Söngkeppni barna
(á gítar).
Strandamenn eru ekki venjulegt fólk og því er það engin venjuleg dagskrá sem boðið verður upp á á Hamingjudögum Strandamanna sem haldnir verða á Hólmavík í sjötta sinn dagana 1. - 4. Júlí næstkomandi. Strandamenn eru sem betur fer ekki við hestaheilsu og því setja hrossasjúkdómar ekki strik í reikninginn þegar þeir ætla að gera sér glaðan dag.
Boðið er upp á gríðarlega fjölbreitta dagskrá þar sem grín og glens er í fyrirrúmi en þó fyrst og fremst helber hamingja enda er það vísindalega sannað að Strandamenn eru hamingjusömustu íbúar jarðarkringlunnar. Á Ströndum brosir hver einasti maður hringinn, og jafnvel einn og hálfan, hvernig sem viðrar og sama hvaða hörmungar dynja á heimsbyggðinni.
Meðal þess sem hægt er að berja augum og taka þátt í á Hamningjudögum er kassabílasmiðja, Hamingjuhlaup, götuleikhús, brúðuleikhús, hnallþóruhlaðborð, söngvakeppni barnanna, hamingjudansleikur, léttmessa í Hólmavíkurkrikju, Furðufataball fjölskyldunnar og Furðuleikar Sauðfjársetursins þar sem meðal annars er keppt í kvennahlaupi, trjónufótbolta og fleiri stórfurðulegum íþróttagreinum.
Þá koma fram á hátíðinni tónlistarmennirnir Svavar Knútur og Raddbandafélag Reykjavíkur, Geirmundur Valtýsson, hljómsveitin Hraun og Jón á Berginu. Ennfremur töframaðurinn Jón Víðis og tveir af undarlegustu mönnum landsins, Gísli Einarsson, fréttamaður og Rögnvaldur Gáfaði láta gamminn geysa í uppistandi við setningu hátíðarinnar á Kópnesi.
Hvað sem öðru líður þá á það að vera líðum ljóst að hamingjan á lögheimili á Ströndum og það getur hver sem er sannreynt um þessa helgi.
Nánari upplýsingar gefur Kristín Sigurrós Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Hamingjudaga. S: 8673164
Hamingjudagar á Hólmavík 2010 hefjast með stórtónleikum í Bragganum fimmtudagskvöldið 1. júlí. Um er að ræða Deep purple tribute þar sem fimm manna hljómsveit stígur á stokk með rúmlega tveggja tíma prógram. Hólmvíkingurinn Jón Ingmundarson leikur á hljómborð og Eyþór Ingi Gunnlaugsson, sem er meðal annars þekktur úr bandinu hans Bubba syngur. Aðrir hljóðfæraleikarar eru Andri Ívarsson gítarleikari, Gunnar Leó Pálsson sem leikur á trommur og Arnar Ingi Hreiðarsson bassaleikari.
Það er því um að gera að taka kvöldið frá fyrir þennan stóra tónlistarviðburð. Miðaverð er kr 1.500 og verða tónleikarnir í Bragganum. Miðasala hefst við innganginn kl 20:15.
Þess má geta að eftir stórbættar samgöngur til Hólmavíkur á síðasta ári tekur aðeins um tvo tíma að aka þangað úr Borgarnesi, klukkutíma úr Búðardal, tvo tíma frá Hvammstanga, 40 mínútur frá Reykhólum og tvo og hálfan tíma frá Ísafirði. Hólmavík er því meira miðsvæðis en flestir aðrir þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni.
Hverfafundir vegna Hamingjudaga 2010 verða haldnir á næstu dögum, eins og fram kemur í nýútkomnu fréttabréfi vegna Hamingjudaga. Framkvæmdastjóra barst í dag sú góða og réttmæta ábending að í fréttabréfinu kæmi dagsetning hátíðarinnar hvergi fram, en hátíðin verður eins og undanfarin ár haldin fyrstu helgina í júlí, eða dagana 2.-4. júlí.
Á hverfafundum verður kynnt sú dagskrá sem þegar liggur fyrir og kynnt hverjir verða skreytingarstjórar (tveir í hverju hverfi).