A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fjárhagsáætlanagerð – hvert stefnir?

Þorgeir Pálsson | 20. október 2022

Kæri íbúar Strandabyggðar,

Þessa dagana vinna sveitarfélögin á landinu að fjárhagsáætlanagerð.  Gerð er nokkuð ítarleg áætlun fyrir komandi ár, 2023 og síðan grófari áætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir.  Þessi vinna byggir á því að rýna í þróun helstu tekju- og kostnaðarliða, meta ástandið í samfélaginu, horfur á vinnumarkaði, launamál, áherslur stjórnvalda, útlit í atvinnulífnu, endurskoða gjaldskrár, styrkjamál ofl ofl.  Þetta er mikil og krefjandi vinna, en um leið gefandi, því við erum að reyna að sjá fyrir okkur og móta famtíðina og hvert stefnir.

Eins og íbúar vita, er Strandabyggð með samning við innviðaráðuneytið um sértækan stuðning vegna erfiðrar fjárhagsstöðu.  Lagt er upp með áætlunartímabil til 2025 en þá á sveitarfélagið að hafa náð það sterkri stöðu að þessa sértæka stuðnings sé ekki lengur þörf. 

Strandabyggð er ekki eina sveitarfélagið í þessari stöðu.  Í dag eru alls 30 sveitarfélög á landinu með slíka samninga og/eða í nánu samstarfið við ráðuneytið.  Fyrir fjórum árum voru 12 sveitarfélög með slíka samninga.  Það hefur því hallað undan fæti hjá mörgum sveitarfélögum á síðasta kjörtímabili, sem eins og við vitum var mjög erfitt.  Það sem einkennir síðan stöðuna í ár, er mjög mikill halli á málaflokknum um málefni fatlaðs fólks. Óljóst er hvernig sú staða verður leyst.

Fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaga snýst auðvitað mikið um forgangsröðun aðgerða og ráðstöfun fjármagns.  Við búum við samfélagsmynd sem við höfum byggt upp og viljum helst halda í, sem m.a. byggir á nokkuð háu þjónustustigi.  En við þær aðstæður sem nú eru uppi, þarf að skoða alla hliðar.  Á nýafstaðinni Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna, kom skýrt fram, að mörg sveitarfélög eru að endurskoða sína forgangsröðun, einblína á lögbundna þjónustu og starfsemi sem forgangsmál.  Sett eru spurningamerki við marga þjónustuliði sem áður þóttu sjálfsagðir, en eru í dag til endurskoðunar.  Þetta á sérstaklega við ef þessir þjónustuliðir eru ekki lögbundnir, en einnig í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu og sértækra samninga við ríkið. 


Sveitarstjórn Strandabyggðar er komin vel af stað með sína fjárhagsáætlanagerð.  Tveir vinnufundir eru að baki sem og heimsóknir í áhaldahús, veitustofnun, Sorpsamlagið og grunnskólann. Framundan eru heimsóknir í leikskólann og íþróttamiðstöðina.  Síðan mun sveitarstjórn funda með forstöðumönnum í næstu viku auk vinnufunda sem fylgja í kjölfarið.  

Ef þú kæri íbúi hefur spurningar eða ábendingar, ekki hika við að hafa samband.  Það má skrifa mér á netfangið thorgeir@strandabyggd.is eða hringja í 899-0020.

Áfram Strandabyggð!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón