A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan ađ baki

Ţorgeir Pálsson | 18. júní 2023
Myndasmiđur; Jón Halldórsson
Myndasmiđur; Jón Halldórsson

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þrátt fyrir að margt og mikið gerist í okkar ágæta sveitarfélagi í hverri viku, er þó eitt mál liðinnar viku stærra en öll önnur; lokun rækjuvinnslu í Hólmadrangi.

Þetta var mikið reiðarslag og þó einhver teikn hafi verið á lofti, er þessi ákvörðun eigenda Hólmadrangs engu að síður mikið högg.  Og við finnum öll fyrir því, þó áhrifin og afleiðingarnar á starfsmenn séu öllu öðru, alvarlegri og meiri.  Með þessari ákvörðun er mikilvægum kafla í afvinnulífssögu Strandabyggðar lokið.  Rækjuvinnslan hefur verið órjúfanlegur hluti af lífinu á Hólmavík og fyrir marga hefur þessi vinnustaður verið nánast eins og heimilið, fjölskyldan og svo vinnan.  Fyrir þessa einstaklinga er höggið því enn stærra.

 

Starfsfólk og stjórnendur Hólmadrangs hafa unnið sitt starf vel og samviskusamlega og er ekki við þá að sakast.  Langvarandi taprekstur, erfið markaðsstaða og hár flutningskostnaður, eru megin ástæður þessa, að sögn eigenda.  Covid gerði engum greiða og markaðir virðast ekki hafa náð sér síðan þá.

Hvað er svo framundan?  Uppbygging, atvinnuleit, tækifæraleit, mótun nýrra atvinnutækifæra o.s.frv.  Sveitarstjórn, Vestfjarðastofa, alþingismenn, fyrirtæki og fjárfestar, líkt og Íslensk verðbréf, Byggðastofnun, verkalýðsfélögin og fjömargir aðrir, þurfa nú að leggjast á eitt og vinna saman að nýjum tækifærum til atvinnusköpunar.  Og sú vinna er hafin.  Margir fundir, mörg símtöl hafa átt sér stað síðustu daga, og þar eru allir samstíga og sammála um að snúa þessari stöðu við og skapa ný tækifæri.  Það verður að takast.

Orkumál

Orkumál voru áberandi í vikunni.  Orkubú Vestfjarða (OV) óskaði eftir íbúafundi til að kynna áform um Kvíslatunguvirkjun.  Á fundinum kom fram að „Kvíslatunguvirkjun verður 9,9 MW og ef vel gengur gæti virkjunin komist í rekstur í árslok 2027. Einnig komu fram áfrm um virkjun jarðhita sem losar allt að 10 MW af rafmagni og gæti tekið 2 til 4 ár í framkvæmd, gæti komist í rekstur 2026.  Að auki var rætt um Vatnsdalsvirkjun, sem yrði 20 – 30 MW og gæti ef vel gengur mögulega komist í rekstur fyrir 2030“.  Það er því margt framundan í orkumálum í Strandabyggð og þarna liggja mörg tækifæri til atvinnuuppbyggingar, fyrir utan raforkuöryggið sem þessu fylgir.

Hóteláform og skipulagsmál

Skipulagsvinna heldur áfram, bæði á vegum sveitarfélagsins og fjárfesta.  Nú erum við að byrja að skoða skipulagningu alls svæðisins í kring um íþróttamiðstöðina.  Þar þarf að huga að tjaldsvæðum, þjónustumiðstöð, bílastæðum, leiksvæði fyrir krakka, hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla, smásölu eins og matarvögnum ofl.  Þetta svæði er og verður andlit Hólmavíkur og verður enn mikilvægara sem upphafspunktur varðandi almenna lýðheilsu, gistingu og afþreyingu, þegar fram í sækir.

Kæru íbúar Strandabyggðar,  við höldum áfram og vinnum úr mótlætinu.  Þrátt fyrir allt eru tækifæri í stöðunni og þau verðum við að nýta.  Samstaða og samvinna verða lykilatriðið í þeirri vinnu sem nú er framundan. 

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

 

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón