A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1343 í Strandabyggð, 14. mars 2023

Sveitarstjórnarfundur nr. 1343 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 14. mars 2023 kl. 16:00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Vinnufundur sveitarstjórnar frá 22. febrúar 2023, samþykktir frá þeim fundi til formlegrar staðfestingar
2. Vinnufundur sveitarstjórnar frá 6. mars 2023, samþykktir frá þeim fundi til formlegrar staðfestingar
3. Efla, kostnaðarmat v. endurbóta grunnskólans – til afgreiðslu
4. Kaup á færanlegum skólastofum – til afgreiðslu
5. Samningur slökkviliðs Strandabyggðar við Vegagerð ríkisins um hreinsun á vettvangi – til afgreiðslu
6. Orkubú Vestfjarða beiðni um umsögn v. rannsókna á Gálmaströnd frá 6. desember 2022 – til afgreiðslu
7. Kvíslatunguvirkjun, fundur með Orkubúi Vestfjarða 9. mars 2023 – til kynningar
8. Orkubú Vestfjarða, erindi vegna Kvíslatunguvirkjunar frá 10. mars 2023 - til afgreiðslu
9. Greinargerð vegna bréfs Hafdísar Sturlaugsdóttur til innviðaráðuneytis 22. febrúar 2023 – til kynningar
10. Minnisblað sveitarstjóra, staðarval vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar – til afgreiðslu
11. Minnisblað sveitarstjóra vegna innleiðingar nýrra laga um sorphirðu – til afgreiðslu
12. Félagsþjónusta Stranda- og Reykhólahrepps, fundargerð frá 21. febrúar 2023 –til afgreiðslu
13. Velferðarnefnd fundargerð frá 15. febrúar 2023 – til kynningar
14. Sorpsamlag Strandasýslu, fundargerð frá 13. febrúar 2023 – til kynningar
15. Sorpsamlag Strandasýslu, ársreikningur 2022 – til kynningar
16. Brunavarnir Dala, Reykhóla og Stranda, stjórnarfundur 2. mars 2023 – til kynningar
17. Forstöðumannaskýrslur vegna febrúar – til kynningar
18. Verkefni sveitarstjóra í febrúar – til kynningar/umræðu
19. Náttúrustofa Vestfjarða ársreikningur 2022- til kynningar
20. Fjórðungssamband Vestfjarða, boð á fjórðungsþing nr.68, 12. apríl 2023 á Ísafirði – til kynningar
21. Vestfjarðastofa og Fjórðungssamband Vestfirðinga, fundargerðir 50 frá 18. janúar 2023 og 51 frá 15. febrúar 2023 – til kynningar
22. Stjórn samtaka orkusveitarfélaga, bókun frá fundi 17. febrúar 2023 – til kynningar
23. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerð nr. 919 frá 28. Febrúar 2023- til kynningar
24. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 450 frá 17. febrúar 2023 – til kynningar
25. Dagur Norðurlandanna, erindi frá 23. mars 2023 – til kynningar
26. Dýraverndarsamband Íslands, hvatning til sveitarfélaga 10. febrúar 2023 - til kynningar
27. Ungmennaráð, fundur með sveitarstjórn


Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið og A-listi gerir athugasemd.


A-listi leggur fram eftirfarandi athugasemd við fundarboðið: “Í fundarboði fyrir sveitarstjórnarfund 1343 í dagskrárlið 1 og 2 kemur ekki fram hvað mál verða tekin fyrir á fundinum. Við teljum að íbúar Strandabyggðar eigi rétt á að vita um hvaða mál verði fjallað á fundinum enda eykur það traust og gagnsæi á störfum sveitarstjórnar. Í annan stað er í þessum dagskrárliðum vísað til vinnufunda sem eiga sér ekki stoð í Sveitarstjórnarlögum eða í „Samþykktum um stjórn og fundarsköp sveitarfélagssins Strandabyggðar“. Vinnufundir geta verið gagnlegir til að upplýsingar og bæta þekkingu sveitarstjórnarmanna á einstaka málum, en þar sem vinnufundir hafa ekkert stjórnskipulegt gildi förum við fram á við oddvita að þeir verði notaðir í hófi. Við krefjumst þess að öll mál sem fjalla á um á sveitarstjórnarfundi komi fram í dagskrá fundarins þ.e. í fundarboði. “


Oddviti útskýrir málið og telur að þegar langt líður á milli funda þá þurfi að stundum að vinna hraðar og hefur sveitarstjórn verið samstíga í því. Samþykktir vinnufunda eru alltaf bornar upp til samþykktar á sveitarstjórnarfundum og er engin breyting á því á þessum fundi. Öll umræða vinnufunda kemur að sjálfsögðu fram á sveitarstjórnarfundum.


Oddviti óskar eftir að tekin verði fyrir 4 mál sem afbrigði við fundinn sem eru eftirfarandi:


1. Breytingar í lagaumhverfi Jöfnunarsjóðs sem yrði númer 28 í dagskrá. Samþykkt samhljóða
2. Tillaga að lýsingu til Skipulagsstofnunar vegna byggingaráforma á Kópnesbraut sem yrði númer 29 í dagskránni. Samþykkt samhljóða.
3. Opnunartími Íþróttamiðstöðvar, vegna fundargerðar TÍM sem yrði númer 30 í dagskránni. Samþykkt samhljóða.
4. Næsti fundur sveitarstjórnar verði 18. apríl en fundur 11. apríl falli niður. Samþykkt samhljóða.


Þá var gengið til dagskrár:


1. Vinnufundur sveitarstjórnar frá 22. febrúar 2023, samþykktir frá þeim fundi til formlegrar staðfestingar


Oddviti rakti efni þessa fundar, en þar var eftirfarandi samþykkt:

„Samþykkt:

  • Halda áfram skoðun á leið 2. Oddvita falið að halda áfram og vinna að því að skila inn
     umsókn um frest til ráðuneytisins, í samvinnu við Dalabyggð og Reykhóla
  • Oddviti kannar rök fyrir kröfu um stöðugildi í barnaverndarmálum hjá ráðuneytinu
  • Hlíf kannar samning á Sauðárkróki, bæði efni hans og hugsanlega aðkomu að honum.“
Síðar kom í ljós að undanþága varðandi barnaverndarmál var ekki möguleg. Því var ákveðið að skoða til hlýtar þann kost að sameinast annars vegar Barnaverndarþjónustu mið-Norðurlands og hins vegar Samstarfi um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi Vestra. Oddviti hefur sent formlega umsókn til Skagafjarðar sem leiðandi sveitarfélags í báðum tilfellum. Tekið er fram að þetta samkomulag yrði til skoðunar til eins árs.

Hlíf tekur fram að hin sveitarfélögin sem eru í Félagsþjónustu- Stranda og Reykhóla hafa þegar samþykkt þátttöku í Velferðarþjónustu Vestfjarða þar sem Ísafjörður er leiðandi sveitarfélag. Rétt sé því að endurskoða ákvörðunina eftir árið.

Oddviti leggur til að sveitarstjórn staðfesti fyrri samþykkt í málinu. Samþykkt samhljóða.


2. Vinnufundur sveitarstjórnar frá 6. mars 2023, samþykktir frá þeim fundi til formlegrar staðfestingar


Oddviti rakti efni þessa fundar, en þar voru eftirfarandi samþykktir gerðar:

Tilboð VSÓ, varðandi umhverfis- og skipulagsmál:
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti þetta tilboð. Samþykkt samhljóma. Formleg staðfesting verður á sveitarstjórnarfundi 1343, 14.3 n.k.


Ósk um aðild að Félagsþjónustu Skagafjarðar (og þess samstarfs)
Láta reyna á sameiningu við Skagafjörð bæði hvað varðar a) barnaverndarmál og b) málefni fatlaðra.


Samningur við TESLA um uppsetningu hleðslustöðva á Hólmavík (samningurinn í viðhengi)
ÞP óskar eftir fundi með stjórn Hornsteina til að ræða staðsetningu. ÞP kallar eftir viðbrögðum frá lögmanni.

Beiðni Orkubús Vestfjarða um umsögn um rannsóknarleyfi á jarðhita á Gálmaströnd

„Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við dýpkun rannsóknarholu. ÞP sendir þessa setningu á Maríu hjá Orkustofnun. Umsögnin nær ekki lengra en til rannsóknarholu, GR09.“


Matthías Sævar Lýðsson bendir á að samningur við VSÓ Ráðgjöf muni standa þar til Umhverfis- og skipulagsnefndir þeirra sveitarfélaga sem standa að rekstri skipulagsfulltrúa hafi verið sameinaðar og þar til nýr skipulagsfulltrúi hefur verið ráðinn.


Oddviti leggur til að sveitarstjórn staðfesti ofannefndar samþykktir. Samþykkt samhljóða.


3. Efla, kostnaðarmat v. endurbóta grunnskólans – til afgreiðslu


Oddviti rakti þróun málsins. Ljóst er að greining á valkostum vegna viðgerðar á grunnskólanum er umfangsmikið verkefni, þar sem taka þarf mið af mörgum þáttum eins og fjárhagsstöðu, lánamöguleikum, mannafla, ofl. Mikilvægt er að ráða verkefnastjóra sem allra fyrst, sem taki málið í sínar hendur. Oddviti hefur rætt málið við VSÓ Ráðgjöf sem sér tímabundið um skipulagsmál sveitarfélagsins. Verður hægt að nýta sér þekkingu þeirra hvað þetta varðar. Eins hefur oddviti rætt við endurskoðendur sveitarfélagsins, KPMG, um að stilla upp nokkrum sviðsmyndum hvað varðar: a) umfang framkvæmda og b) áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Mikilvægt er að öllum sé ljóst, hvað hver leið muni kosta, áður en endanleg ákvörðun er tekin. Oddviti leggur til að sveitarstjórn gangi frá samkomulagi við VSÓ Ráðgjöf um tímabundna verkefnastjórn og er sveitarstjóra falið að klára málið. Einnig er lagt til að staðfesta beiðni um fjárhagslega greiningu af hálfu KPMG og er sveitarstjóra falið að koma á fjarfundi þar um. Sveitarstjóra er einnig falið að undirbúa íbúafund um stöðu mála og næstu skref, þegar fjárhagsleg greining KPMG liggur fyrir.

Matthías tekur til máls, og er ánægður með þessi skref við ákvörðunartökuna og telur þau skynsamleg. Allir sveitarstjórnarmenn telja að kostnaður sé vanmetinn í framlagðri kostnaðaráætlun.

Lagt er til að framlagðar tillögur oddvita um næstu skref verði samþykktar. Samþykkt samhljóða.


4. Kaup á færanlegum skólastofum – til afgreiðslu


Sveitarstjórn hafði sameinast um eftirfarandi:

„Í ljósi aðstæðna varðandi kennslufyrirkomulag og stöðu grunnskólans, staðfestir sveitarstjórn hér með kaup á tveimur færanlegum skólastofueiningum, sem komið yrði upp á heppilegum stað við íþróttamiðstöðina og félagsheimilið fyrir upphaf kennslu haustið 2023. Sú staða sem er nú er uppi er óásættanleg til lengdar, þó svo nemendur, starfsmenn og stjórnendur grunnskólans hafi sýnt mikla þolinmæði og dugnað í að skapa sér hlýlegt og gott kennsluumhverfi. Þrátt fyrir að kennsla hafi gengið með ágætum þá lá alltaf fyrir að þetta fyrirkomulag yrði tímabundið.
Nú liggur fyrir kostnaðarmat varðandi endurgerð grunnskólans og er afar ólíklegt að þeirri vinnu ljúki fyrir upphaf næsta skólaárs. Sveitarstjórn Strandabyggðar staðfestir því kaup á þessum einingum og felur sveitarstjórar að ganga til samninga við söluaðila“.

Strandabandalagið leggur til eftirfarandi breytingu á þessari tillögu:

„Sveitarstjórn er sammála því meginmarkmiði að skólahald hefjist á sameiginlegum stað í haust. Þar verður um að ræða annað hvort a) færanlegar skólastofur eða b) viðbyggingu við íþróttamiðstöð. Strandabandalagið vill skoða þann kost, að byggja hæð ofan á þjónustuhluta íþróttahússins og Flosabóls, sem yrði nýtt sem skólastofur fram að því að skólahald hæfist að nýju í grunnskólanum. Kostirnir við þessa framkvæmd eru þeir að a) hér yrði huganlega um ódýrari framkvæmd að ræða, þar sem viðbyggingin yrði að mestu límtré og gler og b) viðbyggingin nýtist sveitarfélaginu síðan í framhaldinu undir aukna þjónustu við gesti íþróttamiðstöðvar, auk skrifstofu- og fundaaðstöðu fyrir starfsfólk sem er ekki til staðar í dag.
Sveitarstjóra er falið að kanna kostnað við hönnun og byggingu slíkra viðbyggingar, en samhliða að halda þeim kosti opnum að kaupa færanlegar skólastofur. Skal sveitarstjóri leita liðsinnis byggingarfulltrúa og skipulagsráðgjafa á vegum VSÓ Ráðgjafar“.

Hlíf tók til máls og spyr hvort að þessi tillaga falli ekki með kostnaðargreiningu skv. lið 4. Oddviti telur að þetta gæti fallið þar undir.

Matthías tekur til máls og telur þetta frábæra hugmynd en nefnir hönnunarvernd og aðgengi sem helstu galla.


Oddviti leggur til að þessi valkostur verði skoðaður. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


5. Samningur slökkviliðs Strandabyggðar við Vegagerð ríkisins um hreinsun á vettvangi – til afgreiðslu


Oddviti leggur til að samningurinn verði samþykktur og sveitarstjóra falið að ganga frá honum fyrir hönd sveitarfélagsins.
Hlíf spyr hvort ekki sé um að ræða Brunavarnir Dala, Stranda og Reykhóla. Oddviti svarar að um sé að ræða samning við Slökkvilið Strandabyggðar þar sem slökkviliðin séu rekin hvert í sínu lagi.


Lagt er til að samningur verði undirritaður. Samþykkt samhljóða.


6. Orkubú Vestfjarða beiðni um umsögn v. rannsókna á Gálmaströnd frá 6. desember 2022 – til afgreiðslu


Oddviti leggur til að sveitarstjórn staðfesti áður gefna umsögn.

Matthías biður um orðið og segir að í beiðninni sé annars vegar rætt um rannsóknarleyfi og hins vegar um nýtingarleyfi. Í svari sveitarstjórnar kemur fram að samþykkt sé að taka jákvætt í rannsóknarleyfi.

A-listinn leggur fram eftirfarandi bókun með stuðningi T-lista :

Í gögnum sem fylgja þessum dagskrárlið kemur fram orðalag sem túlka má á þann veg að þrátt fyrir að það verði góður árangur að jarðhitaleit, eigi ekki að leggja hitaveitu til nota fyrir Strandabyggð eða íbúa hennar. Oddvita verði falið að óska eftir svörum frá stjórn Orkubús Vestfjarða hvort tekið hafi verið fyrir á stjórnarfundi að ekki eigi að leyfa íbúum í Strandabyggð að njóta jarðhita fari svo að heitt vatn finnist. Einnig að fá svör stjórnar Vestfjarðarstofu um hver afstaða þeirra sé til þess að jarðhiti, ef hann finnst, eigi ekki að gagnast íbúum Strandabyggðar.


Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

7. Kvíslatunguvirkjun, fundur með Orkubúi Vestfjarða 9. mars 2023 – til kynningar


Minnisblað vegna fundarins lagt fram til kynningar og um leið staðfestingar á því að hann hafi farið fram.

8. Orkubú Vestfjarða, erindi vegna Kvíslatunguvirkjunar frá 10. mars 2023 - til afgreiðslu


Sveitarstjórn fagnar þessum áformum og þakkar einnig góða kynningu af hálfu Orkubúsins. Oddviti leggur til að málinu sé vísað til US nefndar til frekari skoðunar og afgreiðslu.

Matthías tekur til máls og fagnar þessum áformum og telur það skipta máli að hraða afgreiðslu málsins.


Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


9. Greinargerð vegna bréfs Hafdísar Sturlaugsdóttur til Innviðaráðuneytis 22. febrúar 2023 – til kynningar


Lagt fram til kynningar. Greinargerðin er aðgengileg á vef Strandabyggðar.

10. Minnisblað sveitarstjóra, staðarval vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar – til afgreiðslu


Oddviti rakti tilurð verkefnisins og tiltók þá vinnu sem átti sér stað. Oddviti leggur til að sveitarstjórn staðfesti hér með þá vinnu og niðurstöðu hennar og vísi málinu til fjárfesta til ákvörðunartöku.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

11. Minnisblað sveitarstjóra vegna innleiðingar nýrra laga um sorphirðu – til afgreiðslu


Oddviti rakti tilurð málsins og leggur til eftirfarandi: „Sveitarstjórn beinir því til stjórnar Sorpsamlagsins að hún skoði gaumgæfilega alla kosti varðandi útfærslu á nýjum lögum um sorphirðu, hvort sem það eru 4ra tunnu fyrirkomulag eða botnlangastöðvar. Eins hvetur sveitarstjórn til samráðs við íbúa um þessa valkosti.“
Sveitarstjóra er falið að upplýsa stjórn Sorpsamlagsins um ályktun sveitarstjórnar.

Matthías bendir á að samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdarstjóra komi fram að íbúar verði upplýsir reglulega um næstu skref. Oddviti tekur fram, að á morgun 15. mars verði tilkynnt til íbúa breytingar á flokkunarstöð á Skeiði.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

12. Félagsþjónusta Stranda- og Reykhólahrepps, fundargerð frá 21. febrúar 2023 –til afgreiðslu


Hlíf Hrólfsdóttir formaður velferðarnefndar rakti forsögu umsóknar Dalabyggðar. Oddviti leggur til að sveitarstjórn samþykki inngöngu Dalabyggðar í Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla og hvetur stjórn Félagsþjónustunnar til að koma formlegri framkvæmd í ferli. Sveitarstjóra er falið að tilkynna hlutaðeigandi.

Samþykkt samhljóða.


13. Velferðarnefnd fundargerð frá 15. febrúar 2023 – til kynningar


Fundargerð lögð fram til kynningar.


14. Sorpsamlag Strandasýslu, fundargerð frá 13. febrúar 2023 – til kynningar


Fundargerð lögð fram til kynningar.


15. Sorpsamlag Strandasýslu, ársreikningur 2022 – til kynningar


Ársreikningur lagður fram til kynningar. Matthías spyr um nokkur atriði og voru þau útskýrð.


16. Brunavarnir Dala, Reykhóla og Stranda, stjórnarfundur 2. mars 2023 – til kynningar


Fundargerð lögð fram til kynningar.


17. Forstöðumannaskýrslur vegna febrúar – til kynningar


Forstöðumannaskýrslur lagðar fram til kynningar.


18. Verkefni sveitarstjóra í febrúar – til kynningar/umræðu


Verkefnaskýrsla sveitarstjóra lögð fram til kynningar.


19. Náttúrustofa Vestfjarða ársreikningur 2022- til kynningar


Ársreikningur Náttúrustofu Vestfjarða lagður fram til kynningar.


20. Fjórðungssamband Vestfjarða, boð á fjórðungsþing nr. 68, 12. apríl 2023 á Ísafirði – til kynningar


Fundarboð lagt fram til kynningar.


21. Vestfjarðastofa og Fjórðungssamband Vestfirðinga, fundargerðir 50 frá 18. janúar 2023 og 51 frá 15. febrúar 2023 – til kynningar


Fundargerðir lagðar fram til kynningar.


22. Stjórn samtaka orkusveitarfélaga, bókun frá fundi 17. febrúar 2023 – til kynningar


Fundargerð lögð fram til kynningar.


23. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerð nr. 919 frá 28. febrúar 2023- til kynningar


Fundargerð lögð fram til kynningar.


24. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 450 frá 17. febrúar 2023 – til kynningar


Fundargerð lögð fram til kynningar.


25. Dagur Norðurlandanna, erindi vegna 23. mars 2023 – til kynningar


Erindið lagt fram til kynningar.


26. Dýraverndarsamband Íslands, hvatning til sveitarfélaga 10. febrúar 2023 - til kynningar


Lagt fram til kynningar.


Oddviti leggur til að taka lið númer 28 á undan lið nr. 27 til að nýta tímann, þar sem beðið var eftir gestum fundarins.

Samþykkt samhljóða.


27. Ungmennaráð, fundur með sveitarstjórn


Ungmennaráð mætir til fundar og tekur þátt í fundinum í fjarfundi, í síma og á staðnum. Ungmennaráð hefur í fundargerð sinni, lagt áhugaverðar spurningar fyrir sveitarstjórn. Umræða varð um spurningarnar og ákveðið að halda vinnufund með Ungmennaráði fljótlega. Sveitarstjóra falið að undirbúa þann fund. Ungmennaráði er þakkað fyrir góðan fund.


28. Breytingar á lagaumhverfi Jöfnunarsjóðs


Oddviti segir frá því að Jöfnunarsjóður hafi kynnt viðamiklar tillögur til breytinga á lagaumhverfi sjóðsins s.l. föstudag og að þær breytingar séu nú til umsagnar í Samráðsgátt. Breytingarnar munu hafa í för með sér skerðingu fyrir Strandabyggð sem nemur kr. 73. milljónum, eða 37% skerðingu sem skiptist á 3 ár. Það er ljóst að sveitarfélagið getur ekki tekið þá skerðingu á sig, að öllu óbreyttu.

Sveitarstjórn Strandabyggðar ályktar eftirfarandi:

„Sveitarstjórn Strandabyggðar lítur þessar tillögur að lagabreytingum mjög alvarlegum augum og ljóst að þær gera minni sveitarfélögum illmögulegt að veita lögbundna þjónustu.“

Oddviti leggur til að málinu verði vísað til frekari vinnu innan sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.


29. Tillaga að lýsingu til Skipulagssofnunar vegna byggingaráforma á Kópnesbraut


Oddviti leggur til eftirfarandi: Með vísan í skipulagslög sem segja; „30. gr. Gerð aðalskipulags, kynning og samráð.
Þegar vinna við gerð aðalskipulagstillögu hefst skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við aðalskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum. Leita skal umsagnar um hana hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi. Í skipulagsreglugerð er kveðið nánar á um lýsingu aðalskipulagsverkefnis og kynningu hennar.“
Er hér lagt til að sveitarstjórn staðfesti lýsinguna og að fulltrúa VSÓ Ráðgjafar, sem sér um skipulagsmál sveitarfélagsins tímabundið, verði falið að fylgja henni eftir í samráði við Landmótun, þannig að lýsingin fari sem fyrst til Skipulagsstofnunar.

Samþykkt samhljóða.


30. Opnunartími íþróttamiðstöðvar og sundlaugar, vegna fundargerðar TÍM


Oddviti rakti bókun texta sem unnin hefur verið með íþrótta- og tómstundafulltrúa og formanni TÍM nefndar:

„Á síðasta sveitarstjórnarfundi var farið yfir fundargerð TÍM nefndar, frá fundi nefndarinnar þann 23.1 sl. Þar kom fram hugmynd um að loka kl 16 á föstudögum, líkt og var áður en opna þess í stað kl 10 á laugardögum, í stað kl 14 eins og nú er.
Frá því að þessi umræða átti sér stað í TÍM nefnd, hefur íþrótta- og tómstundafulltrúi kannað eftirspurn eftir tímum í sal og almenna nýtingu íþróttamiðstöðvar frá kl 16 á föstudögum og fram til 21. Í ljós hefur komið að mikil eftirspurn er til staðar. Það er því ekki grundvöllur fyrir því lengur að loka fyrr á föstudögum. Hvað laugardagsmorgnana varðar og opnun kl 10, þá er hugsunin sú, að færa krakkaleikfimi yfir á laugardagsmorgnana, þar sem krakkarnir væru þá betur hvíld og tilbúin í leikfimi. Nokkuð hefur borið á því að krakkarnir séu þreytt og spennt í leikfimi þegar um er að ræða tíma seinni part dags, á virkum dögum. Foreldrar hafa fagnað þessari hugmynd og var hún t.d. rædd nýlega á aðalfundi Geislans og fékk þar afgerandi stuðning. Var rætt um að jafnvel mætti aldursskipta hópnum, sem gæfi tímunum meira gildi fyrir ólíka aldurshópa.
Því miður skorti á formlega ósk til sveitarstjórnar um að álykta um þessar breytingar, og eru þessir minnispunktar því sendir til að hnykkja á þeirri ósk.

Er sveitarstjórn hér með beðin um að staðfesta eftirfarandi; a) halda áfram óbreyttri opnun á föstudögum til kl 21:00 og b) opna kl 10 á laugardögum.

Allt er þetta gert til að þjónusta íbúa Strandabyggðar sem kalla eftir aukinni opnun og efla lýðheilsu allra aldurshópa.“

Jón Sigmundsson leggur til að opnun verði samþykkt fram að sumaropnun og nýting verði mæld. Ef nýting er ekki nægjanleg þá verði litið á þetta sem tilraun og ákvörðun tekin til baka.

Oddviti leggur til að sveitarstjórn staðfesti breytta opnun eins og kallað er eftir sem og tillögu Jóns. Samþykkt samhljóða.

31. Næsti fundur sveitarstjórnar, 18. apríl í stað 11. apríl.


Í ljósi hátíðardaga um páska reynist nauðsynlegt að breyta dagsetningu næsta sveitarstjórnarfundar. Samþykkt samhljóða.


Fleira ekki fyrirtekið, fundargerð lesin upp og fundi slitið kl. 19.07


Þorgeir Pálsson (sign)
Jón Sigmundsson (sign)
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir (sign)
Matthías Sævar Lýðsson (sign)
Hlíf Hrólfsdóttir (sign)

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón