A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1324 í Strandabyggð 12.10.2021

Sveitarstjórnarfundur nr. 1324 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 12. október 2021 í Hnyðju, Höfðagötu 3, og hófst kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Jón Gísli Jónsson oddviti, Ásta Þórisdóttir, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Pétur Matthíasson og Jón Jónsson sem jafnframt ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:


1. RR Ráðgjöf, niðurstöður valkostagreiningar frá íbúafundi 5. október
2. Fjárhagsáætlun Brunavarna Dala, Strandabyggðar og Reykhólahrepps v. 2022
3. Úttekt HMS á starfsemi slökkviliðs Strandabyggðar
4. Kvenfélagið Glæður, ósk um umsjón með gróðurreitum í Klifi
5. Erindi frá sóknarnefnd Hólmavíkursóknar varðandi greiðsluþátttöku í girðingu umhverfis Staðarkirkjugarð
6. Umsókn frá Cycling Westfjords varðandi umferðarmerkingar í Strandabyggð
7. Erindi frá Reykhólahreppi um nýtingu mengunarvarnarbúnaðar og ósk um samning
8. Erindi frá Lögreglustjóraembættinu varðandi sameiginlega almannavarnarnefnd Stranda og Reykhóla
9. Starfslok sveitarstjóra Strandabyggðar
10. Fundargerð Tómstunda, íþrótta- og menningarmálanefndar frá 4. október 2021
11. Fundargerð Ungmennaráðs frá 6. október 2021
12. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 6. október 2021
13. Fundargerð BDSR frá 22. september 2021
14. Forstöðumannaskýrslur september 2021
15. Reglur frá Sveitarstjórnar- og samgönguráðuneyti varðandi rafrænar fundargerðir og undirritun
16. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi Húsnæðissjálfseignastofnun á landsbyggðinni
17. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um stöðu jafnlaunavottunar
18. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
19. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um samstarf í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga 2022
20. Hafnarsamband sveitarfélaga fundargerð nr. 437


Oddviti bauð fundarmenn hjartanlega velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Ekki voru gerðar athugasemdir.


Þá var gengið til dagskrár:

 

1. RR Ráðgjöf, niðurstöður valkostagreiningar frá íbúafundi 5. október.
Lagðar fram niðurstöður valkostagreiningar varðandi hugsanlega sameiningu Strandabyggðar við önnur sveitarfélög, sem unnin var af RR Ráðgjöf. Niðurstöðurnar voru kynntar á vel sóttum íbúafundi í Strandabyggð 5. október síðastliðinn. Einnig voru lagðar fram niðurstöður könnunar sem gerð var á viðhorfum fundarmanna á íbúafundinum varðandi sameiningarmál. Þar kemur skýrt fram vilji þeirra sem þátt tóku, til sameiningar við nágrannasveitarfélög.

Sveitarstjórn samþykkir að senda þeim sveitarfélögum sem nefnd eru í valkostagreiningunni fyrirliggjandi gögn og fyrirspurn þar sem afstaða þeirra til viðræðna um sameiningu við Strandabyggð er könnuð. Þar er um að ræða Árneshrepp, Kaldrananeshrepp, Reykhólahrepp, Dalabyggð og Húnaþing vestra.

2. Fjárhagsáætlun Brunavarna Dala, Strandabyggðar- og Reykhólahrepps v. 2022
Lögð fram fjárhagsáætlun Brunavarna Dala, Strandabyggðar og Reykhólahrepp vegna ársins 2022. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði 26.321.000.- Sveitarstjórn samþykkir áætlunina samhljóða.

3. Úttekt HMS á starfsemi slökkviliðs Strandabyggðar
Lögð fram úttekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á starfsemi slökkviliðs Strandabyggðar og bréf dags. 7. október 2021. Gerðar eru ýmsar tillögur um úrbætur í úttektinni. Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að bregðast við ábendingum eftir því sem mögulegt er og vill leggja sig fram um að uppfylla skilyrði sem sett eru.
Um leið vill sveitarstjórn koma þeirri skoðun á framfæri að kröfur sem gerðar eru til lítilla slökkviliða í fámennum sveitarfélögum á landsbyggðinni, séu sumar hverjar svo íþyngjandi fjárhagslega, að útilokað sé fyrir sveitarfélögin að fjármagna rekstur slökkviliða í samræmi við þær.

4. Kvenfélagið Glæður, ósk um umsjón með gróðurreitum í Klifi
Tekið er fyrir erindi frá Kvenfélaginu Glæður, dags. 2. okt. 2021, undirritað af Ragnheiði Ingimundardóttur formanni félagsins. Þar er óskað eftir að kvenfélagið fái leyfi til að taka að sér umsjón með útisvæði neðan við Klifið á Hólmavík, án endurgjalds frá sveitarfélaginu. Sveitarstjórn fagnar erindinu, samþykkir það og leggur til að gerður verði samningur um verkefnið og afmörkun svæðisins.

5. Erindi frá sóknarnefnd Hólmavíkursóknar varðandi greiðsluþátttöku í girðingu umhverfis Staðarkirkjugarð
Tekið er fyrir erindi frá sóknarnefnd Hólmavíkursóknar dags. 27. september 2021 undirritað af Sólrúnu Jónsdóttur, varðandi greiðsluþátttöku sveitarfélagsins, lögum samkvæmt, sem snýr að efniskostnaði og flutningi á grjóthleðsluefni. Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir þátttöku og mun setja verkefnið á fjárhagsáætlun fyrir árið 2022, í samræmi við áætlun í erindinu að upphæð 2.450.000.-

6. Umsókn frá Cycling Westfjords varðandi umferðarmerkingar í Strandabyggð
Tekið er fyrir erindi frá Cycling Westfjords þar sem spurt er um álit sveitarstjórnar á verkefni um merkingar og áskoranir fyrir hjólreiðafólk við Vestfjarðaleiðina, þar sem stikur og staurar eru merktir með límmiðum. Markmið verkefnisins er að dreifa ferðamönnum um fjórðunginn. Ábyrgðaraðilar verkefnisins hafa sent Vegagerðinni formlega umsókn í tengslum við verkefnið. Sveitarstjórn tekur í jákvætt í erindið fyrir sitt leyti.

7. Erindi frá Reykhólahreppi um nýtingu mengunarvarnarbúnaðar og ósk um samning
Lögð fram drög að samkomulagi milli Reykhólahrepps og Strandabyggðar um að Reykhólahreppur fái leyfi til að nota mengunarvarnarbúnað sem til staðar er á Hólmavík ef á þarf að halda vegna meiriháttar mengunarslyss í Reykhólahöfn. Sveitarstjórn samþykkir erindið samhljóða og felur oddvita að ganga frá samkomulaginu með smávægilegum breytingum.

8. Erindi frá Lögreglustjóraembættinu varðandi sameiginlega almannavarnarnefnd Stranda og Reykhóla
Tekið fyrir erindi frá Lögreglustjóraembættinu á Vestfjörðum með tillögu um að almannavarnanefnd þriggja sveitarfélaga á Ströndum og almannavarnanefnd Reykhólahrepps verði sameinaðar. Sveitarstjórn tekur undir þessa hugmynd og samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti.

9. Starfslok sveitarstjóra Strandabyggðar
Oddviti upplýsir að sveitarfélaginu Strandabyggð hafi borist stefna frá fyrrverandi sveitarstjóra, Þorgeiri Pálssyni. Í henni er farið fram á biðlaun í þrjá mánuði að frádregnum tekjum og miskabætur vegna uppsagnar í apríl síðastliðnum.
Vegna þessa leggur sveitarstjórn fram eftirfarandi bókun:
„Sveitarstjórn vill koma því á framfæri að gengið hefur verið frá starfslokum fyrrverandi sveitarstjóra í fullu samræmi við ráðningarsamning og í takt við ráðleggingar lögfræðinga. Sveitarstjórn telur að kröfurnar eigi ekki rétt á sér og felur því oddvita og lögmönnum sveitarfélagsins að taka til varna í málinu og verja hagsmuni sveitarfélagsins.“
Samþykkt samhljóða.

10. Fundargerð Tómstunda, íþrótta- og menningarmálanefndar frá 4. október 2021
Sveitarstjórn bendir á að fundarmenn eru ekki rétt skráðir í inngangi fundargerðarinnar, en fundinn sátu Jón Gísli Jónsson formaður, Matthías Lýðsson, Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir, Angantýr Ernir Guðmundson og Jóhanna Rósmundsdóttir, ásamt Esther Ösp Valdimarsdóttir tómstundafulltrúa og fulltrúa Ungmennaráðs, Þorsteini Óla Viðarssyni. Eins er gerð athugasemd við að vísað sé í Google docs-skjöl í fundargerðinni, í staðinn fyrir að fylgiskjöl séu lögð fram á fundinum.
Varðandi lið 3b um smíðaaðstöðu í félagsstarfi eldri borgara felur sveitarstjórn formanni nefndarinnar að skoða betur, í samráði við tómstundafulltrúa og þá sem nýta þjónustuna, hvaða möguleikar eru varðandi staðsetningu og hvort notkun á búningsklefa baksviðs í félagsheimilinu samræmist annarri starfsemi í húsinu eða hvort smíðaaðstaða í skólanum henti betur.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti og tillögur verða teknar til nánari skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar.

11. Fundargerð Ungmennaráðs frá 6. október 2021
Lögð fram fundargerð Ungmennaráðs Strandabyggðar frá 6. okt. 2021. Sveitarstjórn þakkar fyrir fundargerðina. Ekki gafst tími til að fara yfir fylgigögn sem bárust seint og sveitarstjórn þarf svigrúm til að skoða tillögur í þeim. Stefnt er því að halda samráðsfund Ungmennaráðs og sveitarstjórnar, eftir að nýtt ráð hefur verið kosið 2. nóvember næstkomandi.

12. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 6. október 2021
Lögð fram fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 6. október 2021. Varðandi lið 1 er niðurstaða nefndarinnar samþykkt og bent á kröfu Minjastofnunar um fornleifaskráningu. Varðandi lið 2, 3, 6a og 6b samþykkir sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar samhljóða.
Varðandi lið 4 víkur Ásta Þórisdóttir af fundi og sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu nefndarinnar. Ásta kemur aftur á fundinn.
Varðandi lið 5 víkur Jón Gísli Jónsson af fundi. Sveitarstjórn samþykkir niðurstöðu nefndarinnar, en bendir á að um er að ræða uppmælingu lóðarinnar en ekki umsókn um stækkun. Jón Gísli kemur til baka á fundinn.
Fundagerð nefndarinnar samþykkt að öðru leyti.

13. Fundargerð BDSR frá 22. september 2021
Lögð fram fundargerð frá fundi Brunavarna Dala, Strandabyggðar og Reykhólahrepps 22. sept. 2021. Sveitarstjórn telur afar nauðsynlegt að brunavarnaáætlun sem kláruð sem fyrst og eldvarnaeftirliti í sveitarfélaginu verði sinnt af krafti. Verkefni hafa dregist um of, en umbætur á þessu sviði voru hluti af forsendum fyrir þátttöku Strandabyggðar í samstarfinu. Sveitarstjórn samþykkir fundargerðina.

14. Forstöðumannaskýrslur september 2021
Forstöðumannaskýrslur lagðar fram til kynningar. Sveitarstjórn þakkar fyrir skýrslurnar.

15. Reglur frá Sveitarstjórnar- og samgönguráðuneyti varðandi rafrænar fundargerðir og undrritun
Reglur lagðar fram til kynningar.

16. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi Húsnæðissjálfseignastofnun á landsbyggðinni
Lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn lýsir ánægju með tillöguna.

17. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um stöðu jafnlaunavottunar
Lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn stefnir að því að vinna að og fá jafnlaunavottun fyrir sveitarfélagið, eins og fljótt og verða má.

18. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Lagt fram til kynningar.

19. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um samstarf í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga 2022
Lagt fram til kynningar.

20. Hafnarsamband sveitarfélaga fundargerð nr. 437
Lögð fram til kynningar.

Fundargerðin yfirfarin og samþykkt.


Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:41.

Jón Gísli Jónsson
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ásta Þórisdóttir
Pétur Matthíasson
Jón Jónsson

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón