A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Helstu verkefni sveitarstjóra – febrúar

| 28. febrúar 2020

Sem fyrr, voru verkefnin á mínu borði fjölbreytt.  Í upphafi febrúar var fundur um viðbrögð hugsanlegum áhrifum kóróna veirunnar hér á landi og þá hér í Strandabyggð.  Var haldinn fundur með fulltrúum heilsugæslu og lögreglu og farið yfir stöðuna.  Það er að mörgu að hyggja, t.d. þarf að skilgreina verkferla við skoðun, sýnatöku, hugsanlega einangrun einstaklinga, skoða tengsl okkar við lönd þar sem sýkingar hafa átt sér stað ofl. ofl.  Hengdar voru upp leiðbeiningar varðandi hugsanlegt smit og hvernig fólk eigi að bera sig að.  Mikilvægt er að fylgja þeim.


Málefni Kaupfélags Steingrímsfjarðar tóku sinn tíma, enda mikilvæg mál.  Aðkoma sveitarfélagsins hefur nú verið útskýrð og ljóst að sameiginlega tókst að tryggja aðkomu Samkaupa að rekstri matvöruverslunar á Hólmavík og koma þar með í veg fyrir að störf töpuðust, með tilheyrandi margföldunaráhrifum.  Þetta eru óhefðbundnar aðgerðir sveitarfélags, en nauðsynlegar.

Brunavarnir Dala, Reykhóla og Stranda hafa verið staðfestar og er unnið að því að skipuleggja vaktaplan, þjálfunar- og æfingaáætlun auk þess sem vinna við brunavarnaráætlun er í gangi.  Unnið er að því að ganga frá ráðningu Varðstjóra á Hólmavík.

Sveitarstjórn hitti ungmennaráð í mánuðinum og það var góður og skemmtilegur fundur.  Krakkarnir eru greinilega að hugleiða margt í sínu umhverfi og er mikilvægt að veita því athygli. Þau settu t.d. á viku langt símabann í skólanum.  Það er flott framtak.

Ég fundaði með framkvæmdastjóra Strandagaldurs, en framundan er endurnýjun á styrktarsamningi sveitarfélagsins við Strandagaldur.  Galdrasafnið er ekki bara safn og veitingastaður, heldur líka upplýsingamiðlun sveitarfélagsins og er markmiðið að efla þann þátt enn frekar í takt við breytta tækni og áherslur í upplýsingamiðlun.

Fræðslumálin tóku einnig sinn tíma.  haldinn var góður fundur með fulltrúa Tröppu í Hnyðju og var þar rætt um áherslur í Aðalnámskrá Grunnskóla.  Það hafa orðið talsverðar breytingar á áherslum, námstilhögun og námsmati og mikilvægt að ræða þær breytingar.  Markmið okkar er og á alltaf að vera, að búa krakkana okkar sem best undir það nám sem þau kjósa sér eftir í og eftir grunnskóla.

Sameining leik-, tón- og grunnskóla er einnig í vinnslu, og nú erum við að skoða gerð nýs skipurits, endurgera starfslýsingar og huga að því hvernig sameinaður skóli mun líta út og starfa í haust.

Að auki má nefna; fund á Reykhólum um málefni Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla og tenginu við BS Vest (Byggðasamlag Vestfjarða um málefni fatlaðra).  þetta eru mikilvæg mál og hugsanlega mun stærri málaflokkur en flestir gera sér grein fyrir. 

Síðan eru alltaf fundir innanhúss með starfsfólki Strandabyggðar, einstaka forstöðumönnum og sveitarstjórnarfulltrúum.  Þá hittumst við oft, ég og oddviti Strandabyggðar, enda sömu mál gjarnan á borðum okkar beggja. Framundan er undirbúningur framkvæmda hjá hverri deild fyrir sig út frá ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdir á árinu 2020 og vonandi fer að líða að álagsprófun vegna Hitaveitu í Hveravík, enda samningar á lokastigi. Þá mun umhverfisátakið halda áfram og við erum að byrja að móta áherslur fyrir sumarið.


Sem fyrr eru íbúar hvattir til að tjá sig, koma með ábendingar og uppbyggilega gagnrýni og best væri að ræða málin yfir kaffibolla.  Það þarf ekki að bóka neinn tíma, bara mæta.

 

 

 

  

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón