A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Ágengar tegundir við Hólmavík

Salbjörg Engilbertsdóttir | 20. júlí 2018
« 1 af 4 »

Nokkrar tegundir jurta eru skilgreindar sem ágengar gróðurtegundir, t.d. alaskalúpína, skógarkerfill og bjarnarkló. Til að halda aftur af útbreiðslu þessara planta, þurfa margir að leggjast á eitt. Beðið er um aðstoð íbúa til að koma í veg fyrir útbreiðslu eftirtaldra planta á Hólmavík og nágrenni og hér á eftir fylgja leiðbeiningar um aðferðir. Sérstaklega er mikilvægt að uppræta skógarkerfilinn sem er enn viðráðanlegt að koma í veg fyrir útbreiðslu á.


Skógarkerfill

Skógarkerfill er slæðingur sem var fluttur til landsins. Hann hefur dreift sér ört út um landið og fyrir þá sem þekkja til er Esjan ágætt dæmi um svæði þar sem skógarkerfill tók yfir lúpínusvæði. Hann myndar samfelldar breiður ef hann fær frið. Kerfillinn leggur undir sig frjósamt land sem hefur verið auðgað af köfnunarefni, svo sem gömul tún og lúpínubreiður. Einnig stingur hann sér niður í vegkanta og getur myndað þar myndarlega brúska.

Við höfum tækifæri á að hefta útbreiðslu skógarkerfilsins hér á Hólmavík og nágrenni, þar sem hann  er tiltölulega nýlega farinn að stinga sér niður. Mynd 1 sýnir staði þar sem vitað er um skógarkerfilsplöntur sem ætti að uppræta sem fyrst – þetta er alls ekki tæmandi listi yfir staðsetningu kerfilsins. Oft eru bara stakar plöntur hingað og þangað ennþá en geta orðið að stórum breiðum á fáum árum. Skógarkerfill á systur – Spánarkerfil sem er víða í görðum. Auðveldast er að þekkja þessar tegundir í sundur með því að merja blöð af plöntunni og þefa – ef það kemur lakkríslykt er þetta spánarkerfill, en annars skógarkerfill. Spánarkerfillinn er ekki eins ágengur og skógarkerfill, en óþarfi að leyfa honum að breiða úr sér utan garða.

 

Þar sem um stakar plöntur er að ræða, þá er best að stinga þær upp. Gott er að nota t.d. fíflajárn, en kerfillinn hefur stólparót eins og fífill en ekki mjög langa. Þar sem hann hefur dreift sér um stærri svæði má slá hann. Sláttur á kerfil hefur skilað misgóðum árangri hingað til, en talið er að ef kerfilinn er sleginn þrisvar yfir sumarið áður en hann ber fræ minnki þróttur hans og hann lítur að lokum í lægra haldi. Þegar kerfillinn hefur myndað fræ verða aldin hans dökk brún og þá er orðið of seint að slá hann það sumar. Ef plantan er farin að mynda fræ (eftir miðjan júlí) er ekki mælt með því að plöntunni sé fargað í lífrænt rusl. Þá er betra henda henni í sorp eða brennslu. Varast skal að dreifa fræjum eftir að þau myndast, til að sporna við frekari útbreiðslu.

 

 

Alaskalúpína

Alaskalúpínu var sáð í Borgirnar fyrir ofan Hólmavík fyrir 1980. Það var gert á sínum tíma í góðri trú um gróðurbætur og þá var þess að gera nýbyrjað að flytja inn lúpínu til landsins. Hún átti erfitt uppdráttar fyrst, t.d. vegna beitar. Síðustu ár hefur orðið sprenging í útbreiðslu hennar. Þetta er dugleg planta með sína eigin „áburðarframleiðslu“.

Við höfum kannski ekki lengur tækifæri til að útrýma lúpínu í Borgunum eins og við höfum með kerfilinn, en sjálfsagt er að vinna á móti útbreiðslu hennar á nýjum svæðum.

Sláttur hefur virkað til að hefta útbreiðslu lúpínunnar, þar sem hún hefur lagt undir sig svæði. Best er að slá hana áður en hún fer að mynda fræ frá miðjum júní til miðs júlí. Þá hefur plantan notað mikla orku í að mynda blóm og er viðkvæm fyrir slætti. Best er ef hún er slegin „groddalega“, þ.e. alveg niður við jörð.

 

Bjarnarkló

Bjarnarkló er stórvaxinn planta sem líkist hvönn. Hún var á nokkrum stöðum í görðum í Strandabyggð en líklega er búið að eyða henni á þeim flestum. Ef einhverir vita um slíkar plöntur hér á svæðinu og eru ekki vissir þá má hafa samband við Hafdísi (hafdis@nave.is) og fá upplýsingar og aðstoð.

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón