A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 3. júní 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 3. júní var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Rúna Stína Ásgrímsdóttir varaoddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hennar sátu fundinn Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson, Jón Stefánsson og Ingibjörg Emilsdóttir varamaður. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:

Varaoddviti kynnti dagskrá fundarins í 12 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Boðun á aðalfund Menningarráðs Vestfjarða.
3. Erindi frá Menntamálaráðuneytinu um verðmat á Broddanesskóla.
4. Erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum ásamt nýrri lögreglusamþykkt fyrir Vestfirði.
5. Erindi frá Jóni Jónssyni vegna fyrirhugaðra kaupa á nýrri skólabifreið ásamt undirskriftarlista foreldra skólabarna.
6. Erindi frá Ólöfu B. Jónsdóttur og Reyni S. Stefánssyni um kaup á lóð í landi Nauteyrar.
7. Erindi frá Atla Gunnarssyni um stofnun fyrirtækis um menningartengda ferðaþjónustu.
8. Fundargerð Hafnarnefndar Strandabyggðar dags. 26. maí 2008.
9. Fundargerð Atvinnumálanefndar Strandabyggðar dags. 23. maí 2008.
10. Tillaga frá Jóni G. Jónssyni um að tekið verði upp verkbókhald hjá Strandabyggð.
11. Tillaga frá Jóni G. Jónssyni um að hafinn verði undirbúningur við lagningu bundins slitlags og viðgerða gatna í Strandabyggð.
12. Fundargerð Umhverfisnefndar Strandabyggðar dags. 28. maí 2008.

Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá því að Magnús Leópoldsson fasteignasali hafði samband vegna mats á Broddanesskóla annars vegar og jörðinni Nauteyri hins vegar. Hafði hann nokkrar fyrirspurnir fram að færa varðandi sölu jarðarinnar s.s. hvort spildur undir bústöðum væru eignarlóðir eða leigulóðir og taldi það ekki gott ef við ætluðum að selja þessar spildur sér. Hann sér um sölu á íbúðarhúsinu á Nauteyri og því kunnugt um að eigendur þess, Reynir og Lóa, ætla sér að fá keypt landið sem húsið stendur á. Telur Magnús það slæmt því reynslan hafi sýnt að það rýri verðgildi jarða sem eru mikið bútaðar. Vildi hann einnig fá verðhugmyndir frá okkur og sagði ég honum að væntingar okkar væru miklar. Til sölu eru jarðir í Skötufirði og Seyðisfirði sem og Dýrafirði og víðar og hafa þær ekki rokið út eins og ætla mætti. Spurðist hann fyrir um vatnsréttindi og lækkar það verðmat jarðarinnar enn frekar að þau fylgja ekki með. Tjáði hann mér að hann vissi um einstakling á Suðurlandi sem væri að berjast fyrir því að fá til sín vatnsréttindin og væri sá hinn sami afar bjartsýnn á að úrskurðað yrði honum í hag. Ætlar hann að leyfa mér að fylgjast með framvindu þess máls. Búið er að undirrita leyfi til að auglýsa jörðina til sölu og kemur þá í ljós hvort hægt verði að fá fjármagn upp í fyrirhugaðar gatnaframkvæmdir. 

Þá er greint frá því að ábending hafi borist þess efnis að óvitlaust væri fyrir Strandabyggð að eiga skólarútuna í að minnsta kosti tvö ár til viðbótar svo betri nýting fáist út úr fjárfestingunni. Miðað við ekna kílómetra þá dygði hún vel áfram ef gert yrði við ryð og hún sprautuð. Þetta ætti ekki að hafa mikil áhrif á endursöluverð hennar þar sem afföllin eru mest fyrstu árin. Sveinn á Borðeyri telur líklegt að undirvinna og sprautun sé um 300 þús. kr. og er hann tilbúinn til að taka verkið að sér, verði af því að fresta sölu rútunnar og nýta hana áfram.  Samþykkt er samhljóða að fresta sölu og taka tilboði Sveins. 

Þá hefur borist tilboð frá Óskaþrifum í slátt á völdum svæðum fyrir Strandabyggð og er vél- og mannakaup 4.933 kr. á klst. Í viðtali við Einar Indriðason þá taldi hann það taka einn mann eina viku að slá umrædd svæði, þ.e. tjald- og íþróttasvæði, Kirkjuhvamminn, flatir við Galdrasafnið og flötina hjá minnismerki Stefáns í Hvítadal. Sé sprettan góð áleit hann að það þyrfti að slá hálfsmánaðarlega. Samkvæmt því gæti kostnaður við slátt numið kr. 394.640 kr. á mánuði en 295.980 kr. ef slegið er þriðju hverja viku. Samþykkt er að hafna tilboðinu að svo stöddu enda nægur mannskapur til sláttar þetta árið. 

Að endingu er greint frá því að borist hefur tölvupóstur frá Brynju Bjarnfjörð þar sem hún fer fram á leyfi til að skreyta gamla vatnstankinn, verði búið að fjarlægja klæðningu af honum. Hefur hún í huga að fá “graffara” til að spreyja skreytilist á hann fyrir Hamingjudaga. Samþykkt er að hafna erindinu.


2. Boðun á aðalfund Menningarráðs Vestfjarða. 
Borist hefur erindi frá menningarfulltrúa Vestfjarða dags. 17. maí 2008  þar sem boðað er til fyrsta aðalfundar Menningarráðs Vestfjarða sem haldinn verður þann 18. júní nk. á Patreksfirði ásamt skýrslu um starfsemi ráðsins árið 2007. Sveitarstjóri mun mæta á fundinn. Lagt fram til kynningar.


3. Erindi frá Menntamálaráðuneytinu um verðmat á Broddanesskóla.
 
Borist hefur erindi frá Menntamálaráðuneytinu dags. 28. maí 2008 ásamt verðmati á Broddanesskóla frá Fasteignamiðstöðinni upp á 18 milljónir kr. Samþykkt var samhljóða að fela ráðuneytinu að láta auglýsa skólann til sölu hjá Ríkiskaupum.


4. Erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum ásamt nýrri lögreglusamþykkt fyrir Vestfirði.
 
Borist hefur erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum dags. 27. maí 2008 þar sem óskað er eftir heimild frá sveitarfélaginu um að sett verði fram ein lögreglusamþykkt fyrir Vestfirði sem unnin yrði af embættinu ásamt tillögu að nýrri lögreglusamþykkt fyrir Vestfirði. Sveitarstjórn þakkar erindið en þar sem Héraðsnefnd Strandasýslu hefur þegar tekið erindið fyrir og samþykkt það f.h. sveitarfélaga í Strandasýslu líti hún svo á að búið sé að afgreiða erindið.


5. Erindi frá Jóni Jónssyni vegna fyrirhugaðra kaupa á nýrri skólabifreið ásamt undirskriftarlista foreldra skólabarna. 
Borist hefur erindi frá Jóni Jónssyni dags. 21. maí 2008 þar sem fram kemur andstaða hans við að keypt verði eins drifs skólabifreið til notkunar við skólaaksturs. Þá telur hann að fyrirhuguð kaup gangi þvert á samþykkt sveitarstjórnar á síðustu fundargerð skólanefndar þar sem segir:  “Skólanefnd mælir með að samskipti milli foreldra barna í skólaakstri og sveitarstjórnar verði bætt með formlegum kynningar- eða fréttabréfum frá sveitarfélaginu um fyrirkomulag og breytingar. Þar sem foreldrum er gefið færi að tjá sig um breytingar og gera skriflegar athugasemdir innan gefins tíma.” Einnig hefur borist undirskriftarlisti frá foreldrum barna í dreifbýli sunnan Hólmavíkur þar sem lýst er andstöðu við fyrirhuguð kaup á eins drifs skólabifreið. Sveitarstjórn stendur fullkomlega við þá samþykkt sem fram kemur í fundargerð skólanefndar frá 30. apríl 2008 og Jón vísar til í bréfi sínu. Sveitarstjórn samþykkti hins vegar engar breytingar á fyrirkomulagi skólaaksturs á næsta skólaári og sér því ekki ástæðu til sérstakrar kynningar. Þá vill sveitarstjórn taka fram að með því að kaupa eins drifs skólarútu telur hún að öryggi skólabarna sé fullkomlega tryggt. Þá mun sveitarstjórn beita sér fyrir því að Vegagerðin opni fyrr og hálkuverji meir á þessari leið sem og öðrum leiðum innan sveitarfélagsins.


6. Erindi frá Ólöfu B. Jónsdóttur og Reyni S. Stefánssyni um kaup á lóð í landi Nauteyrar. 
Borist hefur erindi frá Ólöfu B. Jónsdóttur og Reyni S. Stefánssyni dags. 16. maí 2008 þar sem þau óska eftir að fá keypta lóðina sem hús þeirra stendur á í landi Nauteyrar. Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu vegna fyrirhugaðrar sölu sveitarstjórnar á jörðinni Nauteyri.


7. Erindi frá Atla Gunnarssyni um stofnun fyrirtækis um menningartengda ferðaþjónustu. 
Borist hefur erindi frá Atla Gunnarssyni dags. 22. maí 2008 um fyrirhugaða stofnun fyrirtækis um menningartengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Lagt fram til kynningar.


8. Fundargerð Hafnarnefndar Strandabyggðar dags. 26. maí 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Hafnarnefndar Strandabyggðar frá 26. maí 2008. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.


9. Fundargerð Atvinnumálanefndar Strandabyggðar dags. 23. maí 2008.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Atvinnumálanefndar Strandabyggðar frá 23. maí 2008. Tillaga er borin upp um að vísa til Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar að gert verði nýtt deiliskipulag af lóðinni sem Sævar Benediktsson hefur til umráða við Fiskislóð svo breyta megi húsnæðinu í gistihús. Tillagan er samþykkt samhljóða. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.


10. Tillaga frá Jóni G. Jónssyni um að tekið verði upp verkbókhald hjá Strandabyggð. 
Borist hefur tillaga frá Jóni G. Jónssyni um að tekið verði upp verkbókhald hjá Strandabyggð svo halda megi betur um verkstöðu og kostnaðarstað í bókhaldi sveitarfélagsins. Tillagan er samþykkt samhljóða.


11. Tillaga frá Jóni G. Jónssyni um að hafinn verði undirbúningur við lagningu bundins slitlags og viðgerða gatna í Strandabyggð.  
Borist hefur tillaga frá Jóni G. Jónssyni um að hafinn verði undirbúningur við lagningu bundins slitlags og viðgerða gatna í Strandabyggð. Tillagan er samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum en einn var á móti.


12. Fundargerð umhverfisnefndar Strandabyggðar dags. 28. maí 2008.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Umhverfisnefndar Strandabyggðar frá 28. maí 2008. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 18:45.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón