A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Menningarverðlaun Strandabyggðar

| 15. júní 2010
Á Furðuleikum Sauðfjársetursins
Á Furðuleikum Sauðfjársetursins

Í vetur ákvað Menningarmálanefnd Strandabyggðar að stofna til sérstakra Menningarverðlauna. Verðlaunin verða veitt í fyrsta sinn á Hamingjudögum á Hólmavík nú í sumar. Menningarmálanefnd skipar jafnframt dómnefnd þá sem velur úr innsendum tillögum, en Menningarmálanefnd er nú skipuð þeim Jóhönnu Ásu Einarsdóttur, Rúnu Stínu Ásgrímsdóttur, Jóni Halldórssyni, Salbjörgu Engilbertsdóttur sem er formaður hennar, og Guðrúnu Guðfinnsdóttur sem tók sæti í nefndinni meðan Kristín Sigurrós Einarsdóttir starfar sem framkvæmdastjóri Hamingjudaga. Ákveðið hefur verið að þrátt fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar muni þessi nefnd starfa áfram fram yfir Hamingjudaga.

Gerðar hafa verið starfsreglur um Menningarverðlaunin sem eru eftirfarandi:

1) Menningarverðlaun Strandabyggðar, eru veitt árlega til einstaklings, félags, stofnunar, fyrirtækis eða hóps fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar í sveitarfélaginu á liðnu ári. Markmiðið með verðlaununum er að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í Strandabyggð. Verðlaunin eru afhent við hátíðlega athöfn á Hamingjudögum á Hólmavík ár hvert.

2) Ákvörðun um handhafa verðlaunanna er tekin af Menningarmálanefnd Strandabyggðar að fengnum tilnefningum. Auglýst skal eftir tilnefningum frá íbúum Strandabyggðar í maí eða júní ár hvert. Tilnefningum skal komið til menningarmálanefndar í gegnum tölvupóst eða með öðrum leiðum fyrir ákveðin tíma. Nefndin ákveður tímamörk og hvaða leiðir skulu hafðar við að taka á móti tilnefningum. Nefndin er ekki bundin af tilnefningum í ákvörðun sinni um verðlaunahafa.

3) Verðlaunahafi fær afhent viðurkenningarskjal undirritað af Menningarmálanefnd, verðlaunagrip og einnig minni verðlaunagrip til minningar um útnefninguna.

4) Veita má fleiri en ein verðlaun hverju sinni, telji Menningarmálanefnd að fleiri en einn aðili hafi skarað fram úr og þannig verðskuldað verðlaunin það ár. Nefndin ákveður hvort um tvenn eða fleiri aðalverðlaun er að ræða eða ein aðalverðlaun og ein eða fleiri aukaverðlaun. 

5) Menningarmálanefnd kemur fréttum um útnefninguna og menningarstarf verðlaunahafans á framfæri í eins mörgum fjölmiðlum og kostur er.

Tilnefningum má skila á skrifstofu Strandabyggðar eða á netfangið holmavik@holmavik.is til kl. 16 sunnudaginn 20. júní næstkomandi. Við hvetjum sem flesta til að koma með tillögur.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón