní 2010
Eyþór Ingi Gunnlaugsson
Eyþór Ingi Gunnlaugsson

Hamingjudagar á Hólmavík 2010 hefjast með stórtónleikum í Bragganum fimmtudagskvöldið 1. júlí. Um er að ræða Deep purple tribute þar sem fimm manna hljómsveit stígur á stokk með rúmlega tveggja tíma prógram. Hólmvíkingurinn Jón Ingmundarson leikur á hljómborð og Eyþór Ingi Gunnlaugsson, sem er meðal annars þekktur úr bandinu hans Bubba syngur. Aðrir hljóðfæraleikarar eru Andri Ívarsson gítarleikari, Gunnar Leó Pálsson sem leikur á trommur og Arnar Ingi Hreiðarsson bassaleikari.

Það er því um að gera að taka kvöldið frá fyrir þennan stóra tónlistarviðburð. Miðaverð er kr 1.500 og verða tónleikarnir í Bragganum. Miðasala hefst við innganginn kl 20:15.

Þess má geta að eftir stórbættar samgöngur til Hólmavíkur á síðasta ári tekur aðeins um tvo tíma að aka þangað úr Borgarnesi, klukkutíma úr Búðardal, tvo tíma frá Hvammstanga, 40 mínútur frá Reykhólum og tvo og hálfan tíma frá Ísafirði. Hólmavík er því meira miðsvæðis en flestir aðrir þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni.

Eldri færslur

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón