A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd - 8. maí 2012

Fundur var haldinn í Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd Strandabyggðar, þriðjudaginn 8. maí 2012, í Hnyðju. Hófst fundurinn kl. 17:00. Varamenn og aðalmenn í nefndinni voru boðaðir á fundinn. Mættir voru Jón Jónsson formaður sem jafnframt ritaði fundargerð, Árný Huld Haraldsdóttir, Matthías Lýðsson og Jón Vilhjálmur Sigurðsson aðalmenn og Andrea Vigfúsdóttir varamaður. Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Guðbrandsson og Kristín S. Einarsdóttir boðuðu forföll.

Þá var gengið til dagskrár.


1. Atvinnustefna fyrir Reykhólahrepp og sveitarfélög á Ströndum.
Viktoría Rán Ólafsdóttir verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða mætti á fundinn, gerði grein fyrir verkefninu og þeirri vinnu sem framundan er. Góðar umræður urðu og Viktoría svaraði fyrirspurnum og mun senda frekari gögn til nefndarinnar.

Gerð verður netkönnun, haldnir kynningafundir, íbúafundir, vinnufundir með atvinnumálanefndum og/eða sveitarstjórnum og tekin viðtöl við stærstu atvinnurekendur. Atvinnuþróunarfélagið stefnir að því að atvinnustefnan verði tilbúin og kynnt fyrir árslok. Viktoríu þakkað fyrir kynninguna.

2. Framkvæmdir við Hólmavíkurhöfn

Hafnarráð hefur samþykkt beiðni Strandabyggðar um að flýta framkvæmdum við nýja 30 metra flotbryggju í smábátahöfninni til ársins 2012, en verkið var á dagskrá 2014. Á móti verður hluta af frágangi á þekju frestað, sá hluti bryggjunnar sem nú er tímabundið nýttur sem geymslusvæði fyrir áburð. Litla flotbryggjan í smábátahöfninni hefur verið tekin í notkun. Innsiglingarbauja með ljósi er einnig á dagskrá 2012.

Nefndin fagnar ákvörðun um flýtingu framkvæmda í smábátahöfninni.


 
3. Útboðs- og verklýsing fyrir verkefnið: Hólmavíkurhöfn, þekja og lagnir við stálþil

Lögð fram drög að útboðs- og verklýsingu fyrir verkefnið Hólmavíkurhöfn, þekja og lagnir við stálþil. Samþykkt samhljóða að beina því til sveitarstjórnar að bjóða verkefnið út í samvinnu við Siglingastofnun.

4. Almenningssamgöngur í Strandabyggð
Rætt um framtíðarfyrirkomulag við almenningssamgöngur í Strandabyggð. Almenningssamgöngur um veg 68 voru lagðar af þegar rútuferðir til Hólmavíkur færðust á veginn um Dali og Arnkötludal. Tenging við Norðurland er í ólestri af þessum sökum og íbúar við veg 68 búa við skerta þjónustu. Nefndin óskar eftir því að sveitarstjórn þrýsti á umbætur í þessum efnum og rútuferðir um veg 68 verði hluti af framtíðarskipulagi almenningssamgangna á Vestfjörðum.

5. Erindisbréf nefndarinnar
Lögð fram drög að erindisbréfi fyrir nefndina. Stefnt er að afgreiðslu á erindisbréfinu á næsta fundi nefndarinnar og er óskað eftir að athugasemdir og breytingatillögur verði sendar til formanns nefndarinnar.

6. Önnur mál
 
a) Áætlun um snjómokstur í dreifbýli
Samþykkt að Rúna Stína Ásgrímsdóttir og Jón Jónsson vinni drög að reglum og leggi fyrir nefndina.

b) Undirbúningur fjallskilaseðils
Samþykkt að fela Matthíasi Lýðssyni og Árný Huld Haraldsdóttur að hefja undirbúning að gerð fjallskilaseðils fyrir haustið 2012.

c) Sauðfjárveikivarnagirðingar og viðhald þeirra
Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd beinir því til sveitarstjórnar Strandabyggðar að þrýsta á um að eftirliti með og viðhaldi á sauðfjárveikivarnagirðingum verði eflt, enda er mikið í húfi fyrir atvinnulíf í sveitarfélaginu. Einnig að sveitarstjórn standi fyrir því að fjarlægð verði aflögð sauðfjárveikivarnagirðing og aðrar ónýtar girðingar í sveitarfélaginu, samkvæmt girðingalögum.

d) Áætlun Hólmavíkurhafnar um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa
Fram kom að hafnarstjóri hefur hafist handa við gerð áætlunar.

e) Áfangastaðurinn Hólmavík
Rætt var um aukna möguleika á styrkjum til verkefna sem snúast um að efla og þróa áfangastaði í ferðaþjónustu. Nefndin hefur áhuga á að unnin verði nauðsynleg undirbúningsvinna til að sveitarfélagið geti sótt um styrki til að koma slíku verkefni í framkvæmd á Hólmavík. Slíkt verkefni gæti snúist um kortlagningu, sögu-, náttúru- og upplýsingaskilti, útilistaverk, göngustígagerð og þá deiliskipulagsvinnu sem til þarf svo að slíkt verkefni geti orðið að veruleika.

f) Refa- og minkaveiðar
Nefndin fer fram á að nefnd sem skipuð var til að gera tillögur um refa- og minkaveiðar í sveitarfélaginu til framtíðar flýti störfum og skili niðurstöðum hið fyrsta.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:15.

Jón Jónsson
Árný Huld Haraldsdóttir
Matthías Lýðsson
Jón Vilhjálmur Sigurðsson
Andrea Marta Vigfúsdóttir

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón