A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Ársreikningur 2018 og breytingar í sveitarstjórn

| 03. júní 2019
« 1 af 2 »

Kæru íbúar Strandabyggðar, Nú liggur ársreikningur 2018 fyrir og í ljós kemur að sveitarfélagið var rekið með tapi.  Í þessum stutta pistli langar mig til að rekja helstu ástæður þessa taps, en fyrir þá sem vilja kafa dýpra, bendi ég á heimasíðu eða skrifstofu Strandabyggðar og/eða bara hafa samband beint við mig.  Það er alltaf hægt að ræða málin yfir kaffibolla.

 

Ársreikningur 2018

Tekjur Strandabyggðar voru árið 2018 um kr 677 milljónir og eru þar teknar saman tekjur A og B hluta sveitarfélagsins.  A hlutinn er sá hluti sem skilar tekjum af skattheimtu og greiðslum jöfnunarsjóðs en B hlutinn nær yfir stofnanir sveitarfélagsins og aðrar rekstrareiningar sem eru fjárhagslega sjálfstæðar og afla tekna með þjónustugjöldum.

 

Heildargjöld A og B hluta námu 620 milljónum, þannig að rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var jákvæð um 57 milljónir.  Það er þó ekki allt unnið með jákvæðri niðurstöðu þarna, því eftir er að draga frá afskriftir (27 milljónir) og fjármagnsgjöld (38 milljónir, ofl.  Endanleg niðurstaða A og B hluta saman er því neikvæð um 6 milljónir.  Sé A hlutinn einn og sér skoðaður, er tap af þeim rekstri hins vegar rúmlega 12 milljónir.

 

Það er oftast svo að skýringar eru til á öllum hlutum.  Spurningin er hins vegar;  sættum við okkur við skýringarnar og ættum við að gera það?  Þar verður að skoða margt og ber helst að nefna:  gæði áætlanagerðar og breytingar í umhverfinu.  Það er nefnilega eitt að áætla og reyna að sjá fyrir hvernig árið verður og svo annað hvað raunverulega gerist.  Oft gerist eitthvað sem við ráðum ekki alfarið við og er því ekki gert ráð fyrir í áætlunum.

 

Ef við skoðum þessa tvo þætti; áætlanir og raunverulega útkoma, má finna skýringar á hagnaði eða tapi í rekstri sveitarfélagsins.  Það sem hvað helst skýrir þetta tap árið 2018, er eftirfarandi:  Aukinn launakostnaður, yfirvinna og annar starfmannakostnaður, aðkeypt þjónusta ofl.  Í upphafi tímabils eru forstöðumenn með skýrar línur hvað varðar starfsmannafjölda og eru áætlanir um launa- og annan starfsmannakostnað unnar út frá því.  Hins vegar gerist það oft, að eitthvað í rekstrarumhverfinu breytist og það veldur skekkju, þó svo áætlanir hafi verið ásættanlegar.  það á að miklu leyti við hér og má þar nefna: Kostnað vegna breytinga á „samfelldum skóladegi barns“ og flutningi starfsemi úr Félagsheimili aftur í Grunnskólann, erfiðleikar í mönnum leikskólans Lækjarbrekku með tilheyrandi afleysingum og kostnaði.  Síðan má einnig nefna að kostnaður vegna kosninga fór langt fram úr áætlun og sveitarstjóraskipti urðu á árinu 2018 og fylgir þeim alltaf viss kostnaðaraukning.

 

Megin  ástæða þessa taps er því aukin launa- og starfsmannakostnaður.  Við þurfum að verða betri í að greina og spái í breytingar í rekstrarumhverfi sveitarfélagsins auk þess að sýna einbeitt og markvisst kostnaðaraðhald.  Þessar áherslur verða hafðar að leiðarljósi í haust þegar við förum í áætlanagerð vegna 2020.

 

Stjórnskipulag

Mér finnst rétt að nefna að við höfum gengið í geng um nokkuð erfiðar breytingar á sveitarstjórn Strandabyggðar að undanförnu.  Eins og þeir sem lesa fundargerðir sveitarstjórnarfunda, hafa sjálfsagt tekið eftir, þá hefur fulltrúum í sveitarstjórn fækkað.  Alls hafa þrír einstaklingar óskað leyfis frá störfum í sveitarstjórn í eitt ár og einn einstaklingur hefur flutt úr sveitarfélaginu.  Staðan í dag er því sú, að aðalmenn eru sem fyrr fimm talsins, en nú er aðeins einn varamaður, ekki fimm eins og vera ber.  Að auki hefur einn nefndarmaður í umhverfis og skipulagsnefnd fengið lausn frá nefndarstörfum í eitt ár. 

 

Margir kunna að hugsa sem svo, að þegar fækkar á varamannabekknum færist bara aðrir sem voru neðar á lista þeirra sem fengu atkvæði upp.  Svo einfalt er þetta hins vegar ekki, þar sem hér var um persónukjör að ræða.  Í persónukjöri eru bara þeir fimm í boði sem kosnir voru sem aðalmenn og þeir fimm sem kosnir voru sem varamenn.  Það eru m.ö.o. bara 10 einstaklingar sem um ræðir.  Fækki þeim, veikir það einfaldlega sveitarstjórnina og dregur úr styrk hennar.   Við þessar breytingar verða einnig breytingar í nefndum.  Það er mikilvægt að hafa þetta í huga, því þessi þróun eykur álag á þá sem eftir eru og mannabreytingar í nefndum valda einnig auknu álagi.

 

Það er samt enginn bilbugur á þessari sveitarstjórn.  Fyrir henni liggja mörg mjög stór og sérlega mikilvæg verkefni.  Má þar fyrst nefna könnun á vænleika þess að leggja hitaveitu til Hólmavíkur frá Hveravík, en vonir standa til að álagsprófun geti hafist fljótlega.  Þá er rétt að nefna umhverfisátakið sem þegar er hafið.  Viðtökur þeirra sem hlut eiga að máli eru framar vonum og það sést nú þegar mikil breyting á Skeiðinu. Er rétt að hrósa þeim fyrir góð viðbrögð og samstarfsvilja.  Þar eru allir sammála og einhuga í að taka til og fegra umhverfið.  Að auki er þegar búið að fjarlægja nokkra bíla úr þorpinu.  Þá er framundan vinna við nýtt aðalskipulag, verið er að hanna opin svæði í sveitarfélaginu (við leikskólann og tjaldstæðið), miklar endurbætur eru í gangi á íþróttamiðstöðinni, við munum í sumar sjá skemmtiferðaskip koma til Hólmavíkur með fjölda gesta, í vinnslu og undirbúningi er verkefni með íbúðalánasjóði um byggingu leiguíbúða og svona mætti lengi telja.  Þá er líka gaman að nefna, að á næstu dögum kemur slitlagsflokkur til að leggja klæðningu á Lækjartún, Víkurtún, Vesturtún, Vitabraut og Austurtún.

 

Það er mikið framundan og við verðum að trúa á framtíðina.  Hún er að miklu leiti í okkar höndum.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón