A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Af íbúafundi

| 05. febrúar 2016

Íbúafundur var haldinn á Hólmavík miðvikudaginn 3. febrúar sl. þar sem vöngum var velt um hitaveitumöguleika í Strandabyggð. Ríflega 70 manns mættu til fundarins og var góður rómur gerður að erindum Hauks Jóhannessonar um jarðvarmakosti í Strandabyggð og ýmis málefni sem snerta lögleg atriði og lífsgæði sem fylgja hitaveitu frá Maríu Maack.

Í erindum þeirra kom fram að nota má heita vatnið á nokkrum stigum til smáiðnaðar, ylræktar, húshitunar og baða, einkum ef affallinu er haldið til haga og húsakerfin eru með lokuðu innra kerfi sem mætir heita vatninu í varmaskipti.

Þrír megin hitaveitukostir voru helst reifaðir á fundinum, en það voru borholur á Gálmaströnd, heitt vatn í Hveravík og svo frekari leit innan við Grjótá. Fram kom að þrátt fyrir góðan hita í holum á Gálmaströnd gæti jarðhiti í Hveravík verið vænlegri kostur þar sem bæði er ríkt vatnsflæði (40L/sek) og heppilegt hitastig (70°C eða hærra) fyrir hitaveitu en síður fyrir rafmagnsvinnslu. Vinnsluleyfi er í höndum jarðeiganda. Hreinsa þarf holu en að jafnaði er dýrara að bora nýjar frekar en að hreinsa og eða fóðra vinnsluholur. Einnig hefur borunarkostnaður hækkað nýlega.

Haukur skýrði frá því að hverja vinnsluholu sé nauðsynlegt að álgasprófa til að tryggja að jarðvarminn breytist ekki þótt heita vatnið sé tekið í notkun og dælur komi vatninu á leiðarenda. Ef vatnið yrði leitt frá Hveravík þarf einnig að finna tæknilausnir á lagningu pípa í sjó. Þess vegna þarf að vinna vel allan undirbúning. Hefð er fyrir þvi í landinu að hitaveituframkvæmdir fái 8-12 ára niðurgreiðslur fyrir rafmagnshitun í meðgjöf frá ríkinu upp í framkvæmdakostnað en ekki fyrr en hitaveitan er komin í notkun. Jafnframt falla allar niðurgreiðslur niður til plássins eftir það. Á þessari stundu liggur ekki ljóst fyrir ljóst hve háar niðurgreiðslur gætu fylgt slíkum framkvæmdum en unnið verður að frekari upplýsingaöflun.

Hitaveituframkvæmdum fylgir mikill fjárfestingarkostnaður og því þarf að huga vel að því hver eigandi hitaveitunnar yrði. Þar sem einkaaðilar koma að lagningu hitaveitu er hætta á að krafist sé snöggrar endurgreiðslu og þar með hárra vaxta. Ef hins vegar íbúar leggja sitt af mörkum með vinnu, velvilja og stuðning á öllum stigum mætti ætla að hitaveita gæti borgað sig upp á innan við 20 árum. Ólíku er saman að jafna hitaveitu á Drangsnesi og hugmyndum um hitaveitu á Hólmavík og er því varasamt að miða við kostnaðartölur þaðan. Hins vegar var samstaða íbúa þar, baráttuvilji og meðbyr við hugmyndina til fyrirmyndar.

Á fundinum kom berlega í ljós að mikill áhugi er fyrir hitaveituframkvæmdum í sveitarfélaginu og nokkuð ljóst að áhugi er fyrir því að farið verði í frekari upplýsingaöflun og undirbúning vegna hitaveitu í Strandabyggð og gerðar ítarlegar áætlanir svo hægt sé að taka ákvarðanir hitaveituframkvæmdir byggðar á staðreyndum.

Rétt er að taka það fram að engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi hitaveituframkvæmdir enn sem komið er um framhaldið eða þá hvaða kostir yrðu ofaná ef og þegar til kemur.

Hér má sjá glærur af fundinum frá María Maack 
Gærur frá Hauki Jóhannessyni munu koma inn fljótlega

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón