A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 25. júní 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Skipulagsmál voru áberandi í liðinni viku.  Unnið er að endurgerð aðalskipulags og fundaði vinnuhópur sveitarfélagsins í vikunni.  Á þeim fundi voru ræddar hugmyndir að uppbyggingu íbúðahverfis í Brandskjólum og tenging þess hverfis við annars vegar Vitabraut og hins vegar svæðið við íþróttamiðstöðina og tjaldsvæðið.  Einnig var skipulag hótelreitsins skoðað.  Þeir sem koma að uppbyggingu hótelsins, vinna nú að gerð endanlegra teikninga og skipulags umhverfisins í kring um hótelið, á meðan við í sveitarfélaginu ræðum endurskipulagningu tjaldsvæðisins.  Nú þarf t.d. að skilgreina og ákveða hvað á að vera inni á svæðinu, og er þar t.d. verið að ræða; rafhleðslustöðvar, sem Tesla á Íslandi mun líklegast standa að, leiksvæði á tjaldsvæðinu, aukið rými fyrir tjöld, húsbíla og önnur ferðahýsi auk þjónustumiðstöðvar.  Þetta er spennandi vinna sem tekur sífellt á sig skýrari mynd.

Hólmadrangur

Áfram er unnið að málefnum Hólmadrangs og leggjast þar allir á eitt.  Í vikunni var t.d. fundur með þingmönnum, Stefán Vagn Stefánsson, fyrsti þingmaður kjördæmisins kom hingað á Hólmavík, ásamt Gunnlaugi Sighvatssyni, verkefnastjóra Samherja og fundaði stýrihópur á vegum sveitarfélagsins um aðgerðir og næstu skref. Í lok vikunnar fengu þingmenn síðan hver um sig verkefni til að vinna að, næstu daga.  Allir eru virkjaðir og allir eru reiðubúnir að skila sínu. Þá komu fulltrúar VerkVest og Vinnumálastofnunar hingað auk þess sem RÚV gerði þessu skil í sínum fréttum.  Starfmenn og stjórnendur Hólmadrangs eiga hrós skilið fyrir æðruleysi og yfirvegun við þessar aðstæður.

Ný tækifæri

Áfram er unnið samkvæmt viljayfirlýsingu sveitarfélagsins og Íslenskra verðbréfa og er þar fyrst og fremst verið að skoða hugsanlega uppbyggingu í fiskeldi og þararækt.  Aðrir möguleikar eru líka á borðinu.  Þá eru fyrirtæki á svæðinu einnig að skoða hugsanleg störf sem gætu hentað starfsfólki Hólmadrangs í vissum tilvikum.  Það er þó alltaf svo að sum tækifærin eru til skemmri tíma og önnur lengri tíma og skiptir því máli að meta hvert tækifæri fyrir sig út frá bakgrunni og áherslum starfsmanna.

Grunnskóilinn

Málin þokast í rétta átt.  Búið er að semja við verktaka um lagningu hitalagna í gólf í yngri hlutanum og hefst sú vinna í komandi viku.  Innan tveggja vikna er gert ráð fyrir að flota gólf og lakka.  Þá er búið að semja við verktaka um nýja glugga og hurðir í skólann.  Næstu skref eru að gera verðfyrirspurn varðandi frágang á drenlögn og málun skólans að innan. Færanlega skólastofan kemur í komandi viku. Þetta er því allt í rétta átt.

Leikskólalóðin

Hafnar eru viðræður við verktaka um vinnu við breytingar á leikskólalóðinni, samkvæmt áherslum starfsmanna, foreldra og leikskólakrakka.  Vonandi verður hægt að ganga frá samningi í komandi viku.  Þá er nú gert ráð fyrir að vegrið fyrir ofan leikskólann verði sett upp um miðjan júlí.

 

Umhverfið okkar, ferðamenn, ný fyrirtæki heimamanna ofl.

Það er rétt að hrósa krökkunum í vinnuskólanum og starfsmönnum áhaldahúss fyrir góða vinnu við að fegra umhverfið okkar.  Aðrir starfsmenn sveitarfélagisns fá sömuleiðis hrós, enda allir að gera sitt besta.  Það sést vel að fjöldi ferðamanna eykst dag frá degi og álagið á tjaldsvæðið og sundlaugina þar með.  Tekjur sveitarfélagsins af þessari þjónustu aukast í takt og skipta okkur verulegu máli.  Það er rétt að hafa í huga að þjónustustig gagnvart ferðamönnum  er nokkuð hátt og er t.d. boðið upp á salernisaðstöðu í félagsheimilinu allan sólarhringinn og nú yfir sumartímann er hægt að sitja í anddyri félagsheimilisins, þvo þvott eða elda sér mat. 

Fjölbreytt námskeið hafa verið í gangi og ný námskeið eru framundan. Það hefur verð sérlega gaman að fylgjast með krökkunum hjólandi um þorpið, í fjöruferð og leikjum að undanförnu.

Það er ánægjulegt að lesa um aukna þjónustu sem heimamenn standa að, og er þar átt við t.d fótsnyrtingu og svæðanudd.  Þetta er mjög jákvæð þróun. Til hamingju!  Það er líka ánægjulegt að sjá sífellt fleiri sigla um á kajökum, enda aðstaða til þess einstök hér á Hólmavík.  Njótum sumarsins og alls þess sem umhverfið okkar hefur upp á að bjóða.  Lífið er núna!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón