A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitastjórn 16. des. 2008

 

Ár 2008 þriðjudaginn 16. desember var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Rúna Stína Ásgrímsdóttir varaoddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hennar sátu fundinn, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson, Jón Stefánsson og Ásta Þórisdóttir varamaður. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Varaoddviti kynnti dagskrá fundarins í  9 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

 • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
 • 2. Beiðni um fjárstuðning við Snorraverkefnið sumarið 2009.
 • 3. Beiðni um styrk vegna samastarfsverkefnisins „Bændur græða landið".
 • 4. Kynning á starfsemi og verkefnum Yrkjusjóðs.
 • 5. Beiðni um fjárstyrk fyrir Stígamót.
 • 6. Erindi frá þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem send voru ráðuneytum eftir árlegan haustfund með sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum.
 • 7. Fundargerð samráðsnefndar á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga.
 • 8. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga ásamt afriti af bréfi til samgönguráðherra vegna framlengingar útboðstíma vegna háhraðanets.
 • 9. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 15. desember 2008.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

 1. Skýrsla sveitarstjóra. Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá því að ríkið ætlar, samkvæmt fjárlögum 2009, að leggja til einn milljarð í aukaframlag til sveitarfélaganna.  Þá er einnig greint frá heimild til hækkunar útsvars úr 13,03% í 13,28% en samkvæmt lögum um Jöfnunarsjóð verða sveitarfélög að nýta sér hámarkið til að fá aukaframlag frá sjóðnum.  Samþykkt var samhljóða að hækka útsvarsprósentuna í 13,28%.  Í því samhengi er lögð til samþykktar eftirfarandi bókun af varaoddvita: 

 

„Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 verði miðað við að ekki verði lögð niður þjónusta eða stofnanir á vegum sveitarfélagsins, þótt leitast verði við að finna leiðir til að hagræða og minnka kostnað.  Í vinnslu eru tillögur frá millistjórnendum um hagræðingu og aðhald í rekstri og verður farið yfir þær með það fyrir augum að lækka rekstrarkostnað.

 

Sveitarstjórn samþykkir að leggja sitt af mörkum við að halda uppi atvinnustigi á svæðinu og hafa jákvæð áhrif á mannlíf og byggðaþróun.  Við framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins verði horft til þess hvar þörfin er brýnust og leitast við að ráðast í verkefni sem skila sveitarfélaginu ávinningi til langs tíma litið.  Sérstaklega verði horft til verkefna sem geta stuðlað að atvinnusköpun í sveitarfélaginu og er þar m.a. horft til samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.  Einnig leitast við að skapa atvinnulífinu aðstæður til að vaxa og dafna.

 

Lögð verði áhersla á umhverfisverkefni á árinu 2009 og framkvæmdum á skólalóð haldið áfram, auk annarra verkefna.  Þá samþykkir sveitarstjórn að áfram verði unnið að aðalskipulagi og deiliskipulagi þar sem þörf krefur.  Auk þess verði áhersla lögð á undirbúning fyrir unglingalandsmót 2010 og vinnu við fjármögnun þess verkefnis.  Undirbúið verði útboð vegna gatnaframkvæmda og unnið að viðhaldi á eigum sveitarfélagsins.  Haldið verði áfram framkvæmdum við vatnsveitu."  Bókunin var borin undir atkvæði og var hún samþykkt með þremur atkvæðum en tveir greiddu atkvæði á móti.  Vildi minnihluti sveitarstjórnar láta bóka eftirfarandi:  „Minnihluti sveitarstjórnar telur að bókun meirihlutans sé mjög óábyrg og gefi væntingar umfram getu.  Ekki er sýnt fram á raunhæfa fjármögnun fyrir þeim framkvæmdum sem verið er að samþykkja að fara í."

 

Þá er greint frá því að Veiðifélag Víðidalsár greiðir eina millj. kr. í arð en á siðasta ári nam arðgreiðslan 850 þús. kr. sem nýtt var til kaupa á stólum og borðum.  Samþykkt var að fresta ráðstöfun fjársins með þremur atkvæðum en tveir greiddu atkvæði gegn tillögunni.

 

 • 2. Beiðni um fjárstuðning við Snorraverkefnið sumarið 2009. Borist hefur erindi dags. 25. nóvember 2008 frá verkefnisstjóra Snorraverkefnisins þar sem beðið er um fjárstyrk til stuðnings verkefnisins. Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu.
 • 3. Beiðni um styrk vegna samastarfsverkefnisins „Bændur græða landið". Borist hefur erindi frá Landgræðslunni dags. 24. nóvember 2008 þar sem farið er þess á leit að verkefnið „Bændur græða landið" verði styrkt um 22.500 kr. Samþykkt var með þremur atkvæðum að styrkja verkefnið en tveir greiddu atkvæði á móti.
 • 4. Kynning á starfsemi og verkefnum Yrkjusjóðs. Borist hefur erindi frá Yrkjusjóði þar sem starfsemi sjóðsins og verkefni honum tengd eru kynnt. Lagt fram til kynningar.
 • 5. Beiðni um fjárstyrk fyrir Stígamót. Borist hefur erindi dags. 28. nóvember 2008 frá Stígamótum ásamt fjárhagsáætlun 2009 þar sem beðið er um fjárstuðning við starfsemina. Samþykkt var að styrkja Stígamót með 15 þús. kr. framlagi með þremur greiddum atkvæðum en tveir sátu hjá.
 • 6. Erindi frá þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem send voru ráðuneytum eftir árlegan haustfund með sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum. Borist hefur erindi frá Sturlu Böðvarssyni 1. þingmanni Norðvestusrkjördæmis fyrir hönd þingmanna kjördæmisins sem send voru til ráðuneyta eftir haustfund með sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum. Lagt fram til kynningar.
 • 7. Fundargerð samráðsnefndar á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga. Lagðar eru fyrir fundargerðir samráðsnefndar vegna efnahagsvandans. Lagt fram til kynningar.
 • 8. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga ásamt afriti af bréfi til samgönguráðherra vegna framlengingar útboðstíma vegna háhraðanets. Borist hefur erindi dags. 8. desember 2008 frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga ásamt fundargerð og afriti af bréfi til samgönguráðherra vegna framlengingar útboðstíma vegna háhraðanets. Sveitarstjórn styður heilshugar kröfu sambandsins um að hætt verði við framlengingu gildistíma tilboða í háhraðaútboði Fjarskiptasjóðs og felur sveitarstjóra að senda ráðherra áskorun þess efnis.
 • 9. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 15. desember 2008. Lögð er fram til samþykktar fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 15. desember 2008. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 18:30.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón