A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 12. ágúst 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 12. ágúst var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:


Oddviti bar upp tilbrigði við boðaða dagskrá um að 8. málið yrði tekið á dagskrá sem er erindi frá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar um viðræður við sveitarstjórn um hugsanlega aðkomu að stækkun húsnæðisins að Höfðatúni 4 og var það samþykkt samhljóða. Oddviti kynnti þá dagskrá fundarins í 8 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Boð frá undirbúningshópi um Starfsendurhæfingu Vestfjarða um að gerast stofnaðili.
3. Erindi frá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna vegna Hilmis ST-1.
4. Erindi frá Sigríði D. Þórólfsdóttur varðandi fyrirliggjandi umhverfisverkefni hjá sveitarfélaginu.
5. Boð frá Ólafsdalsfélaginu um að Strandabyggð gerist stofnaðili að Ólafsdalsfélaginu ses.
6. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 7. ágúst 2008.
7. Fundargerð Landbúnaðarnefndar Strandabyggðar dags. 11. ágúst 2008.
8. Erindi frá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar um viðræður við sveitarstjórn um hugsanlega aðkomu að stækkun húsnæðisins að Höfðatúni 4.


Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Greint er frá því að borist hefur erindi frá Hinrik Greipssyni í sjávarútvegsráðuneytinu þar sem hann tíundar þá niðurstöðu ráðuneytisins að ekki sé hægt að samþykkja reglur sveitarfélagsins um úthlutun byggðakvóta sem settar voru í júlí í sveitarstjórn. Undirrituð hefur sent erindi til ráðuneytisins, þar sem ekki næst í Hinrik vegna sumarleyfa, þar sem rökstuðningur fyrir samþykktum reglum er tíundaður. 

Þá er greint frá því að hér verður haldið unglingalandsmót árið 2010 og mörg verkefni framundan. Undirrituð átti fund með Ásu Einarsdóttur þar sem farið var yfir næstu skref og mun Ómar, framkvæmdastjóri, koma til fundar við okkur til að fara yfir stöðu mála og hvernig best sé að skipuleggja verkefnið. Á ýmsu er þegar byrjað s.s. mótorkrossbrautinni sem við veittum 1 millj. kr. í sem og uppbyggingu þjónustubyggingar við golfvöllinn sem kemur til með að nýtast vel. En gera þarf frjálsíþróttavöll og mikilvægt að byrja á því verkefni strax í haust. Hægt er að fá teikningar af slíkum velli frá Vík eða Þorlákshöfn og mun ég falast eftir því hjá þeim aðilum. Einnig ætla ég að kanna hvort upplýsingar um völl fyrir hestaíþróttir séu fyrirliggjandi hjá þessum sveitarfélögum en kanna á eftir hvar slíkur völlur kæmist fyrir. Búið var að skoða hugsanleg tjaldsvæði sem og svæði fyrir samkomutjaldið sem er gífurlega stórt. En mál munu skýrast eftir fundinn með Ómari og strax að honum loknum er þörf á að skipuleggja nefndir sem sjá um undirbúning og framkvæmd. Ljóst má vera að taka verður höndum saman til að hrinda þessu stóra verkefni í framkvæmd og þá ekki síst hvernig hægt verður að fæða fjöldann á meðan á mótinu stendur. 

Þá er fjallað um fyrirhugað fjórðungsþing Vestfirðinga sem haldið verður 5. og 6. september á Reykhólum. Er tímabært að fá að vita hverjir ætla að mæta sem og hvort fólk gistir þar eða fer Tröllatungu (eða Þorskafjarðarheiði) og gistir heima hjá sér.

Að endingu er sagt frá því að eftir ítrekaðar tilraunir var náð á Þórð Halldórsson til að fjalla um hans tilboð í skólaakstur, 6.200.000 kr. og leggja fram móttilboð frá hendi sveitarfélagsins. Sagði undirrituð að ekki væri hægt að verða við hans tillögu en hægt væri að fara upp í 5.200.000 kr. hámark. Vill hann fá nánari upplýsingar frá sveitarstjórn um hverskonar bifreið verði keypt gangi hann ekki að tilboðinu og hvort hægt verði að fá samning um að nota bifreiðina í póstakstur kílómeter á móti kílómeter áður en hann gefur endanlegt svar um hvor leiðin verður farin. Ákvað sveitarstjórn að ef hún myndi reka bifreiðina þá yrði keypt bifreið á 35 tommu dekkjum og ekki verði samið um kílómeter á móti kílómeter í akstri.


2. Boð frá undirbúningshópi um Starfsendurhæfingu Vestfjarða um að gerast stofnaðili. 
Borist hefur erindi frá undirbúningshópi dags. 24. júlí 2008 þar sem Strandabyggð er boðið að gerast stofnaðili að Starfsendurhæfingu Vestfjarða. Er Starfsendurhæfingunni ætlað að endurhæfa þátttakendur út í vinnu eða nám en áætlað er að formleg stofnun hennar verði í september nk. Greiða stofnaðilar hver um sig 100.000 kr. en rekstur verður fjármagnaður með framlögum frá ríki, sveitarfélögum og hinum ýmsu stofnunum. Samþykkt var samhljóða að gerast stofnaðili að Starfsendurhæfingu Vestfjarða.


3. Erindi frá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna vegna Hilmis ST-1. 
Borist hefur bréf frá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna dags. 23. júlí 2008 ásamt úttekt skipatæknifræðings á Hilmi ST-1. Kemur fram í úttekt skipatæknifræðingsins að báturinn er ónýtur og líklegra auðveldara og ódýrara að smíða nýjan bát eftir teikningum frekar en að endurbyggja hann. Samþykkt var samhljóða að senda erindi til félags um varðveislu Hilmis ST-1 um að báturinn verði fjarlægður fyrir árslok 2008.


4. Erindi frá Sigríði D. Þórólfsdóttur varðandi fyrirliggjandi umhverfisverkefni hjá sveitarfélaginu. 
Borist hefur erindi frá Sigríði D. Þórólfsdóttur dags. 3. júlí 2008 þar sem hún leggur fram nokkrar spurningar um fyrirliggjandi verkefni hjá sveitarfélaginu til að fegra og bæta ímynd bæjarins. Sveitarstjórn þakkar Sigríði áhugann og felur sveitarstjóra að svara erindinu í samræmi við umræður.


5. Boð frá Ólafsdalsfélaginu um að Strandabyggð gerist stofnaðili að Ólafsdalsfélaginu ses. 
Borist hefur erindi frá Ólafsdalsfélaginu dags. 6. ágúst 2008 ásamt samþykktum og drögum af skipulagsskrá fyrir félagið þar sem Strandabyggð er boðið að gerast stofnaðili að félaginu. Er áætlað að stofnfé sé a.m.k. 100.000 kr. á hvern félaga en að öðru leyti fylgi engar kvaðir. Sveitarstjórn Strandabyggðar óskar Ólafsdalsfélaginu til hamingju með uppbyggingu og varðveislu Ólafsdals í Dölum og óskar félaginu velfarnaðar í áframhaldandi starfi. Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu að svo stöddu.


6. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 7. ágúst 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá. 7. ágúst 2008. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.


7. Fundargerð Landbúnaðarnefndar Strandabyggðar dags. 11. ágúst 2008.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Landbúnaðarnefndar Strandabyggðar frá 11. ágúst 2008. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.


8. Erindi frá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar um viðræður við sveitarstjórn um hugsanlega aðkomu að stækkun húsnæðisins að Höfðatúni 4. 
Borist hefur erindi frá stjórn Kaupfélags Steingrímsfjarðar dags. 7. ágúst 2008 þar sem verið er að kanna áhuga sveitarstjórnar að koma að stækkun húsnæðis Kaupfélagsins að Höfðatúni 4. Samþykkt var að funda með stjórn Kaupfélagsins um hugmyndir varðandi stækkun og hvort sveitarfélagið eigi einhverra hagsmuni þar að gæta. 


Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:15. 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón