A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn Strandabyggđar 1185 - 1. júlí 2011

 

Fundur nr. 1185 var haldinn í sveitarstjórn Strandabyggðar föstudaginn 1. júlí 2011 á Klifstúni á Hólmavík. Fundurinn hófst kl. 21:30. Oddviti sveitarstjórnar, Jón Gísli Jónsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Einnig sátu fundinn Jón Jónsson varaoddviti, Ásta Þórisdóttir, Bryndís Sveinsdóttir, Katla Kjartansdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð. 

 

Dagskrá fundarins var eftirfarandi:

 

  • 1. Hamingjusamþykkt
  • 2. Götuheiti á Hólmavík
  • 3. Heiðursborgarar Strandabyggðar

 

Þá var gengið til dagskrár:

 

  • 1. Hamingjusamþykkt

 

Hamingjan er eitt af leiðarljósum í áframhaldandi uppbyggingu í Strandabyggð. Lífsgæði íbúa á Ströndum skipta miklu máli og þau þarf að efla með fjölbreyttum ráðum.

 

Ræktum hamingjuna innra með okkur og stuðlum að aukinni gleði og lífsfyllingu hjá okkar nánustu, vinum og samferðamönnum, með orðum okkar og gjörðum. Munum að bros í amstri hversdagsins getur gert kraftaverk, það getur dimmu í dagsljós breytt. Hið sama gildir um hrós og þakklæti fyrir það sem vel er gert. Jákvæð og uppbyggileg hvatning til góðra verka er varða sem vísar veginn í átt að betra samfélagi.

 

Virk þátttaka hvers einstaklings í samfélaginu er keppikefli og miklu skiptir að jákvæðni, virðing og samkennd einkenni mannlíf á Ströndum. Íhugum öll, hvert og eitt okkar, með hvaða hætti við getum lagt okkar af mörkum.

 

Gleðjumst saman, höfum hamingjuna í hávegum. Gerum alla daga að hamingjudögum.

 

Hamingjusamþykkt Strandabyggðar samþykkt samhljóða.

 

  • 2. Götuheiti á Hólmavík

 

Tillaga um að gatan sem félagsheimilið á Hólmavík, íþróttamiðstöðin og tjaldsvæðið standa við sé hér eftir nefnd Jakobínutún. Þetta götuheiti er til heiðurs Jakobínu Thorarensen sem lengi bjó á Hólmavík, litrík kona og sköruleg. Hún og fyrri maður hennar létu reisa Steinhúsið fyrir sléttum 100 árum og var það fyrsta steinsteypta húsið á Hólmavík. Þar rak Jakobína verslun áratugum saman. Þar sem félagsheimilið stendur var áður Jakobínugirðing og Jakobínutún sem kennt var við hana, en landið var gefið undir félagsheimili 1984. Það er því vel viðeigandi að gatan heiti Jakobínutún.

 

 

Tillaga um breytt nafn á götunni sem liggur með sjávarsíðunni, á uppfyllingunni milli smábátabryggju og hafskipabryggju. Þessi gata hefur verið kölluð Fiskislóð, en hér er gerð tillaga um að hún sé hér eftir nefnd Skjaldbökuslóð. Nafnið er til minningar um þann einstaka atburð þegar Einar Hansen og Sigurður sonur hans drógu suðræna risaskjaldböku að landi á Hólmavík þarna í fjörunni haustið 1963. Jafnframt er götunafnið Skjaldbökuslóð valið til heiðurs Einari Hansen sjálfum og til að minna á margvísleg afrek hans og magnaðar sögur af þeim.

 

Tillögur um götuheiti samþykktar samhljóða.

 

  • 3. Heiðursborgarar Strandabyggðar

 

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur ákveðið að útnefna tvo heiðursborgara á Hamingjudögum 2011. Þar er í báðum tilvikum um að ræða hvunndagshetjur sem sett hafa svip á mannlíf og menningu í sveitarfélaginu. Sveitarstjórnarmenn hafa tekið að sér að kynna tillögu um heiðursborgara.  

 

Gerð er tillaga um að Ólafía Jónsdóttir frá Skriðinsenni verði heiðursborgari Strandabyggðar. Ólafía Jónsdóttir fæddist árið 1928 og ólst upp hjá foreldrum sínum á Skriðinsenni í Bitrufirði á Ströndum. Hún tók ljósmæðrapróf árið 1960 og starfaði fyrsta árið sem ljósmóðir á Landspítalanum, en síðan sem ljósmóðir á Ströndum. Ólafía flutti til Hólmavíkur árið 1962 og tók á móti fjölda barna á sjúkrahúsinu á Hólmavík, en þar starfaði hún einnig lengi sem forstöðukona á hjúkrunardeildinni. Ólafía hefur í gegnum tíðina tekið virkan þátt í tónlistarlífi á Ströndum og var um árabil kirkjuorganisti á Hólmavík og víðar í Strandasýslu. Sinnti hún störfum sínum af alúð og natni. 

 

Gerð er tillaga um að Sverrir Guðbrandsson frá Heydalsá verði heiðursborgari Strandabyggðar. Sverrir Guðbrandsson fæddist árið 1921 á Heydalsá í Steingrímsfirði á Ströndum og ólst þar upp. Hann var síðan bóndi á Klúku í Miðdal í 25 ár, en flutti þá með fjölskyldu sinni til Hólmavíkur. Þar starfaði Sverrir lengi sem pakkhúsmaður hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Sverrir og Sigurrós Þórðardóttir kona hans áttu sjö börn og fjölda afkomenda. Á fullorðinsárum ritaði Sverrir æfiminningar sínar og komu þær út í bókinni Ekkert að frétta ... sem Vestfirska forlagið gaf út árið 2004. Bókin er sannkallaður gullmoli, jafnt fyrir afkomendur Sverris og aðra Strandamenn. Hún einkennist af persónulegri frásögn og hlýju. Gamansemi fær að njóta sín um leið og brugðið er upp ómetanlegum svipmyndum af mannlífi á Ströndum á 20. öldinni.

 

Samþykkt samhljóða.

 

 

Fundi frestað.

 

Jón Gísli Jónsson
Jón Jónsson
Ásta Þórisdóttir
Bryndís Sveinsdóttir
Katla Kjartansdóttir

 

Þriðjudaginn 9. águst 2011 var fundi nr. 1185 fram haldið.

 

Fundargerð lesin upp og samþykkt samhljóða.

 

Fundi slitið kl. 17:00.

 

Jón Gísli Jónsson
Jón Jónsson
Ásta Þórisdóttir
Bryndís Sveinsdóttir
Viðar Guðmundsson

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón