A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Snjór

| 29. mars 2021

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þetta eru skrýtnir tímar og hafa svo sem verið það lengi.  Við erum ekki laus við Covid-19, þvert á móti fjölgar afbrigðum og óvissa um samfélagssmit nagar.  Fólk fer í þúsundum að skoða eldgos, það eru páskar framundan sem verða þó litaðir af hertum takmörkunum, það er kominn snjór aftur og svona mætti lengi telja.

Um daginn gerði hér skot og ófært var á tímabili innanbæjar meðan autt var á vegum utar í firðinum.  Tekin var sú ákvörðun að aflýsa kennslu og voru ekki allir sáttir við þá ákvörðun.  Það er skiljanlegt þar sem ákvörðunin var tekin með skömmum fyrirvara. 

Ákvörðun um að aflýsa skólahaldi er ekki tekin nema eftir samráð skólastjóra, sveitarstjóra og þeirra sem koma að snjómokstri og skólaakstri.  Venjan er sú að kanna fyrst hvernig ástandið sé í dreifbýlinu og í þetta skiptið var það bara allt í lagi.  Skólabíllinn var á tíma og ekkert því til fyrirstöðu að sækja krakka í sveitina.  Vandinn var hins vegar hér innanbæjar og það kom í ljós um morguninn.  Skyggnið var ekkert og ljóst að snjómokstur innanbæjar var ekki mögulegur við þær aðstæður.  Fólk komst ekki leiðar sinnar, bílar voru fastir og það var því ekki um annað að ræða en að aflýsa skólahaldi, þó talsvert væri liðið á morguninn.  Við gengum svo úr skugga um að þeir starfsmenn sem komust til vinnu, væri komnir heim aftur.  Allt fór því vel, en auðvitað var þetta óþægilegt.

Nú er aftur kominn snjór og því rétt að benda á þær reglur sem gilda um snjómokstur í dreifbýli og þéttbýli í Strandabyggð.  Þær reglur má sjá hér.

Það er stefna sveitarstjórnar að draga úr snjómokstri í sparnaðarskyni og því er viðbúið að einhverjum þyki ekki mokað eins oft og áður.  Reglurnar gera t.d. ekki ráð fyrir snjómokstri um helgar, nema ef brýn nauðsyn krefur.  Við vonum að íbúar sýni þessu skilningi í ljósi stöðunnar.

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

sveitarstjóri Strandabyggðar

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón