A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1290 í Strandabyggð 11.6.19

Sveitarstjórnarfundur 1290 í Strandabyggð

Fundur nr. 1290 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 11. júní 2019 í Hnyðju, Höfðagötu 3. Fundurinn hófst kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Gísli Jónsson og Jón Jónsson. Fundarritari Þorgeir Pálsson.


Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Ákvörðun um niðurfellingu sveitarstjórnarfundar í júlí
2. Hólmadrangur – nauðasamningar
3. Beiðni hönd Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum um leigu á herbergi
4. Umhverfisvottun Vestfjarða (Vestfjarðastofa)
a. Laga- og reglugerðaskrá Útgáfa handbókar 003 2019
b. Framkvæmdaáætlun 2019 2024, Vegna umhverfisvottunar sveitarfélaganna á Vestfjörðum
c. Umhverfisstjórnunarhandbók
5. Tillaga Jóns Jónssonar - viðbrögð við fólksfækkun – aðgerðir
6. Beiðni um umsögn vegna lausnar lóðarinnar Ingunnarflata á Broddanesi úr landbúnaðarnotkun
7. Stofnsamningur Brunavarna Dala, Reykhóla og Strandabyggðar
8. Skipan fulltrúa Sveitarfélagsins Strandabyggðar á aðalfund Sorpsamlags Strandasýslu
9. Fundargerðir nefnda
a. Umhverfis- og skipulagsnefnd, 3.6.2019
b. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, 6.6.2019
c. Fræðslunefnd, 6.6.2019.
10. Forstöðumannaskýrslur
11. Hafnarsamband Íslands, fundargerð 413 – til kynningar
12. Aðgerðaáætlun um orkuskipti í íslenskum höfnum – til kynningar
13. Siglingaráð Íslands – 14. fundur – til kynningar
14. Fundargerð 122. fundar í Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis – til kynningar
15. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarðasvæðis, Ársskýrsla 2018 – til kynningar
16. Fundargerð 871. fundar, stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – til kynningar
17. Samband íslenskra sveitarfélaga - Samstarfsvettvangur sveitarfélaganna fyrir heimsmarkmiðin og loftslagsmál – til kynningar
18. Þinggerð 64. Fjórðungsþings Vestfirðinga til kynningar.


Oddviti setti fundinn kl 16:03.
Gerð var athugasemd við lið 9c, þar sem ekki er um eiginlega fundargerð að ræða, heldur ályktun vinnufundar fræðslunefndar. Þessi liður færist því aftar í dagskránni og er nú liður 19.


Þá var gengið til dagskrár.
1. Ákvörðun um niðurfellingu sveitarstjórnarfundar í júlí
Umræða spannst um stöðu mála í samfélaginu og hvort það kallaði á fund í júlí. Hægt væri að halda vinnufundi. Sveitarstjórn samþykkir að fella niður hefðbundinn sveitarstjórnarfund í júlí. Jón Jónsson greiðir atkvæði á móti.


2. Hólmadrangur – nauðasamningar
Sveitarstjóri útskýrði eðli málsins. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að hafa samband við hlutaðeigandi lögmenn. Sveitarstjórn undirstrikar von sína um farsæla lausn í þessu máli og að fyrirtækið haldi áfram starfsemi sinni.


3. Beiðni fyrir hönd Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum um leigu á herbergi
Jón Jónsson víkur af fundi. Sveitarstjórn samþykkir beiðni Rannsóknaseturs HÍ og fagnar nýjum starfsmanni. Jón Jónsson tekur sæti á fundinum að nýju.


4. Umhverfisvottun Vestfjarða (Vestfjarðastofa)
a. Laga- og reglugerðaskrá, útgáfa handbókar 003 2019
b. Framkvæmdaáætlun 2019 2024, Vegna umhverfisvottunar sveitarfélaganna á Vestfjörðum
c. Umhverfisstjórnunarhandbók

Sveitarstjórn ræddi eðli verkefnisins og leggur áherslu á að taka fullan þátt í því.

5. Tillaga Jóns Jónssonar - viðbrögð við fólksfækkun – aðgerðir
Jón Jónsson gerði grein fyrir tillögunni og undirstrikaði mikilvægi þess að bregðast við. Fá önnur mál væru stærri. Jón rifjaði upp fyrri aðgerðir sveitarstjórnar, m.a. umsókn um aðild að Brothættum byggðum 2014, sem var hafnað. Jón rakti alls níu tillögur að aðgerðum, sem hann leggur til. Oddviti tók undir orð Jóns, og sagði frá umræðu við fulltrúa Byggðastofnunar fyrr á árinu um endurnýjun umsóknar í verkefnið.
Sveitarstjórn samþykkti að senda aftur inn formlega umsókn í verkefnið Brothættar byggðar (tillaga 1). Sveitarstjóra er falið að undirbúa umsókn og koma málinu í farveg.
Rætt var um mikilvægi þess að vinna í deiliskipulagi (sbr tillaga 2).
Tillögum (3 og 9) sem fela í sér verulegan kostnað er vísað í fjárhagsáætlanagerð.


Sveitarstjórn samþykkir að setja á laggir vinnuhópa um verkefni 4 og 5 í tillögunum.
Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að óska eftir því að Vestfjarðastofa móti og stýri „Krossgötufundi“ (tillaga 6) á Ströndum. Verkefni 7, gerð rafrænnar íbúahandbókar er lagt til að fela starfsfólki sveitarfélagsins þá vinnu. Einnig að virkja ungt fólk til að þýða og vinna gögn yfir á ensku. Verkefni 8, aukin upplýsingamiðlun og umræða, tengist endurnýjun og uppfærslu heimasíðu sveitarfélagsins og stofnana þess og er vísað til fjárhagsáætlanagerðar.

Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að taka umræðu um verkefnalistann upp að nýju í september. Jón þakkar góð viðbrögð við tillögunum, enda sé „heill og framtíð byggðarlagsins í húfi“.

6. Beiðni um umsögn vegna lausnar lóðarinnar Ingunnarflata á Broddanesi úr landbúnaðarnotkun
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að afla nauðsynlegra gagna og ganga frá staðfestingu sveitarstjórnar um lausn lóðarinnar Ingunnarflata á Broddanesi úr landbúnaðarnotkun. Sérstaklega ber að gæta þess að landanúmer séu rétt.

7. Stofnsamningur Brunavarna Dala, Reykhóla og Strandabyggðar
Fram kom athugasemd um að hafa varastjórn í samningnum og ítrekar sveitarstjórn það. Einnig áréttar sveitarstjórn fyrri athugasemd varðandi kostnaðarskiptingu og leggur áherslu á að kostnaðarskipting miðist við: a) grunnupphæð (kr. 1.000.000.-) og b) hlutfallsgreiðslu. Sveitarstjóra falið að ganga frá samningi með þessum formerkjum.

8. Skipan fulltrúa Sveitarfélagsins Strandabyggðar á aðalfund Sorpsamlags Strandasýslu
Jón Gísli Jónsson, gerði grein fyrir málinu. Sveitarstjórn skipar Jón Gísla Jónsson, sem fulltrúa Strandabyggðar í stjórn Sorpsamlagsins. Varamaður verður Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir. Jafnframt fer sveitarstjórn fram á að ráðist verði í endurskoðun samþykkta og almenns rekstrar og stefnumótunar Sorpsamlagsins á Aðalfundi og felur Jóni Gísla Jónssyni að fylgja því máli eftir gagnvart stjórn.

9. Fundargerðir nefnda
a. Umhverfis- og skipulagsnefnd, 3.6.2019
Formaður gerði grein fyrir fundinum og einstökum málum. Fundarmenn fagna umræðu um gerð göngustígar frá Ósi að vatnstanki. Sveitarstjórn áréttar fullt samráð við landeigendur.
Sveitarstjórn samþykkir fundargerðina. Jón Gísli Jónsson er vanhæfur við ákvörðun liðar 3.
b. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, 6.6.2019
Formaður rakti umræðu á fundinum og gerði grein fyrir einstaka verkefnum, t.d. dagskrá hamingjudaga. Rætt um fyrirkomulag tómstundamála í grunnskólanum.

Sveitarstjórn samþykkir fundargerðina.

c. Fræðslunefnd, 6.6.2019. Sjá athugasemd við fundargerð og lið 19.

10. Forstöðumannaskýrslur
Fundarmenn ræddu mikilvægi forstöðumannaskýrslna og uppbyggingu þeirra og lýsti ánægju sinni með þróunina.

11. Hafnarsamband Íslands, fundargerð 413 – til kynningar
Engar athugasemdir gerðar.

12. Aðgerðaáætlun um orkuskipti í íslenskum höfnum – til kynningar
Sveitarstjóri sagði lauslega frá stöðu mála. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að kanna möguleika á fjármögnun kostnaðar við aðlögun að þessum breytingum.
Engar frekari athugasemdir gerðar.

13. Siglingaráð Íslands – 14. fundur – til kynningar
Engar athugasemdir gerðar.

14. Fundargerð 122. fundar í Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis – til kynningar
Engar athugasemdir gerðar.

15. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarðasvæðis, Ársskýrsla 2018 – til kynningar
Engar athugasemdir gerðar.

16. Fundargerð 871. fundar, stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – til kynningar
Engar athugasemdir gerðar.

17. Samband íslenskra sveitarfélaga - Samstarfsvettvangur sveitarfélaganna fyrir heimsmarkmiðin og loftslagsmál – til kynningar
Lagt er til að Umhverfis- og skipulagsnefnd takið málið til skoðunar og að fulltrúi nefndarinar taki þátt í kynningarfundi nú í júní. Engar frekari athugasemdir gerðar.

18. Þinggerð 64. Fjórðungsþings Vestfirðinga til kynningar
Oddviti ræddi dagsetningar fyrir haustþing, sem haldið verður á Hólmavík. Engar frekari athugasemdir.

19. Ályktun frá vinnufundi Fræðslunefndar
Formaður sagði frá vinnufundinum og ræddi sérstaklega hugsanlega sameiningu leik- og grunnskóla. Misskilnings virðist gæta varðandi umfang sameiningar strax í byrjun. Í raun er sameiningarferlið talið geta tekið allt að tvö ár og verður að vinnast með hagsmuni beggja skóla í huga. Margt er óljóst, t.d. samkeyrsla ólíkra kjarasamninga. Byrjað verður á sameiningu sérkennslu, haustið 2019. Mikilvægt er einnig að öll skref verði þannig að hægt sé að snúa til baka, gerist þess þörf.

Fundarmenn ræddu tillöguna og framkvæmd hennar og veltu fyrir sér tímaramma verkefnisins og einstaka vörður.

Oddviti sagði frá afstöðu Tröppu til verkefnisins, sem gerir ráð fyrir tveggja ára ferli við sameininguna.

Sveitarstjórn samþykkir að sameina leik-, grunn- og tónskóla í Strandabyggð og ítrekar mikilvægi þess að vinna með öllum hagsmunaaðilum að málinu.

Fundargerð lesin yfir, og ekki fleira tekið fyrir. Fundi slitið kl. 19.40

Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ingibjörg Benediktsdóttir
Jón Gísli Jónsson
Jón Jónsson.

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón