A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 02. júlí 2023
Myndasmiður; Hrafnhildur Skúladóttir
Myndasmiður; Hrafnhildur Skúladóttir
« 1 af 3 »

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Ágætri viku er lokið og ný framundan. Skipulagsmál voru áberandi í vikunni, bæði í tengslum við endurbætur á grunnskólanum og einnig í tengslum við fyrirhugaða hótelbyggingu á svæðinu við Íþróttamiðstöðina.  Þar þarf að hanna heildarsvæðið að nýju og móta t.d. ný svæði fyrir hljóhýsi og tjaldvagna, þar sem uppbygging hótelsins kallar breytingar á núverandi skipulagi, t.d. fyrir bílastæði ofl.  Þá þarf að huga að leiksvæði, svæði fyrir rafhleðslustöðvar, þjónustumiðstöð ofl.

Íþróttamiðstöðin og svæðið í kring, er og verður miðpunktur þeirrar þjónustu sem við bjóðum íbúum og ferðamönnum í dag og í framtíðinni, m.a. hvað lýðheilsu varðar.  Við getum eflt þetta svæði enn frekar, bætt við þjónustuaðilum og hækkað þjónustustigið, sem þó er mjög hátt fyrir.  Þannig undirstrikum við okkar stöðu sem þjónustumiðstöð á svæðinu.

Brandskjól er framtíðar íbúðasvæðið okkar og það er að taka á sig mynd á teikniborðinu.  Þar verða lóðir í boði fyrir raðhús, parhús og einbýlishús og eins er í umræðunni að bjóða upp á litlar húseiningar til útleigu fyrir þá sem t.d. koma hér til vinnu yfir sumartímann. Ýmislegt annað er á döfinni hvað þetta svæði varðar sem nánar verður kynnt síðar.

Forkynning vegna stækkunar íbúðarbyggðar.  Þá var líka lögð fram vinnslutillaga að stækkun íbúðarbyggðar á Hólmavík í vikunni; annars vegar á Kópnesbraut og hins vegar í Víkurtúni.  Á heimasíðu Strandabyggðar má finna frekari upplýsingar um þetta.

Grunnskólin.  Í vikunni var hafist handa við að leggja hitalagnir í gólf yngri hlutans og innann skamms verður hægt að flota yfir þær.  Þessi vinna mun standa yfir næstu vikurnar.  Gluggar og hurðir eru í pöntun og næstu verðkannanir varðandi frágang á drenlögn og málun skólans, verða kynntar á næstu dögum.

Haldnir voru fundir í vikunni með skólastjórnendum og kennurum og að auki var fundað með arkitekt á vegum VERKÍS á Ísafirði, þar sem rædd var hönnun og tilhögun yngri hlutans að innan.  Gerður var listi yfir þá muni, tæki og búnað sem er til og gerður innkaupalisti yfir það sem vantar.  Framundan er verðkönnun varðandi þessa liði. 

Loft í dekkin.  Það er loksins komið að því, en nú er gamla N1 loftdælan komin upp aftur, nú við viktarskúrinn.  Þetta er vissulega bráðabrigðalausn, því við stefnum að uppbyggingu þjónustu við bíleigendur á Skeiðinu, en þetta er hins vegar frábær lausn sem virkar vel.  Starfsmenn Áhaldahúss eiga þakkir skildar fyrir þetta framtak.

Nýja gufubaðið.  Af fréttum vikunnar þá er þessi frétt nú með þeim gleðilegri, því nú geta íbúar og aðrir, farið aftur í gufubaðið í sundlauginni.  Þessi þjónusta hefur legið niðri í nokkurn tíma, þrátt fyrir að eftirspurn væri til staðar. Í janúar 2020 var lagður fram undirskriftarlisti og skrifuðu alls 57 íbúar Strandabyggðar undir ákall um að fá gufubaðið aftur í gagnið.  Fjárhagsstaða sveitarfélagsins þótti hins vegar ekki bjóða upp á slíkt á þeim tíma.  Síðan þá hefur forstöðumaður íþróttamiðstöðvar unnið markvisst að því með útsjónarsemi og framsýni að leiðarljósi, að koma gufubaðinu aftur í gagnið.  Nú er það komið og á forstöðumaður íþróttamiðstöðvar hrós skilið fyrir þá vinnu.

Í gær, laugardag, var því hátíð í sundlauginni og það var Jóhann Björn Arngrímsson, einn dyggasti notandi gufubaðsins, sem fékk heiðurinn af því að klippa á borðann.  Síðan var boðið upp á köku, kaffi og súkkulaði og allir fengu frítt í sund það sem eftir var dags.  Góð stund og það er rétt að hvetja íbúa til að skella sér í sund og prufa nýja gufubaðið. Til hamingju með gufubaðið kæru íbúar.

Hugmyndaríkir krakkar í Strandabyggð. 
Í vikunni lauk listanámskeiði í umsjón Maríu Lilju Kemp.  Námskeiðinu lauk með frábærri sýningu í félagsheimilinu, þar sem krakkarnir sýndu myndir, alls kyns listaverk og skemmtiatriði.  Það var magnað að sjá sköpunargleðina hjá krökkuunum flæða um allt og þar var enginn sviðsskrekkur.  Vel gert, María Lilja og þið öll krakkar!

Sumarfrí.  Ég hef hugsað mér að fara í sumarfrí með mína fjölskyldu í næstu viku og verður því eitthvað hlé á þessum vikupistlum.  Þeir halda síðan áfram að sumarfríi loknu. 

Hafið það sem best í sumar, njótið hvers dags og alls þess sem hér er í boði.  Margir sem koma hingað hafa orð á því hvað það sé mikið að gerast og margt í boði.  Ég hvet ykkur, kæru íbúar til að hugleiða þetta.  Kannski sjáum við ekki alltaf þetta jákvæða í kring um okkur, fyrir einhverju amstri ofl.  En það er þarna!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón