A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1291 í Strandabyggð 13.8.19

Sveitarstjórnarfundur 1291 í Strandabyggð

Fundur nr.  1291 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 13. ágúst 2019 í Hnyðju, Höfðagötu 3. Fundurinn hófst kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn:  Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, að hluta, Jón Gísli Jónsson, Jón Jónsson og Ásta Þórisdóttir, að hluta. Fundarritari Þorgeir Pálsson.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Beiðni Péturs Matthíassonar um lausn frá störfum vegna veikinda
  2. Erindi Jóns Jónssonar – Innstrandarvegur
  3. Erindi Jóns Jónssonar - Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa; tillögur um samstarf við Strandabyggð
  4. Forstöðumannaskýrslur
  5. Lánasjóður Sveitarfélaga - trúnaðarmál
  6. Niðurstaða nafnasamkeppni fyrir Íþróttamiðstöðina
  7. Fundargerð stjórnar Sambands Íslenskra Sveitarfélaga – 872, til kynningar
  8. Yfirlýsing um samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna, til kynningar
  9. Verkalýðsfélag Vestfirðinga – áskorun til sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum, erindi frá 9. júlí 2019
  10. Álagsprósentur fasteignaskatts – bréf frá Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga frá 26. júní 2019
  11. Auglýsing Reykhólahrepps vegna aðalskipulags – bréf frá 20. júní 2019
  12. Jafnlaunavottun – bréf Sambands Íslenskra Sveitarfélaga frá 15. júlí 2019
  13. Fundargerðir Vestfjarðastofu - fundir 12, 13, 14 og 15, til kynningar
  14. Boðun XXXIV. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga – bréf Sambands Íslenskra Sveitarfélaga frá 15. júní 2019
  15. Starfsendurhæfing Vestfjarða - fundargerð, ársreikningur og ársskýrsla 2018, til kynningar
  16. Önnur mál
    1. Beiðni Ingibjargar Benediktsdóttur um lausn frá störfum vegna búferlaflutnings
    2. Beiðni Ástu Þórisdóttur um afturköllun á beiðni um leyfi frá störfum í 12 mánuði frá 9. apríl 2019
    3. Kosning oddvita
    4. Breytingar á nefndarskipan.

 

Oddviti setti fundinn kl 16:03.

Oddviti boðar afbrigði varðandi bréf frá Andreu Kristínu Jónsdóttur, dagsett 10. júlí 2019, og er erindið tekið fyrir í lið 16.  Aðrir liðir færast aftur sem þessu nemur.


1. Beiðni Péturs Matthíassonar um lausn frá störfum vegna veikinda

Sveitarstjórn samþykkir að veita Pétri leyfi um óákveðinn tíma og óskar honum góðs bata.


2. Erindi Jóns Jónssonar – Innstrandavegur

Jón Jónsson gerði grein fyrir erindi sínu.  Sveitarstjóri rakti þau samskipti sem rædd hafa verið að undanförnu milli sveitarstjóra og Vegagerðarinnar og má þar nefna:

  • Vegrið í Kollafirði og Bitrufirði
  • Umferðartalning á Innstrandavegi og endurmat á þjónustuþörf
  • Frágangur vegkafla frá Heydalsá að Þorpum
  • Fækkum á einbreiðum brúm.

 Sveitarstjórn leggur áherslu á mikilvægi þessara mála og að ábyrgð þessara mála liggi víða, enda sé hér um að ræða vinnusóknarsvæði Hólmavíkur,  þar sem að auki á sér stað daglegur skólaakstur yfir vetrartímann. 

 

Þá er merkjanleg veruleg aukning ferðamanna um veginn.  Allt kallar þetta á úrbætur sem búið er að kalla eftir í áraraðir.  Sveitarstjórn Strandabyggðar skorar á yfirvöld að klára umræddar úrbætur sem ítrekað hefur verið lofað, sem og að efla rannsóknir á umferðaröryggi á Innstrandavegi.

 

Sveitarstjóra er falið að koma skoðun sveitarstjórnar til hlutaðeigandi yfirvalda, þingmanna og framkvæmdaaðila.

 

3. Erindi Jóns Jónssonar - Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa; tillögur um samstarf við Strandabyggð

 

Jón Jónsson víkur af fundi.  Sveitarstjórn er sammála um mikilvægi þessara verkefna sem eru:

  • Uppbygging héraðsskjalasafns
  • Verndarsvæði í byggð á Hólmavík – umsókn til Húsafriðunarsjóðs
  • Gerð húsakönnunar í dreifbýli - umsókn til Húsafriðunarsjóðs
  • Fornleifaskráning fyrir svæðið. Þetta verkefni tengist gerð aðalskipulags og ber að vinna
  • Skráning örnefna á jörðum og landi.

 Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að óska eftir nánari upplýsingum varðandi umfang og kostnað þessara verkefna ásamt Rannsóknarsetri Háskóla Íslands.  Jón Jónsson tekur sæti á fundinum að nýju.

 

4. Forstöðumannaskýrslur

Sveitarstjóri gerði grein fyrir starfsemi einstakra sviða. Sveitarstjórn ítrekar mikilvægi þess að forstöðumannaskýrslum sé skilað.

 

5. Lánasjóður Sveitarfélaga – trúnaðarmál

Vegna mistaka var þessi liður merktur trúnaðarmál.  Sveitarstjórn ræddi lánaheimildir, skuldastöðu og stöðu verkefna.  Sveitarstjóra falið, í samráði við skrifstofustjóra og viðeigandi forstöðumenn, að flýta stöðugreiningu verkefna m.t.t. fjárhagsáætlunar.

 

6. Niðurstaða nafnasamkeppni fyrir Íþróttamiðstöðina

Tómstunda- og íþróttafulltrúi gerði grein fyrir þeim nöfnum sem komu fram. Sveitarstjórn vill framlengja verkefnið og er Tómstunda- og íþróttafulltrúa falið að leita eftir fleiri tillögum.

 

7. Fundargerð stjórnar Sambands Íslenskra Sveitarfélaga – 872, til kynningar

Lögð fram til kynningar.

 
8. Yfirlýsing um samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna, til kynningar

Sveitarstjórn fagnar yfirlýsingunni og telur brýnt að ríki og sveitarfélög grípi nú þegar til markvissra og samstilltra aðgerða til að mæta áskorunum samtímans á sviði loftslagsmála og aðlaga íslenskt samfélag að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga. Einn mikilvægasti liðurinn í því aðkallandi starfi er að íslenskt samfélag verði lagað að kröfum sjálfbærrar þróunar. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt gagnlegan grunn að slíku starfi með heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun.

Strandabyggð lýsir sig tilbúna til þátttöku í samráðsvettvanginum með þátttöku í fundum og viðburðum um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Strandabyggð mun á sínum vettvangi beita sér fyrir markvissum aðgerðum og stefnumótun í átt til aukinnar sjálfbærni og kolefnishlutleysis. Fulltrúar sveitarfélagsins munu einnig, eftir því sem tilefni er til og aðstæður leyfa, taka þátt í miðlun þekkingar, þróun mælinga á árangri og öðru samstarfi sem tengist samráðsvettvanginum.

 

9. Verkalýðsfélag Vestfirðinga – áskorun til sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum, erindi frá 9. júlí 2019

Sveitarstjórn þakkar Verkalýðsfélagi Vestfirðinga fyrir bréfið, en mun fylgja tilmælum samninganefndar, enda fer saminganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga með samningsumboðið fyrir Strandabyggð.  Jafnframt hvetur sveitarstjórn Strandabyggðar samingsaðila til að ná niðurstöðu sem fyrst.

 

10. Álagsprósentur fasteignaskatts – bréf frá Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga frá 26. júní 2019

Lagt fram til kynningar.

 

11. Auglýsing Reykhólahrepps vegna aðalskipulags – bréf frá 20. júní 2019

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við breytinguna.  Sveitarstjóra er falið að tilkynna hlutaðeigandi afstöðu sveitarstjórnar.

 

12. Jafnlaunavottun – bréf Sambands Íslenskra Sveitarfélaga frá 15. júlí 2019

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og skrifstofustjóra að koma málinu í farveg.

 

13. Fundargerðir Vestfjarðastofu - fundir 12, 13, 14 og 15, til kynningar

Sveitarstjórn Strandabyggðar óskar eftir að fá fundargerðir Vestfjarðastofu strax og þær liggja fyrir.  Sveitarstjóra falið að koma þeim skilaboðum til stjórnar Vestfjarðastofu.

 

14. Boðun XXXIV. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga – bréf Sambands Íslenskra Sveitarfélaga frá 15. júní 2019

Lagt fram til kynningar.

 

15. Starfsendurhæfing Vestfjarða - fundargerð, ársreikningur og ársskýrsla 2018, til kynningar

Lagt fram til kynningar.

 

Þorgeir Pálsson víkur af fundi og Ingibjörg Benediktsdóttir tekur við að rita fundargerð.

 

16. Svar við fyrirspurn Andreu Kristínar Jónsdóttur til sveitarstjórnar, frá 10. júlí 2019

Oddviti gerði grein fyrir málinu og spurningum Andreu Kr. Jónsdóttur, fyrrverandi sveitarstjóra Strandabyggðar, um viðhorf og viðbrögð sveitarstjórnar varðandi ráðningarsamband milli sveitarfélagsins og sveitarstjóra hverju sinni í tengslum við fjárhagsmál viðkomandi. Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi svar til Andreu:
Sveitarstjórn hefur ekki aðgang að upplýsingum í vanskilaskrá og gerir því ekki kröfu um að engar skráningar finnist þar. Sveitarstjórn telur hins vegar nauðsynlegt að sveitarstjóri hverju sinni sé fjár síns ráðandi, þ.e. hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota persónulega, og geti verið prókúruhafi sveitarfélagsins. Það hefur engin sérstök áhrif á ráðningarsamband sveitarstjórnar og sveitarstjóra, þótt fyrirtæki í eigu þess aðila sem fer með starf sveitarstjóra hverju sinni sé tekið til gjaldþrotaskipta meðan hann sinnir starfi sveitarstjóra. Almennt séð eru spurningar sem varða viðbrögð við hugsanlegum persónulegum áföllum og fjárhagsstöðu starfsmanna sveitarfélagsins erfiðar viðfangs. Meta þarf aðstæður hverju sinni, ef um slíkt er að ræða.

Þorgeir Pálsson kemur aftur til fundar og tekur við að rita fundargerð.

 

17. Önnur mál


1. Beiðni Ingibjargar Benediktsdóttur um lausn frá störfum vegna búferlaflutnings

Sveitarstjórn samþykkir beiðni Ingibjargar sem tekur þegar gildi.  Sveitarstjórn þakkar Ingibjörgu fyrir hennar störf í þágu sveitarfélagsins og óskar henni og fjölskyldu hennar velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

Ingibjörg Benediktsdóttir yfirgefur fundinn.  Varaoddviti, Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir, tekur við stjórn fundarins.


2. Beiðni Ástu Þórisdóttur um afturköllun á beiðni um leyfi frá störfum í 12 mánuði frá 9. apríl 2019

Sveitarstjórn samþykkir beiðni Ástu sem tekur þegar gildi, fagnar endurkomu hennar og býður hana velkomna til starfa í sveitarstjórn.

 

Ásta Þórisdóttir tekur sæti á fundinum.

 

3. Kosning oddvita

Varaoddviti kannaði hvort einhver gæfi kost á sér í embættið.  Jón Gísli Jónsson býður sig fram sem oddvita.  Aðrir gáfu ekki kost á sér.  Sveitarstjórn samþykkir með þremur atkvæðum kosningu Jóns Gísla sem oddvita.  Guðfinna Lára og Aðalbjörg Signý sitja hjá.  Aðalbjörg Signý tók til máls og undirstrikaði þá skoðun sína að oddviti yrði að vera virkur í málefnum sveitarfélagins útávið, sérstaklega í ljósi umræðu um sameiningar sveitarfélaga.

 

Jón Gísli Jónsson, nýr oddviti, tekur við fundarstjórn.

 

4. Breytingar á nefndarskipan.

Oddviti lagði til eftirfarandi formenn í nefndir:

  • Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir - verði áfram formaður í Umhverfis- og skipulagsnefnd
  • Ásta Þórisdóttir - Velferðarnefnd
  • Guðfinna Lára Hávarðardóttir - Fræðslunefnd
  • Jón Jónsson - Tómstunda- íþrótta og menningarnefnd
  • Jón Gísli Jónsson - Atvinnu-, dreifbýlis og hafnarnefnd.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna.

 

Sveitarstjórn samþykkti jafnframt að oddviti yrði fulltrúi á Landsþingi Sambands Sveitarfélaga og til vara, varaoddviti Aðalbjörg Signý.

 

Sveitarstjóra falið að senda tilkynningu um þessar breytingar fyrir 15. ágúst n.k.

 

Aðalfulltrúi í verkefnaráð Landsnets er kosin Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir. 

 

Fundargerð lesin yfir, og ekki fleira tekið fyrir.  Fundi slitið kl. 18.51.

 

Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir

Ásta Þórisdóttir

Guðfinna Lára Hávarðardóttir

Ingibjörg Benediktsdóttir

Jón Gísli Jónsson

Jón Jónsson.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón