A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 11. maí 2010

Ár 2010 þriðjudaginn 11. maí var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Bryndís Sveinsdóttir varamaður, Eysteinn Gunnarsson varamaður og Jóhann Áskell Gunnarsson varamaður.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:  Oddviti leitaði afbrigða við boðaða dagskrá um að 12.  liðurinn yrði tekinn inn á dagskrá og var það samþykkt.  Oddviti kynnti þá dagskrá fundarins í  12 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

  • 1. Erindi frá The Nauteyri project um kaup á jörðinni.
  • 2. Tilkynning frá Skipulagsstofnun um töf á afgreiðslu á aðalskipulagi Strandabyggðar.
  • 3. Erindi frá Safnaráði Íslands vegna byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum.
  • 4. Boð um þátttöku í stofnun Ólafsdalsfélagsins.
  • 5. Beiðni um umsögn frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu vegna takmarkana veiða með dragnót.
  • 6. Beiðni um styrk til Golfklúbbs Hólmavíkur.
  • 7. Beiðni frá SÁÁ um kaup á 100 álfum til styrktar ungu fólki.
  • 8. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar dags. 14. apríl 2010 3. maí 2010 [ath. vefstjóra: hér á vefnum er leiðrétt villa í samþykktri fundargerð].
  • 9. Fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar dags. 4. maí 2010.
  • 10. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 3. maí 2010.
  • 11. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 6. maí 2010.
  • 12. Erindi frá Ingibjörgu Sigurðardóttur dags. 6. maí 2010 um að fá á leigu jarðhæðina að Höfðagötu 3.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

  • 1. Erindi frá The Nauteyri project um kaup á jörðinni. Borist hefur erindi frá The Nauteyri project þar sem lýst er yfir áhuga á að kaupa jörðina Nauteyri takist að fjármagna kaupin en tilboðið hljóðar upp á 30 milljónir kr. Er ætlunin að reka vistvæna ferðaþjónustu með náttúruvernd að leiðarljósi. Samþykkt er að fresta afgreiðslu málsins að svo stöddu.
  • 2. Tilkynning frá Skipulagsstofnun um töf á afgreiðslu á Aðalskipulagi Strandabyggðar. Borist hefur tilkynning frá Skipulagsstofnun dags. 23. apríl 2010 þar sem tilkynnt er að tafir verði á afgreiðslu stofnunarinnar á Aðalskipulagi Strandabyggðar vegna mikils verkefnisálags. Lagt fram til kynningar.
  • 3. Erindi frá Safnaráði Íslands vegna byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum. Borist hefur erindi frá Safnaráði Íslands dags. 21. apríl 2010 þar sem hvatt er til að faglega verði staðið að öllum breytingum á eignarhaldi og rekstri Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna og haft samráð við Þjóðminjasafnið og Safnaráð, ætli sveitarfélagið að segja sig frá rekstrinum. Lagt fram til kynningar.
  • 4. Boð um þátttöku í stofnun Ólafsdalsfélagsins. Borist hefur erindi frá Ólafsdalsfélaginu dags. 28. apríl 2010 þar sem Strandabyggð er boðið að gerast stofnaðili í sjálfseignarstofnuninni Ólafsdalsfélagið og greiði stofnfé kr. 100.000 en félagið var stofnað um uppbyggingu og varðveislu Ólafsdals í Dölum. Sveitarstjórn þakkar gott boð en samþykkt var samhljóða að hafna erindinu.
  • 5. Beiðni um umsögn frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu vegna takmarkana veiða með dragnót. Borist hefur erindi frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu þar sem leitað er eftir umsögn sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðra takmarkana veiða með dragnót. Oddviti greindi frá bréfi er honum barst frá Friðgeiri Höskuldssyni þar sem hann hvetur sveitarstjórn til að mótmæla fyrirhuguðum lokunum. Einnig greindi hann frá grein um hugsanlega skaðsemi dragnótaveiða sem birt var á vef Hafrannsóknarstofnunar en samkvæmt þeirri grein er ekki talin mikil skaðsemi af dragnótaveiðum. Samþykkt er samhljóða að gera ekki athugasemdir við lokun svæðisins fyrir dragnótaveiðum.
  • 6. Beiðni um styrk til Golfklúbbs Hólmavíkur. Borist hefur beiðni frá Golfklúbbi Hólmavíkur um styrk vegna fjárfrekra framkvæmda sem fyrirhugað er að fara í nú í sumar en eftir er frágangur að innan í golfhúsinu og kaupa þarf sérstaka sláttuvél til að slá flatirnar. Samþykkt er samhljóða að veita styrk að fjárhæð kr. 100.000.
  • 7. Beiðni frá SÁÁ um kaup á 100 álfum til styrktar ungu fólki. Borist hefur beiðni frá SÁÁ dags. 29. apríl 2010 þar sem farið er þess á leit að sveitarfélagið styrki ungt fólk í meðferð með kaupum á 100 álfum sem kosta 100.000 kr. Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu.
  • 8. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar dags. 14. apríl 2010 3. maí 2010 [ath. vefstjóra: hér á vefnum er leiðrétt villa í samþykktri fundargerð]. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar frá 14. apríl 2010 3. maí 2010 [ath. vefstjóra: hér á vefnum er leiðrétt villa í samþykktri fundargerð]. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 9. Fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar dags. 4. maí 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Leikskólanefndar Strandabyggðar frá 4. maí 2010. Sveitarstjórn vill árétta að gætt sé þess að fyrirhuguð girðing verði samkvæmt samþykktum stöðlum. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 10. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 3. maí 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík frá 3. maí 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 11. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 6. maí 2010. Lögð er fram til samþykktar
    fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík frá 6. maí 2010. Varaoddviti, Rúna Stína Ásgrímsdóttir vill láta bóka eftirfarandi við afgreiðslu fundargerðar: „Ég vil fagna því sérstaklega að tveir mjög hæfir einstaklingar, sem báðir hafa aflað sér menntunar og starfsréttinda meðfram störfum sínum við Grunnskóla Hólmavíkur, hafa sótt um stöðu skólastjóra við skólann. Valið er erfitt en í ljósi afgerandi niðurstöðu skólanefndar greiði ég atkvæði með þessari fundargerð og niðurstöðu hennar." Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 12. Erindi frá Ingibjörgu Sigurðardóttur dags. 6. maí 2010 um að fá á leigu jarðhæðina að Höfðagötu 3. Borist hefur erindi frá Ingibjörgu Sigurðardóttur frá 6. maí 2010 þar sem hún óskar að taka á leigu jarðhæðina að Höfðagötu 3 undir keramikverslun og verkstæði. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 18:20.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón