A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Tillaga um flutning skrifstofu Strandabyggðar

| 10. janúar 2011

Þegar leitað var til íbúa Strandabyggðar eftir sparnaðar- og hollráðum í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir áramót komu fram ýmsar tillögur sem snéru að mögulegum flutningi sveitarstjórnarskrifstofu Strandabyggðar frá Hafnarbraut 19. Þar hefur hún verið til húsa um árabil. Á vinnufundum sveitarstjórnar Strandabyggðar hefur verið rætt um þessar tillögur og kostir þeirra og gallar bornir saman.

Sú tillaga að skrifstofan verði flutt í húsnæði hreppsins að Höfðagötu 3 og starfrækt þar með Þróunarsetrinu á Hólmavík hefur verið skoðuð sérstaklega í samráði við starfsfólk skrifstofunnar. Hefur nú tillaga um að ráðist verði í þann flutning verið lögð fyrir sveitarstjórn og verður ákvörðun um þetta tekin fyrir á fundi miðvikudaginn 12. janúar. Hugmyndin er að flutt verði inn í lausar skrifstofur á annarri hæð, jafnframt því að farið verði í þær tilfæringar sem þarf innan Þróunarsetursins.
 

Helstu kostir og röksemdir fyrir flutningnum eru eftirfarandi:

  • Viðvarandi skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði til leigu á Hólmavík síðustu misseri. Skrifstofa Strandabyggðar hefur um árabil verið starfrækt í íbúð á efri hæð Hafnarbrautar 19. Með flutningnum fjölgar íbúðum til útleigu á Hólmavík um eina, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir byggð, atvinnu- og mannlíf.
  • Staðsetning skrifstofunnar og þar með funda sveitarstjórnar og nefnda á annarri hæð Hafnarbrautar 19 gerir allt aðgengi fatlaðra og þeirra sem eiga í erfiðleikum með að glíma við stiga afar erfitt. Með flutningi að Höfðagötu 3 eru möguleikar á að stórbæta aðgengi íbúa að starfsmönnum sveitarfélagsins til frambúðar með fjölnota fundarsal á fyrstu hæð.
  • Á síðustu vikum hefur skrifstofum í notkun í Þróunarsetrinu fækkað og þannig hefur skapast svigrúm til þessara breytinga með litlum fyrirvara. Fyrirhugaðar framkvæmdir á fyrstu hæð hússins gera sambúð Þróunarsetursins og skrifstofu Strandabyggðar til lengri tíma að fýsilegum kosti.
  • Kostnaður af flutningi yrði óverulegur en tekjur sveitarfélagsins myndu aukast með útleigu á íbúðinni að Hafnarbraut 19, auk þess virðisauka sem skapast í samfélaginu við fjölgun íbúa. Til lengri tíma litið er um ótvíræða hagræðingu og sparnað í reksti skrifstofunnar að ræða, enda er Höfðagata 3 í eigu Strandabyggðar.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón