A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn Strandabyggðar 1182 - 24. maí 2011

Fundur nr. 1182 var haldinn í sveitarstjórn Strandabyggðar þriðjudaginn 24. maí 2011 á skrifstofu sveitarfélagsins að Höfðagötu 3 á Hólmavík. Fundurinn hófst kl. 18:00. Oddviti sveitarstjórnar, Jón Gísli Jónsson, setti fundinn og bauð fundarmenn hjartanlega velkomna til fundar. Einnig sátu fundinn Jón Jónsson varaoddviti, Bryndís Sveinsdóttir, Katla Kjartansdóttir og Ásta Þórisdóttir. Jón Jónsson ritaði fundargerð. 

 

Dagskrá fundarins var eftirfarandi:


1. Ársreikningur 2010 - fyrri umræða
2. Lántaka Hólmavíkurhafnar vegna framkvæmda við höfnina
3. Umræða um húsnæði í eigu sveitarfélagsins
4. Tillaga að verkefni í sumar: Skógurinn
5. Styrkbeiðni vegna þátttöku í Íslandsmótinu í sandspyrnu og torfæru, erindi frá Daníel Ingimundarsyni, dags. 12. maí 2011
6. Styrkbeiðni vegna framkvæmda við Skeljavíkurvöll, erindi frá Golfklúbbi Hólmavíkur, dags. 25. apríl 2011
7. Markaðsmál Vestfjarða, erindi frá Markaðsstofu Vestfjarða dags. 16. maí 2011
8. Krufningar á refum á Vestfjörðum, erindi frá Melrakkasetrinu, dags. 9. maí 2011
9. Skipun fulltrúa Strandabyggðar í bókasafnsnefnd Héraðsbókasafns Strandasýslu
10. Reglur um útleigu á skólabíl Strandabyggðar
11. Fundur með sveitarstjórnafólki í Dalabyggð og Reykhólahreppi, 5. maí 2011
12. Fundargerð, efling atvinnu og byggðar á Vestfjörðum, dags. 3. maí 2011
13. Fundargerð Fjórðungssambands Vestfirðinga, dags. 3. maí 2011
14. Fundargerð Velferðarnefndar Stranda og Reykhólahrepps, dags. 2. maí 2011
15. Fundargerð Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar, dags. 9. maí 2011
16. Fundargerð Atvinnumála- og hafnarnefndar, dags. 11. maí 2011
17. Fundargerð Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefndar, dags. 19. maí 2011
18. Fundargerð Fræðslunefndar, dags. 19. maí 2011
 
Oddviti leitaði afbrigða til að taka á dagskrá mál 19. Fundarboð á aðalfund Sorpsamlags Strandasýslu og var það samþykkt samhljóða.

 

Þá var gengið til dagskrár:

 

1. Ársreikningur 2010 - fyrri umræða


Ársreikningur 2010 lagður fram til fyrri umræðu. Farið var yfir reikninga sveitarfélagsins, en rekstrartekjur A hluta námu tæpum 362,2 millj. Rekstrargjöld í A-hluta með afskriftum en fyrir fjármagnsgjöld námu rúmum 364 millj. Afskriftir í A hluta námu rúmum 13,4 millj. króna. Rekstrarniðurstaða í A hluta eftir fjármagnsgjöld og afskriftir er neikvæð um rúmar 22,6 milljónir, miðað við rúmar 24,5 millj. árið 2009. Rekstrarreikningur fyrir samanlagða A og B hluta hljóðar upp á tekjur að upphæð tæpar 383,5 millj. og gjöld að upphæð rúmar 382,7 millj. fyrir fjármagnsgjöld. Þar af eru afskriftir tæpar 18,6 millj. Rekstrarniðurstaða fyrir A og B hluta samanlagða eftir fjármagnsgjöld og afskriftir er neikvæð um tæpar 22,8 millj. árið 2010 á móti rúmum 32,7 millj. árið 2009.

 

Samkvæmt efnahagsreikningi 31. des. 2010 nema eignir A-hluta rúmum 621,6 millj., þar af nema fastafjármunir rúmum 427,8 millj. en eigið fé nam rúmum 343,9 millj. Langtímaskuldir A hluta nema rúmum 222 millj. og hafa lækkað um 16,5 millj. frá árslokum 2009. Oddviti lagði til að reikningum sveitarfélagsins yrði vísað til seinni umræðu og var það samþykkt samhljóða.

 

2. Lántaka Hólmavíkurhafnar vegna framkvæmda við höfnina

 

Eftirfarandi bókun lögð fram:

 

„Stjórn Hólmavíkurhafnar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 20.000.000.- kr. til 23 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Er lánið tekið til að fjármagna framkvæmdir við stálþil Hólmavíkurhafnar, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

 

Jafnframt er Ingibjörgu Valgeirsdóttur, sveitarstjóra Strandabyggðar, kt. 130673-5979, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hólmavíkurhafnar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántöku þessari.

 

Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum, verðbótum og kostnaði stendur sjálfskuldarábyrgð Strandabyggðar sbr. heimild í 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og setur Strandabyggð til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar sbr. 3. mgr. 73. gr. sömu laga."

 

Samþykkt samhljóða. Eftirfarandi bókun lögð fram:

 

„Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir hér með að veita sjálfskuldarábyrgð vegna lántöku Hólmavíkurhafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 20.000.000.- til 23 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Er sjálfskuldarábyrgð þessi veitt sbr. heimild í 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, og standa tekjur sveitarfélagsins til tryggingar henni, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til að fjármagna framkvæmdir við stálþil Hólmavíkurhafnar, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóðs sveitarfélaga nr. 150/2006.

 

Sveitarstjórn skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Hólmavíkurhafnar til að breyta ekki ákvæði samþykkta Hólmavíkurhafnar sem leggur hömlur á eignarhald á félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.

 

Fari svo að Strandabyggð selji eignarhlut í Hólmavíkurhöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Strandabyggð sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.

 

Jafnframt er Ingibjörgu Valgeirsdóttur sveitarstjóra Strandabyggðar, kt. 130673-5979, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Strandabyggðar veitingu ofangreindrar ábyrgðar með áritun á lánssamninginn."

 

Samþykkt samhljóða.

 

3. Umræða um húsnæði í eigu sveitarfélagsins


Lagt fram minnisblað með tillögum frá oddvita og varaoddvita um húsnæði í eigu sveitarfélagsins, dags. 19. maí 2011. Samþykkt að auglýsa til sölu einbýlishús í eigu sveitarfélagsins að Skólabraut 18, með fyrirvara um að áskilinn sé réttur til að hafna öllum tilboðum. Jafnframt samþykkt að Jón Jónsson og Bryndís Sveinsdóttir móti og leggi fram tillögu að vinnureglum varðandi útleigu og auglýsingar á leiguhúsnæði í eigu sveitarfélagsins.

 

4. Tillaga að verkefni í sumar: Skógurinn

 

Lagt fram minnisblað með tillögu um að ráðast í verkefni í sumar við gerð útivistarsvæðis fyrir börn og fullorðna í skóginum ofan við grunnskólann. Svæðið gæti jafnframt gæti nýst sem útikennslustofa og einnig sem staður fyrir samkomur undir berum himni. Hugmyndin er að nýta sjálfboðaliða frá Seeds við verkefnið, en Ásta Þórisdóttir sér um móttöku þeirra. Einnig er ætlunin að fá vinnuskóla og heimamenn til vinnu við verkefnið og fá Guðmund Hrafn Arngrímsson landslagsarkitekt til að stjórna framkvæmdum og hanna svæðið. Tillagan samþykkt samhljóða eftir nokkrar umræður. 

 

5. Styrkbeiðni vegna þátttöku í Íslandsmótinu í sandspyrnu og torfæru, erindi frá Daníel Ingimundarsyni, dags. 12. maí 2011


Lögð fram styrkbeiðni frá Daníel Ingimundarsyni, dags. 12. maí 2011, vegna þátttöku í Íslandsmótinu í sandspyrnu og torfæru. Ákveðið að hafna erindinu.

 

6. Styrkbeiðni vegna framkvæmda við Skeljavíkurvöll, erindi frá Golfklúbbi Hólmavíkur, dags. 25. apríl 2011

 

Lögð fram styrkbeiðni vegna framkvæmda Golfklúbbs Hólmavíkur við Skeljavíkurvöll, dags. 25. apríl 2011. Samþykkt að styrkja Golfklúbbinn um 150 þúsund vegna framkvæmdanna við Skeljavíkurvöll.

 

7. Markaðsmál Vestfjarða, erindi frá Markaðsstofu Vestfjarða dags. 16. maí 2011.

 

Lagt fram minnisblað frá Gústaf Gústafssyni hjá Markaðsstofu Vestfjarða þar sem fram kemur kostnaðarskipting sveitarfélaga vegna fyrirhugaðs markaðsátaks fyrir Vestfirði alla. Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að taka þátt í verkefninu ásamt öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum.  

 

8. Krufningar á refum á Vestfjörðum, erindi frá Melrakkasetrinu, dags. 9. maí 2011

 

Lagt fram erindi frá Melrakkasetri um skráningu, rannsóknir og krufningar á veiddum refum. Sveitarstjórn lýsir áhuga sínum á að taka þátt í verkefninu í framtíðinni og óskar nánari upplýsinga um hvernig fyrirkomulag gæti verið.

 

9. Skipun fulltrúa Strandabyggðar í bókasafnsnefnd Héraðsbókasafns Strandasýslu

 

Lagt til að Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, Katla Kjartansdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir verði skipuð í bókasafnsnefnd og það samþykkt samhljóða. Til vara eru Sigurður Marínó Þorvaldsson, Viðar Guðmundsson og Rögnvaldur Gíslason.

 

10. Reglur um útleigu á skólabíl Strandabyggðar

 

Lögð fram tillaga að reglum um útleigu á skólabíl Strandabyggðar og þær samþykktar.

 

11. Fundur með sveitarstjórnafólki í Dalabyggð og Reykhólahreppi, 5. maí 2011

 

Fundur var haldinn með sveitarstjórnarfólki í Dalabyggð og Reykhólahreppi þann 5. maí síðastliðinn. Jón Gísli Jónsson oddviti skýrði frá fundinum, en á honum fór fram gagnleg umræða um mögulegt samstarf þessara sveitarfélaga. Sveitarstjórum var á fundinum falið að vinna áfram að því að þróa slíka samvinnu.

 

12. Fundargerð, efling atvinnu og byggðar á Vestfjörðum, dags. 3. maí 2011

 

Lögð fram til kynningar fundargerð frá samráðsvettvangi ríkisstjórnar og sveitarfélaga á Vestfjörðum, frá fundi sem haldinn var 3. maí 2011 á Ísafirði. Þar var rætt um 16 tillögur ríkissstjórnarinnar um eflingu atvinnu og byggðar á Vestfjörðum. Í tengslum við tillögu ríkisstjórnarinnar um að tryggt verði áframhaldandi gott framboð á námi á framhaldsskólastigi á Vestfjörðum, lagði Jón Jónsson fram og rökstuddi viðbótartillögu frá Strandabyggð. Snýst tillaga Strandabyggðar um að ríkisstjórnin veiti 10 millj. kr. til að ráða starfsmann til að vinna að undirbúningi framhaldsskóladeildar sem myndi nýtast Strandabyggð og nágrannasveitarfélögum. Ekki hefur enn borist svar frá ríkisstjórn um ákvörðun varðandi þessa tillögu.  

 

13. Fundargerð Fjórðungssambands Vestfirðinga, dags. 3. maí 2011

 

Fundargerð Fjórðungssambands Vestfirðinga dags. 3. maí 2011 lögð fram til kynningar.

 

14. Fundargerð Velferðarnefndar Stranda og Reykhólahrepps, dags. 2. maí 2011

 

Fundargerð Velferðarnefndar dags. 2. maí 2011 lögð fram til samþykktar. Samþykkt samhljóða.

 

15. Fundargerð Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar, dags. 9. maí 2011

 

Fundargerð TÍM dags. 9. maí 2011 lögð fram til samþykktar. Samþykkt samhljóða.

 

16. Fundargerð Atvinnumála- og hafnarnefndar, dags. 11 maí 2011

 

Fundargerð Atvinnumála- og hafnarnefndar dags. 11. maí 2011 lögð fram til samþykktar. Samþykkt samhljóða.

 

17. Fundargerð Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefndar, dags. 19. maí 2011

 

Fundargerð Bygginga-, umferðar og skipulagsnefndar dags. 19. maí 2011 lögð fram til samþykktar. Varðandi lið 5b samþykkir sveitarstjórn ósk Hólmadrangs um að lóð stækki til austurs og suðurs með fyrirvörum Byggingar, umferðar- og skipulagsnefndar um samþykki annarra lóðarhafa sem málið varðar. 

 

18. Fundargerð Fræðslunefndar, dags. 19. maí 2011

 

Fundargerð Fræðslunefndar dags. 19. maí 2011 lögð fram til samþykktar. Fundargerðin samþykkt samhljóða. Sveitarstjórn þakkar þeim starfsmönnum sem láta nú af störfum við Grunn- og Tónskóla Hólmavíkur kærlega fyrir frábærlega vel unnin störf og gott samstarf.

 

19. Boðun til aðalfundar Sorpsamlags Strandasýslu.

 

Lagt fram fundarboð þar sem boðað er til aðalfundar Sorpsamlags Strandasýslu þann 1. júní 2011. Samþykkt að Jón Gísli Jónsson oddviti fari með atkvæði Strandabyggðar á fundinum.

 

Fundargerð lesin upp og samþykkt samhljóða. Fundi slitið kl. 20:40.

 

Jón Gísli Jónsson (sign) 
Jón Jónsson (sign)
Ásta Þórisdóttir (sign)
Katla Kjartansdóttir (sign)
Bryndís Sveinsdóttir (sign)

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón