A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 13. júlí 2010

Þann 13. júlí 2010 var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Hann var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Hafnarbraut 19 á Hólmavík og hófst kl. 18:15. Jón Gísli Jónsson oddviti sveitarstjórnar bauð fundarmenn velkomna, setti fundinn og stjórnaði honum. Auk hans sátu fundinn Jón Jónsson, Katla Kjartansdóttir, Bryndís Sveinsdóttir og Ásta Þórisdóttir sveitarstjórnarmenn. Jón Jónsson ritaði jafnframt fundargerð.

 

Boðuð dagskrá fundarins er í 12 liðum:

  • 1. Skýrsla oddvita.
  • 2. Umræða um gjaldskrár sveitarfélagsins
  • 3. Samþykktir um kjör í nefndum, ráðum og stjórnum Strandabyggðar
  • 4. Erindi frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dags. 8. júlí 2010, þar sem Fræðslumiðstöðin óskar eftir að fá fyrstu hæð Þróunarsetursins á Hólmavík leigða.
  • 5. Minnisblað frá skólastjórum Grunnskóla um nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir.
  • 6. Umræður um leyfi til silungsveiða í sjó í landi Strandabyggðar.
  • 7. Erindi frá Kristínu S. Einarsdóttur framkvæmdastjóra Hamingjudaga þar sem óskað er umsagnar frá sveitarstjórn um hátíðina.
  • 8. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 24. júní 2010.
  • 9. Fundargerð Fræðslunefndar Strandabyggðar dags. 7. júlí 2010.
  • 10. Fundargerð Bygginga-, umferðar og skipulagsnefndar, dags. 8. júlí 2010.
  • 11. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dags. 2. júlí 2010. Boðun 55. Fjórðungsþings Vestfirðinga.
  • 12. Styrkbeiðni frá Héraðssambandi Strandamanna.


Þá var gengið til dagskrár.

 

1. Skýrsla oddvita.

Lögð fram skýrsla oddvita og varaoddvita um störf þeirra frá síðasta fundi. Þar kemur m.a. fram að unnið er að ráðningu sveitarstjóra. 40 umsóknir bárust um starfið og hefur Hagvangur unnið úr umsóknum og tekið viðtöl við umsækjendur. Í næstu viku er ætlunin að taka viðtöl með þátttöku sveitarstjórnarmanna við þá sem helst koma til greina.

 

Í skýrslunni kemur fram að haldinn var kynningar- og umræðufundur 1. júlí síðastliðinn um flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og sátu hann sveitarstjórnarmenn Strandabyggðar og nefndarmenn í Félagsmála- og jafnréttisnefnd. Aðalsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga og Arnheiður Jónsdóttir verkefnisstjóri sátu fundinn og hafa gögn varðandi verkefnið verið send fundarmönnum eftir hann. Samþykkt er samhljóða að Jóhanna Hreinsdóttir verði fulltrúi Strandabyggðar í verkefnishóp á Vestfjarðavísu um málefnið.

 

Oddvitar sátu fund með Bjarna Ómari Haraldssyni og Hildi Guðjónsdóttur skólastjórum Grunnskóla. Þar kom m.a. fram að þau telja þörf á að skilgreina heimildir stjórnenda varðandi innkaup á rekstrarvörum og viðgerðir og kaup á áhöldum og tækjum. Samþykkt var um að virkja og hafa stjórnendur stofnana Strandabyggðar með í ráðum við gerð fjárhagsáætlana.

 

Oddvitar sátu fund með Helgu Óladóttir landfræðinema við HÍ þann 6. júlí, en hún vinnur að hagkvæmisathugun á nýtingu heita vatnsins í Hveravík. Óskuðu oddvitar eftir að fá upplýsingar um niðurstöður þegar þar að kæmi.

 

Oddvitar héldu vinnufund með Gísla Gunnlaugssyni byggingarfulltrúa 8. júlí þar sem farið var yfir vinnubrögð, leyfisveitingar, lóðaumsóknir og stöðu mála sem að byggingarfulltrúa snúa.

 

Í skýrslu oddvitanna kemur einnig fram að unnin hefur verið hugmyndavinna um bætt upplýsingaflæði milli íbúa og stjórnsýslu, m.a. fréttabréf, endurskipulagningu og uppfærslu vefsíðu og svokallaðan hugmyndapott fyrir ábendingar íbúa til sveitarstjórnar. Ákveðið að vinna áfram að þessu.

 

Þá kemur fram í skýrslu oddvita að rætt hefur verið um hvort móta eigi stefnu um að halda ágengum plöntum í sveitarfélaginu í skefjum, einkum í nágrenni Hólmavíkur. Til er samþykkt um að halda lúpínu í skefjum í byggð á Hólmavík og hefur sveitarstjórn áhuga á að kynna hana, miðla upplýsingum og vinna áfram að þessu máli.

 

2. Umræða um gjaldskrár sveitarfélagsins

Lögð fram og rædd tillaga að gjaldskrá fyrir Félagsheimilið á Hólmavík. Gerðar nokkrar breytingar á tillögunni og hún síðan samþykkt samhljóða. Ákveðið að birta gjaldskrána á vef Strandabyggðar.

 

Kynnt tillaga um gjaldskrá fyrir áhaldahús, útselda þjónustu starfsmanna þess og akstur. Tillagan samþykkt samhljóða, en ákvörðun um gjald fyrir garðslátt, túnþökur og þökuskurð frestað. Samþykkt að birta verðskrána á vef Strandabyggðar.

 

3. Samþykktir um kjör í nefndum, ráðum og stjórnum Strandabyggðar

Lögð fram tillaga að Samþykkt um kjör fulltrúa í stjórnum, nefndum og ráðum Strandabyggðar sem gildir frá 15. júní 2010. Samþykktin var samþykkt samhljóða og ákveðið að birta hana á vefsíðu Strandabyggðar.

 

4. Erindi frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dags. 8. júlí 2010, þar sem Fræðslumiðstöðin óskar eftir að fá fyrstu hæð Þróunarsetursins á Hólmavík leigða.

Lagt var fram erindi frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar sem óskað er eftir að fá til leigu fyrstu hæð Þróunarsetursins á Hólmavík, eftir að húsnæðið verði komið í viðunandi ástand. Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og leggur til að viðræður við Fræðslumiðstöð um málið verði hafnar, ásamt því að gerð verði framkvæmda- og kostnaðaráætlun. Jóni Gísla Jónssyni og Kötlu Kjartansdóttur falið að sjá um viðræður og áætlanagerð.

 

Sveitarstjórn fagnar því jafnframt að starfshlutfall starfsmanns Fræðslumiðstöðvarinnar á Hólmavík sé aukið í 100%.

 

5. Minnisblað frá skólastjórum Grunnskóla um nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir.

Lagt fram til kynningar minnisblað frá Bjarna Ómari Haraldssyni og Hildi Guðjónsdóttur skólastjórnendum við Grunnskólann á Hólmavík, varðandi viðhald og úrbætur á skólahúsnæðinu. Ákveðið að ganga í minni háttar lagfæringar og oddvita falið að sjá um áætlanagerð varðandi kostnað við stærri aðkallandi viðhaldsverkefni.

 

6. Umræður um leyfi til silungsveiða í sjó í landi Strandabyggðar.

Fram var haldið umræðum frá síðasta sveitarstjórnarfundi um leyfi til silungsveiða í net í sjó í landi Strandabyggðar. Lögð var fram tillaga um að leyfi til silungsveiða fyrir landi Strandabyggðar verði veitt frá og með 20. júlí og umsækjendur skuldbindi sig til að hlýta lögum og reglum. Ákveðið að tekið verði gjald fyrir slík leyfi frá og með næsta ári og nánari reglur útfærðar. Samþykkt samhljóða.

 

7. Erindi frá Kristínu S. Einarsdóttur framkvæmdastjóra Hamingjudaga þar sem óskað er umsagnar frá sveitarstjórn um hátíðina.

Lagt er fram erindi frá Kristínu S. Einarsdóttur framkvæmdastjóra Hamingjudaga þar sem óskað er umsagnar frá sveitarstjórn um hátíðina. Sveitarstjórn óskar framkvæmdastjóra, Menningarmálanefnd og íbúum öllum hjartanlega til hamingju með vel heppnaða Hamingjudaga. Jafnframt þakkar sveitarstjórn framkvæmdastjóra fyrir vel unnin störf og hvetur alla sem erindið fengu til að senda umsagnir og svör.

 

8. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 24. júní 2010.

Lögð fram til samþykktar fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar frá 24. júní 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða. Sveitarstjórn Strandabyggðar óskar aðstandendum leiksýningarinnar Grease hjartanlega til hamingju með verðskulduð menningarverðlaun.

 

9. Fundargerð Fræðslunefndar Strandabyggðar dags. 7. júlí 2010.

Lögð fram til samþykktar fundargerð Fræðslunefndar Strandabyggðar frá 7. júlí 2010. Rætt um einstaka þætti í fundargerðinni, svo sem kennararáðningar, mötuneyti, skólaakstur og baðvörslu í íþróttatímum í Íþróttamiðstöð. Oddvitum falið að vinna að lausn á þessum málum og ganga frá skriflegum samningum þar sem við á. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

10. Fundargerð Bygginga-, umferðar og skipulagsnefndar, dags. 8. júlí 2010.

Lögð fram til samþykktar fundargerð Bygginga-, umferðar og skipulagsnefndar frá 8. júlí 2010. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

11. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dags. 2. júlí 2010. Boðun 55. Fjórðungsþings Vestfirðinga.

Lagt fram til kynningar erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dags. 2. júlí 2010 þar sem boðað er til 55. Fjórðungsþings Vestfirðinga á Hólmavík dagana 3.-4. september næstkomandi.

 

12. Styrkbeiðni frá Héraðssambandi Strandamanna.

Lagt fram erindi frá Héraðssambandi Strandamanna þar sem leitað er eftir stuðningi sveitarfélagsins. Samþykkt samhljóða að fresta afgreiðslu erindisins og óska eftir frekari upplýsingum frá Héraðssambandinu.

 

Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 21:41.

 

Jón Gísli Jónsson (sign)
Bryndís Sveinsdóttir (sign)

Katla Kjartansdóttir (sign)
Ásta Þórisdóttir (sign)

Jón Jónsson (sign)

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón