A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1308 í Strandabyggđ, 11.08.20

 

Sveitarstjórnarfundur 1308 í Strandabyggð

Fundur nr.  1308 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 11. ágúst 2020 í Hnyðju, Höfðagötu 3. Fundurinn hófst kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn:  Jón Gísli Jónsson, Ásta Þórisdóttir, Eiríkur Valdimarsson (í síma), Pétur Matthíasson og Jón Jónsson. Þorgeir Pálsson ritaði fundargerð.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

 1. Starfsmannamál – TRÚNAÐARMÁL
 2. Hitaveita í Strandabyggð – TRÚNAÐARMÁL
 3. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 10.08.20
 4. Breytingar í sveitarstjórn
 5. Breytingar á nefndarskipan
 6. Niðurskurður á framlögum Jöfnunarsjóðs 2020
 7. Val á samstarfsaðila vegna Aðalskipulagsgerðar.

 

Þá var gengið til dagskrár.  Oddviti setti fundinn kl. 16.04 og bauð fundarmenn velkomna.

 

 1. Starfsmannamál – TRÚNAÐARMÁL

Mál undir þessum lið færð í trúnaðarbók.

 

 1. Hitaveita í Strandabyggð – TRÚNAÐARMÁL

Mál undir þessum lið færð í trúnaðarbók.

 

 1. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 10.08.20

Oddviti rakti efni fundarins.  Jón Jónsson vék af fundi undir umræðu um lið 1.  Sveitarstjórn fagnaði verkefninu.  Jón Jónsson tók sæti á fundinum að nýju.

 

Varðandi lið 2 í fundargerð, samþykkir sveitarstjórn erindið, en felur byggingarfulltrúa að afla gagna um fasteignanúmer viðkomandi eigna og að fá skriflegt leyfi eigenda aðliggjandi húsa, áður en leyfi til niðurrifs er veitt.

 

Bent var á að nafn Hafdísar Sturlaugsdóttur í upptalningu í fundargerð vantaði.  Beðist er velvirðingar á því.

 

Sveitarstjórn samþykkir að öðru leyti fundargerðina.

 

 1. Breytingar í sveitarstjórn

Sveitarstjóri  lagði fram tilkynningu frá Aðalbjörgu Signýju Sigurvaldadóttur, þar sem hún segir sig frá störfum fyrir sveitarfélagið vegna brottflutnings.  Hún óskar eftir að eftirfarandi bókun verði gerð: 

 

"Ég, Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir, segi mig frá störfum fyrir hönd Strandabyggðar frá og með 11.ágúst 2020. Ástæða er brottflutningur úr sveitarfélaginu. Ég vil koma á framfæri þakklæti til íbùa í Strandabyggð fyrir góða samveru og óska ykkur öllum velfarnaðar. Takk fyrir mig."  Sveitarstjórn þakkar Aðalbjörgu Signýju fyrir samstarfið og óskar henni velfarnaðar.

 

Oddviti lagði til að Guðfinna Lára Hávarðardóttir verði kosinn varaoddviti. Sveitarstjórn samþykkti tillöguna.

 

Sveitarstjóra er falið að tilkynna breytingar til allra hlutaðaeigandi.

 

 1. Breytingar á nefndarskipan

Oddviti lagði til eftirfarandi breytingar:

 • Jón Gísli Jónsson taki sæti formanns Umhverfis- og skipulagsnefndar, og hætti þar með í Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd.

Sveitarstjórn samþykkti tillöguna samhljóða.

 • Jón Jónsson taki sæti sem aðalmaður í Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd.

Sveitarstjórn samþykkti tillöguna með fjórum atkvæðum.  Jón Jónsson sat hjá.

 

Sveitarstjóra falið að klára yfirlit yfir setu sveitarstjórnarmanna í nefndum og vinnuhópum fyrir næsta fund.

 

 1. Niðurskurður á framlögum Jöfnunarsjóðs 2020

Oddviti rakti stöðuna.  Ljóst að veruleg skerðing verður á framlögum Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins.  Fram kom að gera þurfi úttekt á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og framtíðarhorfum, sem nota mætti til að meta stöðu og rekstrarhorfur.  Mikilvægt væri í þeirri vinnu að tryggja að sveitarfélagið haldi sínum sérkennum og sérstöðu.  Yrði þessi greining að vinnast fljótlega.  Sveitarstjórn á fund með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þann 12. ágúst og verða þar rædd hugsanleg úrræði og aðgerðir, auk þess sem skerðingunni verður mótmælt.

 

Fram kom að hugsanlega standi sveitarfélagið og sveitarfélög almennt á þeim tímamótum að tekjustofnar breytist og skerðist til langtíma og að sú staða sem nú blasi við sé ekki tímabundin.  Kalli sú staða hugsanlega á endurmat þjónustustigs og samfélagsgerðar.

 

 1. Val á samstarfsaðila vegna aðalskipulagsgerðar.

Rætt var um þá vinnu sem vinnuhópur hafði unnið og skilað af sér, en þar var rætt við tvo hugsanlega verktaka.  Sveitarstjórn samþykkti tillögu vinnuhóps að ganga til samninga við Landmótun. 

 

Skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra er falið að ganga frá samkomulagi.

 

 

Fundargerð lesin yfir og ekki fleira tekið fyrir.  Fundi slitið kl. 17.38.

 

Ásta Þórisdóttir

Eiríkur Valdimarsson

Jón Gísli Jónsson

Jón Jónsson

Pétur Matthíasson

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón