A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Göngum í skólann og fleira hressandi

| 14. september 2011
Nánari upplýsingar má sjá á www.gongumiskolann.is
Nánari upplýsingar má sjá á www.gongumiskolann.is

Í dag, miðvikudaginn 14. september, verður farið af stað með Göngum í skólann verkefnið í Grunnskólanum á Hólmavík. Nemendur eru ásamt foreldrum/forráðamönnum hvattir til að ganga eða hjóla í skólann þar sem nemendur setja laufblað á bekkjartréð sitt. Þeir sem ganga eða hjóla setja græn laufblöð á trén og þeir sem koma á bíl setja brún laufblöð á trén. Nemendum sem ferðast með skólabíl er boðið upp á það fara út hjá gömlu sjoppunni og ganga þaðan í skólann og fá þá grænt laufblað. Einnig verður hægt að ganga af sér í frímínútum.  


Meginmarkmið Göngum í skólann eru að hvetja nemendur og foreldra/forráðamenn á Íslandi til að ganga, hjóla eða fara á annan virkan hátt til og frá skóla. Um leið er ætlunin að:

- Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.
- Kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli.
- Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.
- Stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfum.
- Stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt" umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.
- Efla samfélagsvitund.
- Hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna: Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.

 

Sá hluti verkefnisins að nemendur skrá hreyfingu sína á tré stendur yfir frá 14. - 21. september og endar með hópgöngu allra nemenda um bæinn. Ingibjörg Emilsdóttir verkefnastjóri Grænfánaverkefnisins í Grunnskóla Hólmavíkur hefur umsjón með verkefninu sem er hluti af stærra ferli. Eftir 21. september taka fleiri skemmtilegir atburðir við í samstarfi við tómstundafulltrúa Strandabyggðar. Miðvikudaginn 28. september n.k. verður Göngudagur fjölskyldunnar haldinn í Strandabyggð og hefst hann kl. 17:00, auk þess sem Logi Geirsson silfurdrengur og fyrrum handboltahetja mun halda fyrirlestur í Félagsheimililnu á Hólmavík á forvarnardaginn, þann 5. október n.k.

Sveitarfélagið Strandabyggð hvetur sem flesta til að taka þátt í þessu skemmtilega og mikilvæga átaki og ökumenn til að aka varlega nú þegar göngu- og hjólafólki fjölgar svo um munar á götum bæjarins.

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón