A A A

Valmynd

Fréttir

Viđburđir

Hér er að finna brot af því besta sem að Hamingjudagara hafa upp á að bjóða, dagskrárliðir halda áfram að týnast inn fram að hátíðinni svo fylgist vel með.

Náttúrubarnaskólinn

Dagsetning: Fimmtudagur 29. júní
Tími: 13:00 - 17:00
Staðsetning: Sauðfjársetrið í Sævangi
Verð: 3.000 kr

Það er vísindalega sannað að það fylgir því aukin hamingja að vera í góðu sambandi við sitt innra náttúrubarn. Á fimmtudaginn klukkan 13:00-17:00 verður Náttúrubarnaskóli á Sauðfjársetrinu í Sævangi með sannkölluðu hamingjuþema! Við ætlum að fara út í fjöruferð og náttúruskoðun, senda flöskuskeyti og breiða út hamingjuna, brugga sérstakt hamingjuseyði, fá okkur svo kökur og góðgæti og fara í nokkra skemmtilega leiki. Það kostar 3000 kr. á mann og skráning er í síma 661-2213, á facebook-síðu Náttúrubarnaskólans eða á netfanginu natturubarnaskoli@gmail.com


Menningarverðlaun Strandabyggðar

Dagsetning: Föstudagur 30. júní
Tími: 17:00
Staðsetning: Steinshús
Verð: -

Menningarverðlauna Strandabyggðar verða veitt í áttunda skiptið við hátíðlega athöfn á Hamingjudögum 2017. Áður hafa Sigríður Óladóttir kórstjóri, Leikfélag Hólmavíkur, Sauðfjársetrið (tvisvar sinnum), Grunnskólinn á Hólmavík, Þjóðfræði­stofa á Ströndum og Einar Hákonarson listamaður hlotið verðlaunin.
Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklings, félags, stofnunar, fyrir­tækis eða hóps fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar í sveitarfélaginu á liðnu ári.


Hamingjudagamót

Dagsetning: Föstudagur 30. júní
Tími: 19:00
Staðsetning: Skeljavíkurvöllur
Verð: 4.000 kr

Golfklúbbur Hólmavíkur stendur fyrir Hamingjudagsmóti í golfi föstudagskvöldið 1. júlí. Verða veitt verðlaun fyrir punkta, 1.-3. Sæti, verðlaun fyrir höggleik án forgjafar, lengsta drive og næst holu, veglegar teiggjafir. Glæsileg verðlaun eru í boði Hólmadrangs. Skráning fer fram í síma 821-6326 eða á golf.is.


Sýning á verkum leikskólabarna

Dagsetning: Alla hátíðina
Tími: 09:00-21:00
Staðsetning: Íþróttamiðstöð Hólmavíkur

Einlæg og fjölbreytt listaverk eftir yngstu kynslóðina ásamt heimspekilegum tilvitnunum í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík. Opið frá kl. 09:00 til kl. 21:00 alla daga.


Hamingjuhlaup

Dagsetning: Laugardagur 1. júlí
Tími: 10:00
Staðsetning: 
Verð: -

Það er Stefán Gíslason, hamingjusamur bóndasonur og hlaupagikkur frá Gröf í Bitrufirði og fyrrum sveitarstjóri á Hólmavík, sem er upphafsmaður Hamingjuhlaupsins. Sagan segir að þátttakendur öðlist mikla hamingju að hlaupi loknu. 

 

Hlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun. Ekki er þörf á að skrá sig í hlaupið. Þeir sem ekki treysta sér í jafn langt hlaup og þetta geta þess vegna byrjað á fyrirfram ákveðnum áningarstöðum í hlaupinu.  


Leikhópurinn Lotta

Dagsetning: Laugardagur 1. júlí
Tími: 17:00
Staðsetning: Kirkjuhvamminum
Verð: -

 

Þetta er ellefta sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Litaland, Litlu gulu hænuna, Hróa hött, Gilitrutt, Stígvélaða köttinn, Mjallhvíti og dvergana sjö, Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi. 

Höfundur Ljóta andarungans er Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er sjöunda leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið. Textarnir eru eftir Önnu Bergljótu en lögin sömdu Helga Ragnarsdóttir og Rósa Ásgeirsdóttir.

Ljóti andarunginn er ný útgáfa Leikhópsins Lottu af klassísku ævintýri H. C. Andersen um litla ungann sem hvergi virðist eiga heima. Lotta notar hér tækifærið til að takast á við erfitt samfélagsvandamál, nefnilega einelti. TIl að bæta við skemmtanagildið og um leið styðja boðskapinn blandar Lotta saman fimm sögum en auk Ljóta andarungans kynnumst við Öskubusku, Kiðlingunum sjö, Héranum og skjaldbökunni og Prinsessunni á bauninni. Ævintýriin eru síðan öll límd saman með nýjum íslenskum lögum svo úr verður sannkölluð fjölskylduskemmtun.

Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhalds vini sínum úr Ævintýraskóginum.


Hoppukastalar og leiktæki

Dagsetning: Laugardagur 1. júlí
Tími: 13:00
Staðsetning: Galdratún
Verð: -

Leiktæki fyrir alla, hoppukastalar og mennskt fótboltaspil.

Hamingjumarkaður
Dagsetning: Laugardagur 1. júlí
Tími: 13:00 – 17:00
Staðsetning: Hnyðju
Verð: -

Eins og undanfarin ár býðst áhugasömum aðilum að selja varning á sölubásum á Hamingjudögum laugardaginn 1. júlí frá kl. 13:00-17:00. Fjölbreyttur og skemmtilegur markaður sem allir ættu að kíkja á og finna sér eitthvað fallegt. ÞEir sem vilja hafa sölubás geta haft samband við tómstundafulltrúa.

 


Hnallþóruhlaðborð

Dagsetning: Laugardagur 1. júlí
Tími: 15:30
Staðsetning: Galdratún
Verð:-

Hamingjuhlaðborðið er einn af stærstu viðburðum Hamingjudaga ár hvert. Íbúar eru hvattir til að baka hnallþóru og mæta með hana á hlaðborðið til að tryggja að allir fái eitthvað að smakka! Vegleg verðlaun eru í boði fyrir flottustu hnallþórurnar. Sveitastjórn mun sjá um dómgæslu í Hnallþóru­keppninni í ár. Mikilvægt er að fólk komi með terturnar að Hnyðju milli kl. 14:30 og 15:30 á laugardeginum 1. júlí. Að lokum er fólk hvatt til að merkja hnífa, spaða og diska vel svo ekkert glatist nú! Gestir á Hlaðborðinu eru hvettir til að taka með sér eigin áhöld til að takmarka notkun einnota áhalda.


Sundlaugarpartý

Dagsetning: Föstudagur 30. júní
Tími: 19:00
Staðsetning: Íþróttamiðstöð Hólmavíkur
Verð: Verðskrá íþróttamiðstöðvarinnar

Sundlaugarpartý verður fyrir 13 til 17 ára einstaklinga í sundlaug Íþróttamiðstöðvar HólmavíkurViðburður sem áður hefur verið haldinn á Hamingjudögum og heppnast með ein dæmum vel. Mikið stuð ræður ríkjum, spiluð tónlist og farið í leiki. DJ Dagur heldur uppi stuðinu í sundlaugarpartýinu í ár.


Útifjölskyldumessa

Dagsetning: Sunnudaginn 2. júlí
Tími: 12:00
Staðsetning: kirkjugarðinum í Tröllatungu
Verð: -

Yndislegur viðburður sem hefur verið haldin seinustu ár á Hamingjudögum, útifjölskyldumessa. Séra Sigríður heldur messu úti í kirkjugarðinum í Tröllatungu. Kirkjugarðinn er nýlega búið að snyrta til og fegra og útimessan er kjörið tækifæri til að njóta kyrrðar- og friðarstundar saman. Þeir sem geta mega endilega kippa með sér útilegustóla.


Polla- og pæjumót

Dagsetning: Sunnudaginn 2. júlí
Tími: 11:00
Staðsetning: Skeljavíkurgrundum
Verð: -

Sunnudaginn 3.júli kl 11:00 verðu haldið fótboltamót á Skeljavíkurgrundum fyrir alla frá 6 ára til 99ára (og eldri). Skráning og skipt í lið á staðnum. Hvetjum alla til að mæta.


Furðuleikar

Dagsetning: Sunnudaginn 2. júlí
Tími: 13:00
Staðsetning: Sauðfjársetrinu í Sævangi
Verð: -

Hinir árlegu Furðuleikar á Ströndum verða að venju haldnir á sunnudaginn um hamingjudagahelgina, þann 2. júlí og hefjast kl. 13:00. Þarna verður að venju mikið fjör og gleði fyrir alla fjölskylduna, Strandamenn, nærsveitunga og gesti sem koma saman og leik sér í furðulegum leikjum öllum til gleði og ánægjuauka. Skemmtilegar og árvissar keppnisgreinar eins og öskurkeppnin ógurlega og trjónufótboltinn verða á sínum stað og svo verður eitthvað nýtt og furðulegt í bland. Dásamlegt kaffihlaðborð verður á boðstólum í kaffistofu Sauðfjársetursins og frítt inn á allar sögusýningar í tilefni dagsins.

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón