A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 23. mars 2010

Ár 2010 þriðjudaginn 23. mars var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson, Jón Stefánsson og Ásta Þórisdóttir varamaður. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 10 töluliðum, sem var eftirfarandi: 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
  • 2. Skipulagstillaga um Aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022.
  • 3. Umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga vegna tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.
  • 4. Gjaldskrá hafnarsjóðs Strandabyggðar.
  • 5. Aðalgjaldskrá Strandabyggðar.
  • 6. Reglur Strandabyggðar um fjárhagsaðstoð.
  • 7. Fundargerð Félagsmálaráðs dags. 9. mars 2010.
  • 8. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar dags. 10. mars 2010.
  • 9. Fundargerð Umhverfisnefndar dags. 16. mars 2010
  • 10. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 22. mars 2010.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

1. Skýrsla sveitarstjóra.
a) Sendur var tölvupóstur til sveitarstjóra Reykhólahrepps og hreppsnefnd boðið til fundar með sveitarstjórn og sveitarstjóra Strandabyggðar þriðjudaginn 30. mars kl. 17:00. Að fundi loknum yrði þeim boðið í kvöldverð á Café Riis. Búið er að staðfesta dagsetninguna af hreppsnefnd Reykhólahrepps og mun hún mæta til fundarins.

b) Erindi barst undirritaðri frá Háafelli ehf. um viðauka við núgildandi leigusamning þar sem leigutími verður lengdur úr 25 í 50 ár og hið leigða svæði stækkað svo stíflan í Hafnardalsá falli innan hins leigða svæðis. Er verið að fara þess á leit til að tryggja starfsemi þeirra á Nauteyri, verði jörðin seld þriðja aðila. Samþykkt er að heimila sveitarstjóra að gera viðaukann.

c) Grunnskólinn á Hólmavík á 100 ára afmæli nú í haust en hann tók til starfa haustið 1910. Í tilefni afmælisins væri gaman ef rituð yrði saga skólans og má ætla að slíkt rit yrði ekki síður vinsælt og Hólmavíkurbókin. Hægt væri t.d. að fá Þjóðfræðistofu til verkefnisins ef áhugi er á því hjá sveitarstjórn og efla þannig atvinnustarfsemi og halda fjármagninu innan svæðisins.

d) Komin er fram ósk um að Strandabyggð taki upp nýjan búnað sem gerir kleift að senda út sveitarstjórnarfundi á tölvuforriti. Kostar slík tenging aðeins 6.000 kr. á mánuði og kæmi í stað fjarfundarbúnaðar. Gætu stofnanir og skólar nýtt sér einnig þennan búnað og tengingu sem og Fræðslumiðstöðin. Samþykkt er að kaupa búnaðinn fyrir sveitarfélagið.

e) Fundur verður haldinn um fyrningarleið kvótakerfisins miðvikudaginn 24. mars á Ísafirði og hefst hann kl. 20:00. Er hér um að ræða samskonar fund og haldinn hefur verið í Vestmannaeyjum, Snæfellsbæ, Fjarðarbyggð og í Reykjavík. Fjallað verður um kosti og galla fyrirningarleiðar sem ríkisstjórnin vill að tekin verði upp í sjávarútvegi.

f) Bæta þarf þjónustu hvað varðar almenningssamgöngur hér á Ströndum en einungis ein ferð stendur til boða á föstudögum. Hins vegar eru þrjár ferðir frá Reykhólum í hverri viku og væri það mjög til bóta að leggja niður ferðina frá Staðarskála til Hólmavíkur og bæta í stað þess Hólmavík inn í ferðir frá Reykhólum. Samkvæmt viðtali við Auði Eyvindardóttur hjá Vegagerðinni, sem sér um þennan málaflokk, verður ekki gengið til samninga við sérleyfishafa fyrr en í lok ársins en gera má ráð fyrir að einhver niðurskurður verði á þessum málaflokki. Samþykkt er að senda erindi til Vegargerðarinnar þar sem farið er þess á leit að breyta sérleyfisferðum á Hólmavík.

g) Samkvæmt viðtali við Hinrik Greipsson hjá Sjávarútvegsráðuneytinu bárust 4 kærur vegna beiðni Strandabyggðar um að fella niður ákvæði 4. gr. um 15 tonna hámarksúthlutun á hvern bát. Már Ólafsson og Jón Stefánsson véku af fundi. Vegna þessa er ekki búið að afgreiða reglur sveitarfélagsins hjá ráðuneytinu og vill Hinrik fá rökstuðning sveitarstjórnar fyrir beiðni um niðurfellingunni. Már Ólafsson og Jón Stefánsson komu inn á fund aftur.


2. Skipulagstillaga um Aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022.
Lögð er fram til samþykktar skipulagstillaga um Aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022. Sveitarstjórn samþykkir að afgreiða skipulagstillöguna til áframhaldandi kynningar og umfjöllunar með fjórum greiddum atkvæðum.


3. Umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga vegna tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.
Borist hefur umsögn frá Fjórðungssambands Vestfirðinga vegna tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt. Lagt fram til kynningar.


4. Gjaldskrá hafnarsjóðs Strandabyggðar.
Lögð er fram til samþykktar gjaldskrá hafnarsjóðs Strandabyggðar. Gjaldskráin er samþykkt samhljóða.


5. Aðalgjaldskrá Strandabyggðar.
Lögð er fram til samþykktar aðalgjaldskrá Strandabyggðar. Samþykkt er samhljóða að fresta afgreiðslu aðalgjaldskrár til næsta fundar.


6. Reglur Strandabyggðar um fjárhagsaðstoð.
Lagðar eru fram til samþykktar reglur Strandabyggðar um fjárhagsaðstoð. Reglurnar eru samþykktar samhljóða.


7. Fundargerð Félagsmálaráðs dags. 9. mars 2010.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Félagsmálaráðs frá 9. mars 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.


8. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar dags. 10. mars 2010.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar frá 10. mars 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.


9. Fundargerð Umhverfisnefndar dags. 16. mars 2010.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Umhverfisnefndar frá 16. mars 2010. Fundargerðin er samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum en einn sat hjá.


10. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 22. mars 2010.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík frá 22. mars 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:10.
 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón