A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Kveðja frá sveitarstjóra

| 28. desember 2018

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og vona að þið hafið haft það gott um jólin.  Það er einhvern veginn svo, að jólin koma oft aftan að manni, þó svo aðdragandinn sé alltaf sá sami.  Manni líður eins og „allt“ sé eftir og óskar þess jafnvel að eiga eina viku í viðbót í undirbúning.  En svo koma jólin og þá smellur þetta allt saman, enda á undirbúningurinn jú að fara fram í hjartanu og sálinni, en ekki bara með kúst og tusku í hendi.

 

Það er nýtt ár framundan með nýjum áskorunum.  Heyútflutningurinn nú um jólin ýtti við manni og það frábæra framtak sýnir að það eru tækifæri víða.  Bændur eiga hrós skilið fyrir framtakið og framkvæmdina. Þetta sýnir okkur líka að við þurfum að leita tækifæra víða; í landbúnaði, í ferðaþjónustu, í handverki og öðrum iðnaði sem skapar verðmæti og veitir góða þjónustu.  Atvinnusköpun má ekki vera bundin við of fáa staði eða atvinnurekendur, því þá eykst áhættan fyrir samfélagið.  Viðkvæm staða Hólmadrangs er góð áminning um það, þó svo við reiknum með og vonum að sú staða breytist til batnaðar.  Við þurfum því að hugsa út fyrir hefðbundna ramma og leita markvisst að nýjum tækifærum.  Sú leit gæti orðið áberandi á nýju ári.

 

Við erum þjónustusamfélag.  Strandabyggð er mikilvægur þjónustukjarni og ef við skoðum það sem boðið er upp á í okkar sveitarfélagi, þá getum við verið stolt og sátt, því hér er margt í boði og hátt þjónustustig.  Heilsugæslan, Vegagerðin, Orkubúið, Kaupfélagið, Sparisjóðurinn, Pósturinn, Sýslumaðurinn, Lögreglan, sveitarfélagið, Íþróttamiðstöðin (sundlaug og tækjasalur), Grunnskólinn, Leikskólinn, Tónskólinn, Félagsheimilið, tjaldstæðið, hárgreiðslustofa, bifvélaverkstæði, útgerðarfyrirtæki, landbúnaður, matvælaframleiðsla bæði landbúnaðarvörur og sjávarafurðir, veitingastaðir, hótel, gistiheimili, sorpsamlag, flokkunarstöð, slökkvilið, verktakar í vegagerð og jarðvinnu hvers konar, kirkja og útfararþjónusta, afþreyingarfyrirtæki, leikfélag, söfn, tveir kórar, fjöldi fjölbreyttra einstaklingsfyrirtækja og svona mætti lengi telja.  Það er hins vegar ekki sjálfgefið að halda þessum langa lista úti og við megum við litlu þegar kemur að því að skapa og halda atvinnu og fólki í sveitarfélaginu.  Nýtt ár kallar á enn frekari samstöðu um að viðhalda þessari stöðu og berjast fyrir því sem við höfum.

 

Á fyrstu dögum nýs árs kemur á heimasíðu Strandabyggðar starfsáætlun Sveitarstjórnar 2019 og ég hvet ykkur til að kynna ykkur hana og þær aðgerðir sem fyrirhugaðar eru á næstu árum. 

 

Kæru íbúar Strandabyggðar. Tökum nýju ári fagnandi og verum bjartsýn á framtíðina.  Hún er að miklu leyti í okkar höndum.

 

Gleðilega hátíð!

 

Þorgeir Pálsson

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón