A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 2. sept. 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 2. september var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:

Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 8 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Umsókn um námsvist utan lögheimilssveitarfélags.
3. Erindi frá stjórn Orkubús Vestfjarða um boðun fundar með sveitarstjórnarmönnum á svæði þrjú.
4. Fyrirspurn frá Kristínu S. Einarsdóttur um fyrirkomulag námsvers og fjarfundarbúnaðar á komandi vetri.
5. Erindi frá Sólstöfum, systurfélagi Stígamóta, um ósk um samstarf um fræðslu og forvarnir gegn ofbeldi.
6. Erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum um ný lög um almannavarnir.
7. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 28. ágúst 2008.
8. Leitarseðill 2008.

Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá því að haldið var menningarmót á Ströndum en þar voru samankomnir afkomendur Sigríðar Jónsdóttur ljósmóður og Þórðar Sigurðssonar bónda í Stóra-Fjarðarhorni. Í tilefni mótsins var Strandabyggð færð að gjöf rafmagnspíanó og er það einlæg ósk mótsgesta að hljóðfærið gagnist íbúum á komandi árum og verði liður í eflingu tónlistar í skemmtana- og menningarlífi samfélagsins. Tók oddviti Strandabyggðar, Valdemar Guðmundsson, við gjöfinni fyrir hönd Strandabyggðar og þakkaði mótsgestum kærlega fyrir góða gjöf. 

Þá er greint frá því að búið er að ganga til samninga við Tölvumiðlun um kaup á verkbókhaldi fyrir áhaldahúsið. Heldur kerfið utan um vinnu verkamanna, véla og tækja sem bókun innri vinnu og útseldrar er unnin úr. Eru þessar upplýsingar síðan uppfærðar og fluttar í bókhald sveitarfélagsins. Með bókhaldinu verður mun auðveldara að halda utan um öll verk, stöðu þeirra og kostnað. Áætlað er að kerfið verði komið í notkun um miðjan september og spurning hvort eldri gögn ársins, sem skráð eru á vinnuseðlum, verði ekki einnig sett inn þannig að allt árið verði skráð inn með þessum hætti. 

Þá er sagt frá því að formaður ungmennafélagsins Hvatar kom með fyrirspurn um hvort sveitarfélagið féllist á að styrkja félagið um tvo tíma á viku í Íþróttamiðstöðinni. Er ætlunin að æfa frjálsar íþróttir innandyra og er búið að sækja um þann tímafjölda hjá forstöðumanni hússins. Sveitarfélagið styrkir Geislann með sama hætti, bara meiri tímafjöldi þar að baki eða 14 tímar á viku. Sveitarstjórn fellst á að styrkja ungmennafélagið Hvöt er nemur tveimur tímum á viku. 

Einnig er sagt frá því að búið er að ganga til samninga við Þórð Halldórsson um akstur skólabarna í Djúpi og mun hann fá greiddar 5.200.000 kr. sem verktakagreiðslur fyrir aksturinn skólaárið 2008-2009. Þá verður tekið tillit til hækkana/lækkana á olíuverði á tímabilinu en að öðru leyti helst verðið óbreytt. 

Að endingu er greint frá því að Gísli Gunnlaugsson er væntanlegur n.k. þriðjudag og verður byrjað á vinnufundi um hádegisbilið þar sem farið verður yfir öll verkefni og stöðu þeirra. Þá verður einnig farið í að skipuleggja og skoða þau svæði sem verða notuð undir mótshald árið 2010, bæði frjálsíþróttarvöll, fótboltavöll og tjaldsvæði.  Að því loknu vill Gísli eiga fund með sveitarstjórn þar sem hann kynnir mælingar á götum og gerir grein fyrir kostnaði við að setja á þær bundið slitlag. Er sá fundur kl. 16:00 en kl. 17:00 byrjar svo sveitarstjórnarfundur.


2. Umsókn um námsvist utan lögheimilssveitarfélags. 
Borist hefur umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags en viðkomandi barn mun stunda nám við Reykhólaskóla. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.


3. Erindi frá stjórn Orkubús Vestfjarða um boðun fundar með sveitarstjórnarmönnum á svæði þrjú. 
Borist hefur erindi frá stjórn Orkubús Vestfjarða dags. 21.08.2008 þar sem boðið er til fundar með sveitarstjórnarmönnum á svæði 3 fimmtudaginn 4. september kl. 17:00 á Café Riis. Er ætlunin að ræða um málefni O.V. almennt sem og yfirstandandi framkvæmdir og áform. Sveitarstjórn þakkar boðið og mun mæta til fundarins.


4. Fyrirspurn frá Kristínu S. Einarsdóttur um fyrirkomulag námsvers og fjarfundarbúnaðar á komandi vetri. 
Borist hefur póstur frá Kristínu S. Einarsdóttur dags. 18. ágúst 2008 þar sem hún gerir fyrirspurn til sveitarstjórnar varðandi námsver og fjarfundarbúnað. Samþykkt var samhljóða að fela sveitarstjóra að svara erindinu.


5. Erindi frá Sólstöfum, systurfélagi Stígamóta, um ósk um samstarf um fræðslu og forvarnir gegn ofbeldi.
Borist hefur erindi frá Sólstöfum dags. 19. ágúst 2008 þar sem óskað er eftir samstarfi sveitarfélagsins um fræðslu og námskeið fyrir starfsmenn sem vinna með börnum í sveitarfélaginu. Sveitarstjóra er falið að afla nánari upplýsinga og erindinu frestað til næsta fundar.


6. Erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum um ný lög um almannavarnir. 
Borist hefur erindi frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum dags. 29. ágúst 2008 þar sem kynnt eru ný lög um almannavarnir og helstu nýmæli þeirra og næstu skref. Lagt fram til kynningar.  


7. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 28. ágúst 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 28. ágúst 2008. Sveitarstjórn áréttar að undir liðnum önnur mál er talað um að setja upp skilti sem sýnir að óheimilt er að leggja stórum bifreiðum innanbæjar, en hið rétta er að bannað er að leggja slíkum bifreiðum í íbúagötum. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.


8. Leitarseðill 2008. 
Lagður er fram til samþykktar leitarseðill Strandabyggðar fyrir árið 2008. Seðillinn var samþykktur samhljóða.


Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:00.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón