A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, 8. apríl 2020

8. apríl 2020.

Fundur var haldinn í Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar miðvikudaginn 8. apríl 2020 og hófst kl. 17:00. Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði. Hann sátu Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson, Angantýr Ernir Guðmundsson, Jóhanna Rósmundsdóttir og Jón Jónsson formaður sem stýrði fundi og ritaði fundargerð.


Fyrir fundinum lá eftirfarandi dagskrá:

  1. Starf tómstundafulltrúa
  2. Menningardvöl
  3. Hamingjudagar
  4. Vinnuskóli og sumarstarf 2020
  5. Áhrif samkomubanns á starfsemi stofnana og félaga - umræður
  6. Önnur mál

 

Var þá gengið til dagskrár:

1. Starf tómstundafulltrúa
Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir hefur sagt upp starfi sínu sem tómstundafulltrúi í Strandabyggð, en starfar út maímánuð. Sveitarstjóri hefur beint því til nefndarinnar að gera tillögu um auglýsingu eftir nýjum starfsmanni. Nefndin gerir að tillögu sinni að auglýst verði eftir tómstundafulltrúa sem allra fyrst og að um 100% starf verði að ræða. Tillaga frá nefndinni að texta í auglýsingu verður send sveitarstjórn samhliða fundargerð.  

2. Menningardvöl
Nefndin leggur til við sveitarstjórn að boðið verði upp á menningardvöl í dreifnámshúsinu, Hafnarbraut 19,  í sumar eins og síðustu ár. Tómstundafulltrúa verði falið að kynna verkefnið og óska eftir umsóknum. Einnig er lagt er til að fyrirliggjandi umsókn verði samþykkt.
 

3. Hamingjudagar 2020
Ákveðið var strax síðasta sumar að halda Hamingjudaga síðustu helgi í júní og vill nefndin að áfram verði unnið og stefnt að því, þó með fyrirvara um að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda verði fylgt. Minnisblað frá tómstundafulltrúa um dagskráratriði sem þegar hafa verið skipulögð var lagt fram.

4. Vinnuskóli og sumarstarf 2020
Rætt var um vinnuskóla og sumarstarfið 2020 á grundvelli minnisblaðs frá tómstundafulltrúa. Rætt um mikilvægi þess að halda úti öflugum og vel undirbúnum sumarnámskeiðum og vinnuskóla.

5. Áhrif samkomubanns á starfsemi stofnana og félaga – umræður
Ljóst er að samkomubann hefur mikil áhrif á stafsemi félaga í Strandabyggð, hefðbundið starf og viðburðahald liggur niðri hjá mörgum þeirra og tekjumöguleikar litlir. Þar má t.d. nefna að sýningar hjá Leikfélagi Hólmavíkur hafa fallið niður og allt íþróttastarf liggur niðri. Slíkt getur orðið félagsstarfi erfitt til lengri tíma litið og því sérlega mikilvægt að hlúa að menningar- og íþróttastarfi á svæðinu.

6. Önnur mál
a) Rætt var um verkefni, aðstöðu, tæki og tól á sviði tómstundastarfs í framtíðinni, t.d. varðandi skíðagönguíþróttina og rafíþróttir sem var talsvert rætt um og vilji er til að bjóða upp á.

Ekki voru önnur mál lögð fram.

Ekki var fleira tekið fyrir. Fundargerð var lesin upp og samþykkt samhljóða. Fundi slitið kl. 18:07.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón