A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Spurningar og svör - sveitarstjórn Strandabyggðar

| 04. mars 2022

Fyrir nokkru var opnuð vefgátt þar sem íbúum Strandabyggðar gafst tækifæri til að spyrja sveitarstjórn um margvísleg mál sem á þeim brenna. Í kynningu kom fram að svörin og spurningarnar yrðu svo aðgengilegar áhugasömum hér á vef Strandabyggðar. Þessi aðferð gafst ágætlega og nokkrar spurningar og tillögur bárust sem allar eru teknar til skoðunar. Því hefur verið ákveðið að opna spurningagáttina að nýju og eru íbúar hvattir til að senda inn fyrirspurnir eða hugmyndir og tillögur varðandi rekstur sveitarfélagsins. Hér er tengill á spurningaformið.

 

Um leið birtast hér svör við öllum þeim spurningum sem íbúar sendu inn í fyrstu lotu. Tillögur sem bárust eru allar teknar til skoðunar og þeim sem snúa að skipulagsmálum vísar sveitarstjórn til vinnu við gerð aðalskipulags. 

 

 

Fyrirspurn 1.

Hvenær má búast við að ljósleiðari verði lagður um Langadal og inn í Ísafjörð?

 

Svar:
Sveitarfélagið Strandabyggð hefur tekið þátt í verkefninu Ísland ljóstengt á þeim forsendum sem settar voru fram þar. Því verkefni er lokið og ekki fyrirhugað framhald á því. Eftir er að ljúka framkvæmd við lagningu ljósleiðara fram í Langadal að veiðihúsi, en ekki eru fyrirhugaðar frekari framkvæmdir af hálfu sveitarfélagsins í Langadal eða inn í Ísafjörð. 

 

Fyrirspurn 2.

Sorpgjald 2022 í dreifbýli kr. 43.330.- er það hugsað sem sorphirða heima á býlinu og ef ekki, hvert er þá viðmið sveitarfélagsins um vegalengd að næsta gámi miðað við þessa gjaldtöku, t,d. er þetta eðlilegt gjald ef aka þarf 40 km að næsta gám?

 

Svar:

Sorpgjald í dreifbýli í Strandabyggð miðast við að íbúar skili sorpi í gáma sem staðsettir eru á völdum stöðum í sveitarfélaginu. Lengsta vegalengd sem þarf að fara með sorp í gáma er um það bil 15 kílómetrar. Sorpgjöld íbúa eiga að miðast við að standa undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er í hverju sveitarfélagi. Í Strandabyggð hafa gjöldin ekki dugað fyrir kostnaði síðustu árin.

 

Fyrirspurn 3.

Varðandi Sorpsamlagið, hefur sveitarstjórn einhver uppbyggingaráform um það?

Vegna nýrra atvinnutækifæra í sveitarfélaginu, leggur sveitastjórn einhverja áherslu á þau mál næstu 10 árin?

Hvernig ætlar sveitastjórn að bregðast við fólksflótta úr sveitarfélaginu ?

 

Svör
a)

Sorpsamlagið er einkahlutafélag í eigu sveitarfélaganna á Ströndum. Strandabyggð á þar tvo fulltrúa af þremur í stjórn. Verið er að skoða framtíðarlausnir, m.a. vegna þess að miklar breytingar verða á hirðingu sorps og flokkun samkvæmt lögum um næstu áramót og stjórn Sorpsamlagsins er að skoða alla möguleika á að mæta þeim breytingum. Það verður sífellt erfiðara og kostnaðarsamara að uppfylla lög og reglur um sorpmál. Meginmarkmið sveitarfélagsins með rekstri Sorpsamlagsins er að uppfylla lög og reglur um sorphirðu og halda um leið kostnaði íbúa af því verkefni í lágmarki. 

 

b) 

Sveitarstjórn tekur öllum erindum er snúa að atvinnuuppbyggingu innan sveitarfélagsins með opnum hug og reynir að styðja við eftir fremsta megni. Það er meðal annars gert með því að skapa aðstæður fyrir atvinnulíf með skipulagsvinnu og tækifæri gefast til að vinna að því í tengslum við aðal- og deiliskipulag sem nú er í vinnslu. Þá er einnig unnið að nýsköpun í samvinnu við Vestfjarðastofu og Brothættar byggðir og aðstaða fyrir störf án staðsetningar og nýsköpunarfyrirtæki hefur skapast í Þróunarsetrinu á Hólmavík við flutning sveitarfélagsins í ráðhúsið við Hafnarbraut. Í tengslum við verkefnið Brothættar byggðir hafa einstök verkefni verið styrkt sem vonir standa til að leiði til nýrra atvinnutækifæra og að minnsta kosti þrjú ný fyrirtæki verið stofnuð. Sveitarstjórn hefur einnig leitað til ríkisvaldsins um fjölgun opinberra starfa á svæðinu. Sveitarstjórn hefur yfirleitt ekki skoðanir á um hverslags atvinnustarfsemi er að ræða svo lengi sem hún er lögleg.

 

Sveitarstjórn fagnar nýjum atvinnutækifærum og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu og leggur áherslu á fjölbreytni. Sveitarfélagið sjálft stofnar yfirleitt ekki með beinum hætti til atvinnurekstrar, umfram þá þjónustustarfsemi sem það rekur. Þar þurfa íbúar, fyrirtæki og stofnanir að vera leiðandi. Íbúar hafa sjálfir unnið heilmikla hugmyndavinnu um atvinnusköpun sem m.a. kemur fram í stefnumótun Sterkra Stranda [Linkur] sem unnin var á íbúafundum. 

 

c)
Ímynd svæðisins skiptir mjög miklu þegar Strandabyggð er markaðssett sem búsetukostur og að mörgu leyti er hún góð og viðhorf til svæðisins jákvæð. Nauðsynlegt er að tala uppbyggilega og jákvætt um allt það sem vel er gert og gengur vel í sveitarfélaginu. Á mörgum sviðum stendur Strandabyggð vel, skólastarf hefur verið til fyrirmyndar og félags- og íþróttastarf og menningarlíf hefur verið á landsmælikvarða. Möguleikar á útivist eru sérstaklega miklir og framboð á afþreyingu er í góðu lagi.  

 

Húsnæðisskortur hefur staðið sveitarfélaginu fyrir þrifum, einkum hvað varðar leiguhúsnæði. Aðal- og deiluskipulagið sem nú er unnið að og stefnt er að því að ljúka á þessu ári er forsenda þess að hægt verði að skipuleggja lóðir og byggja nýjar íbúðir og langþráð húsnæðisályktun hefur nýlega verið samþykkt sem er forsenda fyrir framlögum úr húsnæðisverkefnum. 

 

Fyrirspurn 4.

Eru einhver áform um landfyllingu innan Ásgarðs til uppskipunar/geymslu á fyrirferðarmiklum hlutum? T.d. áburður, salt, vindmyllum.

Er sveitastjórn Strandabyggðar alfarið á móti fiskieldi?

Er vatnstankurinn til sölu? Ef svo er verður hann þá auglýstur til sölu og seldur hæstbjóðanda?

Er íþróttavöllurinn hjá Sævangi og landið kringum Sævang í eigu sveitarfélagsins? Ef svo er eru áform hjá sveitastjórn að selja það land og verður þá auglýst til sölu og selt hæstbjóðanda?

 

Svör:

a)
Hugmyndin um landfyllingu er hér með komin til skila til sveitarstjórnar og verður tekin fyrir við gerð aðalskipulags og rædd í því samhengi eins og aðrar tillögur sem berast um skipulagsmál. 

 

b)
Sveitarstjórn hefur ekki fengið nein formleg erindi um atvinnuuppbyggingu tengda fiskeldi í sveitarfélaginu inn á sitt borð og hefur því ekki þurft að taka afstöðu til slíkra erinda. Óhætt er þó að fullyrða að sveitarstjórn er ekki alfarið á móti fiskeldi, frekar en annarri atvinnuuppbyggingu. 

 

c)
Engin erindi hafa borist sveitarstjórn um gamla vatnstankinn á Hólmavík á kjörtímabilinu og engar tillögur lagðar fram eða ákvarðanir teknar um að selja hann. Ekki eru heldur neinar sérstakar fyrirætlanir hjá sveitarfélaginu um notkun hans.

 

d)
Árið 2000 gáfu Grímur og Sigurður Benediktssynir lóð úr landi Kirkjubóls undir Sævang og íþróttavöllinn þar til minningar um foreldra þeirra, Benedikt Guðmund Grímsson og Ragnheiði Lýðsdóttir á Kirkjubóli. Staðfestu þeir þar með vilja foreldranna, sem ekki var til skjalfestur, um að svæðið yrði félagslífi og æskulýðsstarfi í Tungusveit til heilla. Annars vegar var lóðin undir íþróttavöllinn gefin Ungmennafélaginu Hvöt og hins vegar lóðin undir félagsheimilið Sævang til eigenda hans í hlutfalli við eignarhaldið á húsinu. Kirkjubólshreppur átti 33,33%, Ungmennafélagið Hvöt átti 33,33%, Kvenfélagið Björk 16,66% og Lestrarfélag Tungusveitar átti 16,66%.

 

Þegar Ungmennafélagið Hvöt var lagt niður 2020 var þriðjungs eignarhlutur félagsins í Sævangi afhentur Strandabyggð endurgjaldslaust. Sveitarfélagið afhenti síðan Sauðfjársetri á Ströndum þennan sama eignarhlut í Sævangi endurgjaldslaust, en Sauðfjársetrið hefur rekið þar safn og menningarmiðstöð síðastliðin 20 ár og á þeim tíma borið allan kostnað af endurbótum og framkvæmdum. Sauðfjársetrið hafði áður (árið 2008) eignast ⅔ hluta hússins með sama hætti þegar Hólmavíkurhreppur afhenti Félagi áhugamanna um Sauðfjársetur þann hlut með skilyrðum um áframhaldandi rekstur safns í húsinu næstu árin. Það gerðist í framhaldi af sameiningu við Kirkjubólshrepp og að Kvenfélagið Björk og Lestrarfélagið voru lögð niður. Veruleg uppsöfnuð þörf var þá orðin á viðhaldi á húsinu. Húsið og lóðin undir því er þannig í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Sauðfjárseturs á Ströndum. 

 

Strandabyggð hefur ráðstafað öðru félagsheimili, á Nauteyri, með svipuðum hætti til sjálfseignarstofnunarinnar Steinshúss. Víða hafa félagsheimili í sveitum misst hlutverk sitt og tilgang eftir sameiningar sveitarfélaga og fólksfækkun í dreifbýlinu og eru stundum baggi á sveitarfélögum. Gleðilegt er þegar vel tekst til og þau fá hlutverk í þágu samfélagsins, eins og í þessum tilvikum í Strandabyggð. 

 

Íþróttavöllurinn við Sævang er í eigu Strandabyggðar og ekki hafa verið teknar ákvarðanir um hvað gert verður við hann. Sveitarstjórn telur mikilvægt að vilji gefenda lóðarinnar samkvæmt gjafabréfinu frá árinu 2000, um að völlurinn sé notaður fyrir félagslíf og æskulýðsstarf, verði hafður í heiðri við ákvarðanatöku um framhaldið. 

  

Fyrirspurn 5.

Hvernig verður staðið að úthlutun verkefna hjá sveitafélaginu til dæmis:
Nýr inngangur ofan við grunnskóla

Viðhald í Íþróttamiðstöð, m.a. búningsklefar og sturtur, gluggi í sal og lagnaviðgerðir

Staðarrétt nýbygging 

Fjárrétt við Krossá í Bitru

Félagsheimili: Inngangur í kjallara, aðgengi fyrir fatlaða

Svar:

Á árinu 2022 eru 83 milljónir áætlaðar í framkvæmdir og sú viðamesta snýst um að byggja nýjan inngang við grunnskólann. Farið verður eftir nýsamþykktum innkaupareglum Strandabyggðar varðandi framkvæmdir. Verkefnið við grunnskólann verður boðið út, en leitað verður eftir samstarfi við bændur í sambandi við fjárréttir í Bitru og Staðardal. Samið verður við verktaka á grundvelli verðkönnunar varðandi inngang í kjallara og viðhald í Íþróttamiðstöð. 

 

Fyrirspurn 6.

Varðandi sölu eigna; hefur komið til tals að selja eignarhlut sveitarfélagsins i Hornsteinum? Hver er stefna sveitarstjórnar varðandi þennan eignarhlut?

 

Svar:

Hlutur sveitarfélagsins í Hornsteinum ehf er um það bil 44% og var keyptur í tengslum við aðgerðir snemma árs 2020 til að tryggja rekstur dagvöruverslunar á Hólmavík. Sú aðkoma sveitarfélagsins var algjört lykilatriði við að tryggja áframhaldandi rekstur matvöruverslunar á svæðinu og þar með mikilvæg byggðaaðgerð. 

 

Hornsteinar ehf eiga verslunarhúsin að Höfðatúni 4 og leigja þau út. Hlutur sveitarfélagsins hefur ekki verið auglýstur til sölu og ekki eru áform um það að sinni. Framhald mála þarf vega og meta samhliða frekari uppbyggingu í tengslum við húsnæðisverkefni sem fyrirhugað er að ráðast í og að áframhaldandi verslunarrekstur sé tryggður. Hornsteinar gætu t.d. komið að uppbyggingu húsnæðis í framtíðinni, bæði íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis, sem óhagnaðardrifið leigufélag. 

 

Fyrirspurn 7.

Það vakti athygli að í fjárhagsáætlun 2022 er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum tekjustofnum. Einu "nýju" tekjurnar virðast vera; auknar útsvarstekjur vegna hækkunar álagsprósentu og styrkir sveitarstjórnarráðuneytisins. Sala eigna skapar reyndar líka aukatekjur, en óverulegar. Innan fárra ára mun samningur sveitarfélagsins við ráðuneytið taka enda og þar með umsamdir styrkir. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir sveitarfélagið að greina og skapa nýja tekjustofna, efla núverandi atvinnulíf og bjóða nýjum atvinnurekendum aðstöðu í Strandabyggð. Að öðrum kosti mun Strandabyggð ekki standa undir sér.

 

Hvað hyggst sveitarstjórn gera í því að efla tekjur sveitarfélagsins til skemmri og lengri tíma, umfram skattheimtu og móttöku styrkja?

 

Svar:

Tekjustofnar sveitarfélaga eru bundnir í lög og ekki er hægt að búa til nýja tekjustofna án breytinga á lögum. Helstu tekjustofnar eru útsvar og fasteignagjöld, auk framlaga jöfnunarsjóðs. Að öðru leyti er mikilvægast að skapa góð skilyrði fyrir atvinnurekstur á svæðinu, m.a. með því að tryggja lóðaframboð fyrir allar tegundir húsnæðis. Slík vinna er í gangi, m.a. með vinnu við aðal- og deiliskipulag. Erfiðar og sársaukafullar sparnaðaraðgerðir sveitarstjórnar og sértækt framlag ráðuneytisins til Strandabyggðar á árunum 2021-2023 skiptir gríðarmiklu máli, til að rétta af þann mikla hallarekstur sem verið hafði á sveitarfélaginu árin þar á undan. Með því og áframhaldandi sterkri fjármálastjórn er staða sveitarfélagsins allt önnur og betri en var. 

 

Fyrirspurn 8.

Er Sorpsamlag Strandasýslu til sölu? Ef ekki; Hvaða uppbyggingaráform hefur sveitarstjórn varðandi Sorpsamlagið?

Er tankurinn fyrir ofan kirkjuna til sölu?

 

Svör:

a)
Sorpsamlagið er einkahlutafélag í eigu sveitarfélaganna á Ströndum og hefur ekki verið auglýst til sölu. Strandabyggð á tvo fulltrúa af þremur í stjórn. Verið er að skoða framtíðarlausnir, m.a. vegna þess að miklar breytingar verða á hirðingu sorps og flokkunar samkvæmt lögum um næstu áramót og stjórn Sorpsamlagsins er að skoða alla möguleika á að mæta þeim breytingum. Það verður sífellt erfiðara og kostnaðarsamara að uppfylla lög og reglur um sorpmál. Meginmarkmið sveitarfélagsins með rekstri Sorpsamlagsins er að uppfylla lög og reglur um sorphirðu og halda um leið kostnaði íbúa af því verkefni í lágmarki. 

 

b)
Engin erindi hafa borist sveitarstjórn um gamla vatnstankinn á kjörtímabilinu og engar tillögur lagðar fram eða ákvarðanir teknar um að selja hann. Ekki eru heldur neinar sérstakar fyrirætlanir hjá sveitarfélaginu um notkun hans.

 

Fyrirspurn 9.

Strandabyggð er óumdeildur þjónustukjarni á svæðinu. Í þeirri stöðu felast tækifæri til uppbyggingar, t.d. í ferðaþjónustu og þjónustu við Djúpið og Hornstrandir. Strandabyggð er sömuleiðis mikilvægur áningarstaður á hinni svokölluðu Vestfjarðaleið, "The Westfjord Way". Hvernig er stöðu Strandabyggðar sem þjónustukjarna á svæðinu, best haldið í komandi sameiningarviðræðum? Hvaða áform eða baráttumál hefur sveitarstjórn skilgreint í þessu samhengi?


Svar:

Hólmavík er þjónustukjarni á svæðinu, fremur en Strandabyggð. Sameiningarviðræður eru á byrjunarstigi og þar verður farið yfir mál á jafnréttisgrundvelli þeirra sveitarfélaga sem í viðræðum eiga. Sameiningarviðræður eru ekki keppni, heldur snúast þær um að sameinað sveitarfélag standi betur að vígi og verði í heild sinni sterkara en þau sem fyrir voru. Í því samhengi þarf að líta til allra íbúa í hinu sameinaða sveitarfélagi, hvar sem þeir búa. 

 

Hvað varðar stöðu Strandabyggðar sem þjónustusvæðis, þá skiptir mestu að fyrirtæki og stofnanir á staðnum styrki stöðu sína, en dragi ekki úr þjónustu. Öflugur stuðningur sveitarfélagsins við fyrirtæki, stofnanir og félög í Strandabyggð skiptir verulegu máli í þessu sambandi.  

 

Fyrirspurn 10.

Hver eru markmið sveitarstjórnar varðandi uppbyggingu menntamála í Strandabyggð?

 

Svar:

Skólastarf í Strandabyggð hefur verið mjög öflugt síðustu árin og á hrós skilið. Fyrirhugað er að halda áfram á sömu braut, fylgja stefnu skólans og vinna áfram í samræmi við aðalnámskrá, lög og reglugerðir. Ráðist hefur verið í viðamikil verkefni á kjörtímabilinu, grunnskóli og leikskóli hafa verið sameinaðir og hefur sú mikla vinna tekist vonum framar. Eins hefur tekist að standa vörð um dreifnámið sem hefur verið í boði í samvinnu við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og vonandi verður svo áfram. Hins vegar er Fræðslumiðstöð Vestfjarða ekki lengur með miðstöð og starfsmann á Hólmavík, sem er miður. Samstarf og tengsl við háskólasamfélagið hafa aftur á móti eflst með uppbyggingu á Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu á Hólmavík.

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón