A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Menningarverđlaun 2020

Salbjörg Engilbertsdóttir | 30. júní 2020
« 1 af 2 »

Lóan - menningarverðlaun Strandabyggðar fyrir árið 2020 voru veitt í ellefta sinn föstudaginn 26. júní, við setningu Hamingjudaga. Athöfnin fór fram í Hnyðju og var vel sótt af áhugasömu heimafólki og gestum á ýmsum aldri. Áður en verðlaunin voru veitt las skáldkonan Gerður Kristný upp úr nokkrum verka sinna, en hún dvaldi í menningardvöl í Strandabyggð um skeið í júní. Mjög góður rómur var gerður að orðum Gerðar Kristnýjar, enda þar á ferðinni afburðar skáldkona og svo er hún auðvitað ættuð af Ströndum!

Áður en sjálf menningarverðlaunin voru veitt hlaut Kristín Einarsdóttir í Hveravík sérstök hvatningarverðlaun, en hún hefur í gegnum árin tekið fjölmörg viðtöl við fólk á Ströndum og flutt á Rás 1 í þættinum Mannlega þættinum. Efnið er síðan varðveitt á vefsíðunni http://hveravik.is/sogur/. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, sem valdi vinningshafa úr innsendum tillögum, sagði í umsögn sinni: „Kristín fær þau fyrir vandaða og jákvæða umfjöllun um menningu og málefni í Strandabyggð og nágrannabyggðum í útvarpi undanfarin ár. Í útvarpsþáttum sínum hefur hún vakið jákvæða athygli á svæðinu þannig að eftir því er tekið um allt land. Um leið fá allir hennar viðmælendur hvatningu til að halda áfram að sinna sínum hugðarefnum og gera samfélagið á Ströndum skapandi, spennandi og einstakt.“

 

Þá var komið að Lóunni – menningarverðlaun Strandabyggðar. Eftir að hafa fengið í hendurnar margar góðar tilnefningar, var eitt nafn sem skar sig að nokkru leyti úr: mjög margir höfðu kosið viðkomandi og töldu að sá ætti skilið að hljóta hnossið að þessu sinni. Enda var það enginn annar en Jón Jónsson á Kirkjubóli sem hlaut Lóuna að þessu sinni. Um verðlaunahafann segir: „Jón hefur unnið ötult menningarstarf í Strandabyggð í gegnum árum og síðastliðið ár er þar engin undantekning. Hann hefur staðið fyrir ótal viðburðum, sett upp sýningar, haldið fyrirlestra, sögugönguferðir, í gegnum árin starfað með Leikfélagi Hólmavíkur og verið ötull við að miðla þekkingu og menningu til sem flestra. Með atorku sinni hafa hátíðir á borð við Vetrarsól og Hörmungardagar fest sig í sessi. Jón er ekki hvað síst hvetjandi fyrir aðra sem vilja láta til sín taka í menningarlífinu, til í að aðstoða og miðla reynslu sinni til þeirra sem leita eftir því og því mikilvæg stoð í menningarlífi Strandabyggðar.“

 

Við óskum þeim Jóni og Kristínu hjartanlega til hamingju með verðlaunin, um leið og við þökkum þeim innilega fyrir þeirra mikilvæga starf í þágu Stranda.

 

Nú er um að gera að hvetja fólk á Ströndum til dáða á menningarsviðinu og halda áfram því frjóa starfi sem hér fer fram, og byrja strax að gera val á tilnefningum fyrir árið 2021 skemmtilega erfitt og snúið!​

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón