A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Tómstunda-, íţrótta- og menningarnefnd - 8. október 2012

Fundur var haldinn Tómstunda- íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar mánudaginn 8. október kl. 17:00 í Hnyðju að Höfðagötu 3 á Hólmavík. Mætt voru Ásta Þórisdóttir formaður, Salbjörg Engilbertsdóttir, Þorsteinn Paul Newton varamaður og Aðalbjörg Guðbrandsdóttir varamaður. Júlíus Freyr Jónsson boðaði ekki forföll. Arnar Jónsson tómstundafulltrúi ritaði fundargerð.


Á dagskrá fundarins var eftirfarandi:

1. Skýrsla um Seeds-verkefni sumarið 2012

Lögð var fram til kynningar skýrsla eftir Lýð Jónsson um verkefni Seeds hóps sem var við störf í Strandabyggð sjö daga í sumar. Hópurinn samanstóð af sex ungmennum víða að úr heiminum. Þau unnu við fegrun sveitarfélagsins, rifu niður girðingar í nágrenni Hólmavíkur, löguðu göngustíga, brýr o.fl.
Nefndin lýsir yfir ánægju sinni með verkefnið og þakkar Lýði Jónssyni fyrir sérstaklega óeigingjarnt sjálfboðastarf í þágu verkefnisins.


2. Skipan í Ungmennaráð Strandabyggðar

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti í maí reglugerð um Ungmennaráð Strandabyggðar. Í samþykktinni kemur fram að TÍM-nefnd eigi að leggja fram tillögu til sveitarstjórnar um skipan fulltrúa á hverju ári fyrir 1. september. Ákveðið var að ræða við Nemendaráð Grunnskólans á Hólmavík um að skipa tvo aðalfulltrúa og tvo til vara. Tómstundafulltrúa í samstarfi við formann tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar falið að finna þrjá aðalfulltrúa í viðbót og þrjá til vara.


3. Skýrsla um íbúafund um tómstundir í Strandabyggð

Lögð var fram skýrsla tómstundafulltrúa varðandi umræðu á íbúafundi um tómstundir í Strandabyggð sem haldinn var í maí. Skýrslan hefur áður verið lögð fyrir sveitarstjórn til kynningar. Talsverð umræða fór fram um efni skýrslunnar. Rætt var um upplýsingagjöf, en ráða má af skýrslunni að henni sé víða ábótavant.

Rætt var um mikilvægi þess að gefa út íbúahandbók Strandabyggðar. Nefndin leggur til að í tengslum við hana verði komið á fót undirsíðu á vef Strandabyggðar til að koma á framfæri menningu og félagastarfsemi í sveitarfélaginu.

Samþykkt að fela tómstundafulltrúa að senda skýrsluna út til þeirra aðila, félaga og stofnana sem nefndir eru í henni þeim til upplýsingar. Formanni TÍM-nefndar og tómstundafulltrúa einnig falið að vinna með efni skýrslunnar þannig að hægt sé að taka afmarkaða þætti hennar fyrir á næsta nefndarfundi.


4. Hamingjudagar, dagsetning 2013

Tekin var fyrir tillaga tómstundafulltrúa um að Hamingjudagar verði haldnir helgina 28.-30. júní árið 2013. Tillagan samþykkt.


5. BSI-úttekt á leiksvæðum í Strandabyggð

Lagðar voru fram úttektarskýrslur frá BSI á Íslandi vegna leiksvæða í Strandabyggð, en útttektin var gerð í septemberbyrjun. Einnig var lagt fram minnisblað frá tómstundafulltrúa sem sýnir jákvæða þróun í málefnum leiksvæða undanfarin tvö ár, en fjölda athugasemda vegna bágborins ástands leiktækja hefur fækkað á öllum leiksvæðum í sveitarfélaginu.

Nefndin vill hrósa Áhaldahúsi Strandabyggðar fyrir vel unnin störf í viðhaldi leiktækja og leiksvæða.


6. Önnur mál

TÍM-nefndin vill þakka Ingibjörgu Benediktsdóttur og öðrum aðstandendum heilsueflingar í Strandabyggð fyrir frábært átak sem hefur vakið mikla athygli og hvatt fólk til aukinnar hreyfingar.


Fundi slitið kl. 19:30.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón