A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Stađa helstu verkefna og framkvćmda

Ţorgeir Pálsson | 27. janúar 2024

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það er tímabært að fara aðeins yfir stöðu mála hvað verkefni og framkvæmdir í sveitarfélaginu varðar.

Grunnskólinn

Nú er lokakaflinn hafinn, ef svo má segja.  Byrjað er að undirbúa skólann fyrir málun og var samið við fyrirtækið Málval ehf. Talsverð vinna er framundan vegna nýrra raflagna og uppsetningu nýrra ljósa ofl. og var samið við fyrirtækið Raflux ehf um þann verkþátt.  Báðir þessir verktakar hafa þegar hafið störf

Engin loftræsting hefur verið í skólanum frá upphafi og verður bætt úr því.  Þess vegna var farið í að bora fjölda gata í loftið fyrir lofttúður, sem gera þarf ráð fyrir við lagningu loftdúksins.  Samið var við fyrirtækið Steinaldarmenn ehf hvað þennan verkþátt varðar.

Þá verður gerður viðaukasamningur við Valgeir Örn Kristjánsson, hvað varðar ýmis verkefni sem eftir eru í grunnskólanum.  Öðrum verktökum á svæðinu var einnig boðin aðkoma að þessum verkefnum, en þeir afþökkuðu. 

Framundan er uppsetning á glerveggjum og hurðum, sem og felliveggjum og þá þarf að festa einangrun í loft áður en dúkur er strengdur milli veggja.  Þá verður lagður nýr dúkur á öll gólf.


Farið var í að endurhanna eldhúsið í sameiginlega rýminu, sem og snyrtinguna.  Þá verður rými fyrir trésmíði og handavinnu, betur afmarkað en áður. Gert er ráð fyrir að tónlistarkennsla verið á sínum gamla stað.

Allt stefnir þetta í rétta átt og engin stórvægileg vandamál hafa komið upp, enda allir sem koma að þessu verki lausnarmiðaðir og jákvæðir.  Verkefnastjórn og hönnun er sem fyrr í höndum VERKÍS á Ísafirði, starfsmanna þeirra og samstarfsasðila.

 

Leikskólalóðin

Sveitarstjórn Strandanbyggðar samþykkti með meirihluta atkvæða sl. haust, að ganga til samninga við Litla Klett um allt að 15 milljón króna vinnu við leikskólalóðina.  Þar er um að ræða jarðvegsvinnu, gerð grjóthleðslu á lóðamörkum og uppsetningu girðingar, drenlagna ofl.  Verður að líkindum farið í þessar framkvæmdir í sumar en undirbúningur er þó ekki hafinn.  Seinni tveir verkþættirnir, sem eru þá; frágangur jarðvegs og uppsetning leiktækja, verða auglýstir síðar.

Verktaki hér á Hólmavík hefur sett fram stjórnsýslukæru til innviðaráðuneytisins vegna þessa samnings við Litla Klett og er það mál í hefðbundnu ferli.  Greinargerð hefur verið unnin af sveitarfélaginu og henni skilað inn til innviðaráðumeytisins.  Þá bættist við álit A listans og þarf einnig að skila inn greinargerð vegna þess og senda inn til ráðuneytisins.  A listinn er þar að leggja fram álit sitt á stjórnsýslukærunni. Stjórnsýslukæran aðgengileg á vef sveitarfélagsins nú þegar (http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/flokkur/198/) og greinargerðirnar verða aðgengilegar eftir sveitarstjórnarfund 13.2 n.k.

 

Hótelbygging

Framundan eru frekari skipulagsmál, hönnunarvinna og samræming við endurskoðun á aðalskipulagi.  Fyrstu tillögur að tímaramma, gera ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í haust.  Á vordögum munu fulltrúar fjárfesta koma til Hólmavíkur á opin fund og kynna verkefnið fyrir íbúum.

Það eru margir sem telja að helsti vaxtarbroddurinn í atvinnulífi Stranda og víðar, sé ferðaþjónusta.  Á íbúafundi á vegum Sterkra Stranda sl. haust, var þetta einmitt rætt og þá sérstaklega þau margföldunaráhrif sem tilkoma nýs hótels gæti haft fyrir Strandabyggð.  Með aukinni markaðssetningu á Strandabyggð og nágrenni, skapast hugsanlega tækifæri fyrir ferðaskipuleggjendur, leiðsögumenn, fjölbreyttari afþreyingu o.s.frv.  Að auki skapar nýtt hótel störf og tekjur fyrir sveitarfélagið.

 

Fræðslu- og menntamál

Það er mikið að gerast í fræðslumálum alemnnt og má þar m.a. nefna mat á niðurstöðum Pisa könnunarinnar.  Eins liggur fyrir að endurskoða þarf samning sveitarfélagsins við Ásgarð, sem þjónustar skólana og starfsfólk þeirra með ráðgjöf og fræðslu. 

Skólastefna Strandabyggðar er komin til ára sinna og vinna við endurskoðun hennar hefst innan tíðar.  Strandabyggð er þátttakandi í verkefni UNICEF sem heitir „Barnvænt sveitarfélag“ (https://barnvaensveitarfelog.is/) og innleiðing á því er í mótun. 

 

Endurskoðun aðalskipulags

Vinnu við endurskoðun aðalskipulags miðar vel og er á lokastigum.  Það er mikilvægt að hugsa til framtíðar í þessari vinnu og velta fyrir sér hvernig sveitarfélag við viljum og getum byggt upp.  Sveitarfélaginu er uppálagt að hafa ávallt í boði lóðir undir íbúðarhúsnæði sem og iðnaðarhúsnæði.  Þess vegna er nú gert ráð fyrir íbúðarbyggð í Brandskjólum og fjölgun iðnaðar- og þjónustusvæða á Skeiði og iðnaðarlóða inn með þjóðveginum í framhaldi af Vegagerðinni.

 

Önnur mál

Það er auðvitað margt annað í gangi og má þar nefna;  afgreiðsla Byggðastofnunar um sértækan byggðakvóta, sem vonandi fer að skýrast og mótun vinnu nýrrar Strandanefndar, en það er nefnd skipuð af forsætisráðherra og skal fjalla um málefni Stranda, tækifæri og ógnar.  Einnig má nefna innleiðingu nýrra sorphirðulaga og breytingu á starfsemi Sorpsamlagsins, samning um Velferðarþjónustu Vestfirðinga, mat á valkostum í sameiningarviðræðum ofl. ofl.

Sem fyrr, hvetjum við íbúa til að hafa samband, koma á skrifstofuna í kaffibolla og spjall og viðra skoðanir sínar.  Það er nauðsynlegt fyrir okkur að vita af ábendingum, óánægju eða ánægju með okkar störf, því það er erfitt fyrir okkur að lagfæra eða breyta einhverju sem við vitum ekki um. 

Áfram Strandabyggð!

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón