Golfmót á Hamingjudögum
Hamingjumót GHÓ 2019 Verður haldið á Skeljavíkurvelli laugardaginn 29. júní og hefst kl. 9.00. Nánari upplýsingar á golf.is
27.júní fimmtudagur
kl. 13:00 – 17:00 Hamingjunámskeið, Náttúrubarnaskóli
kl. 21:00 Tónleikar Heiðu Ólafsdóttur í Bragganum
28.júní föstudagur
Kl. 16:00 – 20:00 Veltibíllinn á plani við félagsheimilið
Kl. 17:00 – 19:00 Sýning á Harley D. mótorhjólum
Kl. 17:00 Setning Hamingjudaga og menningarverðlaunin afhent í Hnyðju
Kl. 19:30 – 21:00 Brekkusöngur við minnismerkið
Kl. 21:00 Búkalú, sýning fyrir 18+, Margrétar Erlu Maack
29.júní laugardagur
Kl. 8:00 – 15:45 Hamingjuhlaup, byrjað er að hlaupa frá Árnesi og endað á Skeiði
Kl. 9:00 Hamingjumót GHÓ á Skeljavíkurvelli
Kl. 10:30 – 12:00 Froðubraut
Kl. 13:00 Skrúðganga úr hverfum, Hverfastjórar leiða gönguna með söng.
Kl. 13:00 – 16:00 Leiktæki, á Galdratúninu
Kl. 13:00 – 17:00 Markaður í Hnyðju.
Kl. 13:00 – 17:00 Blaðrarinn, á Galdratúninu
Kl. 14:00 – 15:00 Útileikir fyrir alla, á Galdratúninu
Kl. 15:45 – 17:00 Tertuhlaðborð á Galdratúninu
Kl. 16:25 – 16:40 Hljómsveitin Strandabandið tekur nokkur lög á Galdratúninu.
Kl. 17:00 – 18:00 Leikhópurinn Lotta, Litlu Hafmeyjuna, í Kirkjuhvamminum
Kl. 19:00 – 21:00 Sundlaugarpartý í sundlaug Hólmavíkur
Kl. 23:00 – 03:00 Hamingjuball, Hljómsveitin Allt í Einu leikur fyrir dansi í félagsheimilinu fram á rauða nótt.
30.júní sunnudagur
kl. 11:00 Útimessa
kl. 13:00 Furðuleikar í Sævangi
Þetta eru drög að dagskrá og eitthvað á nú eftir að bætast við.
Það er komið að því. Þrettánda sumarið í röð leggur Leikhópurinn Lotta land undir fót og ferðast með glænýja fjölskyldusýningu um landið þvert og endilangt.
Í sumar er það Litla hafmeyjan sem syndir um landið og gleður landsmenn á öllum aldri með ævintýrum sínum.
Sagan um Litlu hafmeyjuna gerist inni í Ævintýraskóginum eins og Lottu er von og visa en eðli málsins samkvæmt höldum við okkur ekki bara inni í skóginum heldur dýfum okkur á bólakaf í sjóinn sem umlykur hann. Þar kynnumst við hafbúum, þeim Báru, Sævari og Öldu, ásamt ógurlegum kolkrabba sem á gullfiska að gæludýrum. Sagan ber okkur einnig upp á land þar sem þjóðsagan um Hlina kóngsson fléttast skemmtilega saman við Litlu hafmeyjuna. Sögurnar tvær fléttast saman í glænýtt ævintýri þar sem drottning, kóngur og ægileg tröll koma einnig við sögu. Fleira skal ekki gefið upp að sinni enda sjón sögu ríkari.
Höfundur verksins er Anna Bergljót Thorarensen en þetta er níunda verkið sem hún skrifar fyrir hópinn. Hún semur einnig lagatexta ásamt Baldri Ragnarssyni. Í Litlu hafmeyjunni eru samtals 10 glæný og stórskemmtileg lög sem eru samin af fyrrnefndum Birni Thorarensen, Rósu Ásgeirsdóttur og Þórði Gunnari Þorvaldssyni. Það er því óhætt að lofa stuði og stemningu þegar saman fara skemmtileg ævintýri í bland við flotta tónlist. Öllu þessu er síðan haldið saman af höfundinum, sem einnig leikstýrir sýningunni, og danshöfundinum Berglindi Ýr Karlsdóttur sem eykur enn á fjörið með líflegum dönsum.
Sex leikarar halda uppi sýningunni og kannast aðdáendur Lottu vel við þá alla. Þetta eru þau Andrea Ösp Karlsdóttir, Árni Beinteinn, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir og Þórunn Lárusdóttir en þau skipta á milli sín öllum hlutverkum sýningarinnar. Auk þess að skína á sviðinu eru þau ekki síður mikilvæg á bakvið tjöldin en leikhópurinn sér sjálfur um alla leikmuni og leikmynd sýningarinnar.
Litla hafmeyjan er sýning sem er hugsuð fyrir alla aldurshópa og eiga þar fullorðnir jafnt sem börn að geta skemmt sér saman.
Lotta heldur í hefðina og sýnir sýningar sínar utandyra svo það er um að gera að klæða sig eftir veðri, pakka smá nesti og hella vatni í brúsa og halda svo á vit ævintýranna inni í Ævintýraskóginum. Því það styttist í að Litla hafmeyjan syndi einmitt til þín.
Sýningarplanið í heild má finna inná www.leikhopurinnlotta.is
Það er ekkert betra en að byrja Hamingjudagana úti í náttúrunni! Í tilefni þess verður Náttúrubarnaskólinn með sannkölluðu hamingjuþema fimmtudaginn 27. júní á milli klukkan 13-17. Þá ætlum við að reyna að finna hamingjuna í skemmtilegum hamingjuratleik, bruggja sérstakt hamingjuseyði, fara í nokkra skemmtilega leiki og gæða okkur á kökum og góðgæti.
Það kostar 3000 kr. á námskeiðið og skráning er í síma 661-2213, á facebook-síðu Náttúrubarnaskólans eða á netfanginu natturubarnaskoli@gmail.com.
Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar auglýsir eftir tilnefningum til Menningarverðlauna Strandabyggðar árið 2019
Í ár verður Lóan, menningarverðlaun Strandabyggðar, veitt í tíunda skiptið. Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklings, félags, stofnunar, fyrirtækis eða hóps fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar í sveitarfélaginu á liðnu ári. Hefur sú hefð skapast að verðlaunaafhending fari fram við setningu Hamingjudaga.
Ása Ketilsdóttir kvæða- og rímna skáld hlaut heiðursverðlaun og Dagrún Ósk Jónsdóttir, fyrir hönd Náttúrubarnaskólans, hlaut menningarverðlaunin 2018 en fyrri verðlaunahafar eru Sigríður Óladóttir kórstjórnandi, Leikfélag Hólmavíkur, Sauðfjársetrið (tvisvar sinnum), Grunnskólinn á Hólmavík, Þjóðfræðistofa á Ströndum, Einar Hákonarson listamaður og Steinshús við Djúp.
Öflugt lista og menningarstarf er verðmætt öllum samfélögum en ekki síst litlum sveitarfélögum á borð við Strandabyggð og því er dýrmætt að verðlauna það sem vel er gert.
Tilnefningum, ásamt rökstuðningi, má skila á skrifstofu Strandabyggðar eða á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is til kl.16:00 fimmtudaginn 6.júní.
Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd skipar dómnefnd sem velur úr innsendum tillögum.
Það er ekkert betra en að byrja Hamingjudagana úti í náttúrunni! Í tilefni þess verður Náttúrubarnaskólinn með sannkölluðu hamingjuþema fimmtudaginn 27. júní á milli klukkan 13-17. Þá ætlum við að reyna að finna hamingjuna í skemmtilegum hamingjuratleik, bruggja sérstakt hamingjuseyði, fara í nokkra skemmtilega leiki og gæða okkur á kökum og góðgæti.
Það kostar 3000 kr. á námskeiðið og skráning er í síma 661-2213, á facebook-síðu Náttúrubarnaskólans eða á netfanginu natturubarnaskoli@gmail.com.
Hamingjudagar 2019
Hamingjudagar verða haldnir 28. – 30.júní. Ég er að kanna áhuga einstaklinga, fyrirtækja og samtaka hér á svæðinu á þátttöku/sýnileika þessa daga. Í fyrra var t.d. vöfflukaffi í boði fyrir gesti og gangandi hjá Hólmadrangi og gekk það vel.
Ungmennin hér í Strandabyggð hafa komið með hugmyndir og hvatt okkur til að líta til fyrri daga. Þau eiga þá við hverfalitina, hverfagrill, marseringu, markað o.fl.
Vinsamlegast hittið mig í Hnyðju miðvikudaginn 15.maí kl.16-18, sendið mér línu á tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða hringið í síma 4513511/6967046 ef þið viljið taka þátt eða eruð með hugmyndir.
kveðja
Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir
Tómstundarfulltrúi
Búkalú í Bragganum 28. júní
Margrét Maack býður uppáhaldsskemmtikröftunum sínum, íslenskum og erlendum, í þeysireið um landið. Búkalú-hópurinn verður á Hamingjudögum í Bragganum kl. 21:00. Sýningin er bönnuð innan 18 ára. Á þessari sýningu blandast saman burlesque, sirkus, kabarett og spennandi óhuggulegheit í sjóðheitan og spennandi fullorðinskokkteil. Sýningin hentar ekki þeim sem eru hræddir við undur mannslíkamans. Braggabarinn verður opinn. Miðasalan hefst í apríl og er takmarkað sætaframboð.