A A A

Valmynd

Skólanámskrá Tónskólans á Hólmavík

Námsframboð og kennsluhættir

 

Yfirlit yfir námsframboð skólans.

 

Hljóðfæri í boði og aldurstakmark:

Blokkflauta

Gítar

Klarinett

Píanó

Rytmískt píanó

Rafbassi

Saxófónn

Trommusett

Ukulele

Þverflauta

 

Aldurstakmark fyrir öll ofangreind hljóðfæri er 4. bekkur grunnskóla. Yngri börnum er ekki boðið upp á einkatíma í hljóðfæranámi.

 

Tónfræðagreinar í boði:

Það er ætlast til að allir hljóðfæra- og söngnemendur á grunnskólaaldri sem eru í 4. bekk og eldri mæti vikulega í sérstaka tónfræðitíma. Yngri nemendur (4.-6. bekkur) mæta saman í 40 mínútna tónfræðitíma á viku og eldri nemendur (7.-10.bekkur) mæta saman í 40 mínútna tónfræðitíma á viku. Tónfræðikennarar haga tímunum þannig að nemendur af blandaðri tónfræðigetu geti nýtt tímana saman, þannig að ekki þurfi sérstaka tíma til dæmis fyrir þá nemendur sem eru að vinna í tónfræðibókinni "Ópus 2". Tónheyrnarkennsla fer fram í sömu tímum.

Eðlileg framvinda náms gerir ráð fyrir því að að þremur árum liðnum geti nemandi þreytt grunnpróf í tónfræði og að grunnþekking til miðprófs í tónfræði taki þrjú ár til viðbótar. Þó er hægt að ljúka náminu hraðar.

Tímasetning fastra vikulegra tónfræðitíma er kynnt að hausti hvert ár.

Þessir vikulegu hóptónfræðitímar eru foreldrum og nemendum að kostnaðarlausu fyrir utan kostnað við bækur.

 

Hópstarf í boði:
Tónlistarstund fyrir elsta árgang í leikskóla og börn í 1. bekk grunnskóla, 30 mínútur á viku.


Tónlistarstund fyrir börn í 2. og 3. bekk grunnskóla, 30 mínútur á viku.

Barnakór (2. til 6. bekkur), æfing einu sinni í viku í 45 mínútur í senn.

 

Eldra samspil - Rokkband (7. til 10. bekkur), æfing einu sinni í viku í 40 mínútur í senn.

 

Óformlegt samspil nemenda, til dæmis fyrir sérstök verkefni og tónleika, ekki fastar vikulegar æfingar.

 

Skipulag og kennsluhættir

Skólagjöld fyrir nám við Tónskólann eru innheimt af skrifstofu Strandabyggðar skv. gildandi verðskrá sveitarfélagins

Starfsmenn Tónskólans á Hólmavík starfsárið 2022-2023:
Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, skólastjóri. Tölvupóstfang skolastjori (hjá) strandabyggd.is

Bragi Þór Valsson, deildarstjóri tónlistarskóladeildar (kennsla á klarinett, saxófón, þverflautu, trommur, gítar, rafbassa ásamt tónlistarstund, barnakór, rokkbandi, tónfræði og tónheyrn). Tölvupóstfang bragi (hjá) strandabyggd.is

Christina van Deventer (kennsla í einsöng, á píanó og rytmískt píanó ásamt barnakór og tónfræðikennslu). Tölvupóstfang christina (hjá) strandabyggd.is


Umsóknarferli:

  • Að vori er auglýst á vef skólans hvaða hljóðfæri og tónfræðagreinar verða í boði næsta skólavetur og einnig er auglýstur hlekkur á rafræna skráningarsíðu og umsóknarfrestur tiltekinn.  Opnað er aftur fyrir umsóknir að hausti en þá mega umsækjendur búast við að geta lent á biðlista, því allir nemendur sem sóttu um fyrir vorfrestinn fá forgang. Umsóknarreglurnar fyrir ferlið hvert ár eru tilkynntar á vef Strandabyggðar þegar auglýst er að opnað hafi verið fyrir umsóknir. Athugið að umsókn er talin gilda fyrir allan skólaveturinn og ef forráðamanneskja vill að barn verði ekki í námi eftir áramót þarf tilkynning þess efnis að berast deildarstjóra eða skólastjóra fyrir 1. desember. Annars verða Tónskólagjöld fyrir viðkomandi nemanda rukkuð fyrir allan veturinn.
  • Þegar farið er yfir umsóknir fá þeir forgang sem eru að sækja um áframhaldandi nám frá fyrri vetri en þó fá þeir eingöngu forgang sem sóttu um áður en auglýstur umsóknarfrestur rann út að vori.
  • Ekki þarf sérstaklega að sækja um til að fá að taka þátt í hópastarfi skólans eins og barnakór og rokkbandi.
  • Hægt er að biðja um að hefja hljóðfæra- eða söngnám á öðrum tíma en í upphafi haustannar, að því tilskyldu að tónlistarkennararnir séu ekki þegar fullbókaðir.
  • Börn í 4. bekk grunnskóla og eldri sem sækja um fullt nám fá samtals kennslu í eina klukkustund á viku, yfirleitt skipt í tvær hálftímakennslustundir. Hálft nám á hljóðfæri er kennt í einni hálftímakennslustund á viku.

 

Kennsla fer að mestu fram í húsnæði Tónskólans að Skólabraut 20-22. Yfirleitt fá nemendur sem skráðir eru í fullt nám tvær 30 mínútna kennslustundir á viku.  Lengra komnir geta þó sótt einn 60 mínútna kennslutíma á viku ef kennari telur það henta betur.

Þegar nemendur komast ekki til skóla vegna veðurs eða annarra aðkallandi aðstæðna reyna kennarar að bjóða upp á fjarkennslu í staðinn í gegnum tölvu og þá getur nemandinn sótt sinn hefðbunda kennslutíma að heiman. Þó skal tekið fram að ekki er hægt að kenna hljóðfæraleik á sama hátt í fjar- og í staðkennslu.

 

Tónleikahald

Formlegir tónleikar eru haldnir í jólamánuðinum og að vori. Ef mjög margir nemendur eru skráðir til náms gæti Tónskólinn ákveðið að skipta hópnum niður á nokkra styttri tónleika í stað einna langra. 

Allir tónleikar eru auglýstir á vefsíðu skólans og eftir atvikum í öðrum miðlum.

 

Aðrar óformlegar framkomur, til dæmis á dvalarheimilinu eða með gestalistamönnum, eru haldnar öðru hvoru. Stefnt er á að allir nemendur komi fram á tvennum tónleikum á ári en ef nemandi treystir sér alls ekki til að leika á tónleikum er í samráði við foreldra eða forráðafólk hægt að ákveða að nemandinn fái sleppa því en hann undirbýr engu að síður tónleikalag eða tónleikaverk sem ætlast er til að sé tilbúið á sama tíma og aðrir nemendur eru tilbúnir fyrir tónleika.


Starfstími skólans

Starfstími Tónskólans er hinn sami og starfstími Grunnskólans og fer eftir sama skóladagatali. Þó gæti kennsla í Tónskólanum þurft að hefjast nokkrum dögum síðar að hausti vegna þess aukatíma sem fer í að sníða til stundatöflur tónlistarnemenda.

Vorpróf, stigspróf og áfangapróf

Allir nemendur skólans gangast undir innra próf að vori (eigi síðar en í lok maí). Sjá nánari útlistun hér að neðan.

Þeim nemendum sem eftir því sækjast stendur til boða að taka formleg áfangapróf (grunnpróf, miðpróf, framhaldspróf) sem skilgreind eru í aðalnámskrá fyrir tónlistarskóla frá Menntamálaráðuneytinu. Vegna smæðar Tónskólans á Hólmavík gætu nemendur þurft að ferðast til Reykjavíkur eða annarra sveitarfélaga til að þreyta þessi áfangapróf. Til eru sérstakar námskrár fyrir hvert hljóðfæri og er það tónlistarkennarans að undirbúa nemanda fyrir þessi áfangapróf eftir nákvæmum skilgreiningum í viðkomandi námskrám.

Athugið að Prófanefnd tónlistarskóla leggur á gjald fyrir grunnpróf, miðpróf og framhaldspróf í hljóðfæraleik og söng og eins fyrir miðpróf í tónfræði. Tónskólinn á Hólmavík tekur ekki þátt í þessum kostnaði og fellur hann því á nemandann. Skv. verðskrá Prófanefndar vorið 2022 er gjaldið kr. 10.650 fyrir grunnpróf, kr. 15.900 fyrir miðpróf og kr. 20.600 fyrir framhaldspróf. Verðið fyrir miðpróf í tónfræði eru kr. 6.000.

Stjórn skólans

Deildarstjóri tónlistarskóladeildar ber ábyrgð á daglegri stjórn Tónskólans í umboði skólastjóra. Stefnumótun er í höndum deildarstjóra, skólastjóra og fræðslunefndar Strandabyggðar.

 

Próf og námsmat

Tónskólinn er aðili að Prófanefnd tónlistarskóla og nemendum stendur til boða að taka samræmd áfangapróf, þ.e. grunnpróf, miðpróf og framhaldspróf. Einnig leggur skólinn sterklega til að flestir nemendur þreyti stigspróf á milli samræmdu prófanna. Þau próf eru haldin innan skólans seint á vorönn.

 

Áður en nemendur fara í grunnpróf ljúka þeir yfirleitt 1. og 2. stigi og eftir atvikum 3. stigi í skólanum. Fyrir miðpróf bjóðum við upp á að nemendur ljúki 4. stigs prófi og fyrir framhaldspróf að þeir taki 6. stigs próf. Til þess að mega fara í stigs- eða áfangapróf þurfa nemendur að hafa lokið tónfræðinni sem tilheyrir næsta stigi á undan og til þess að fá fullgild próf þurfa þeir að hafa lokið tónfræðinni sem samsvarar því stigi sem þau taka.

 

Auk stigs- og áfangaprófa fá nemendur skriflega umsögn frá hljóðfæra- og söngkennurum sínum að vori. Nemendur fá einnig einkunnir í tónfræðagreinum. Ekki er skráð námsmat í forskóla, en nemendur í honum fá viðurkenningu að vori fyrir að hafa lokið forskólanum.

 

Athugið að það er ákvörðun tónlistarkennara hvort nemandi telst tilbúinn í stigspróf því allir nemendur læra á mismunandi hátt og ekki allir nemendur ná sömu færni á sama hraða. Ef kennari ákveður að nemandi ætti að fara í stigspróf hafa foreldrar eða forráðafólk þó rétt á því að biðja um að viðkomandi nemandi þreyti ekki prófið.

 

Allir nemendur skólans gangast undir innra próf að vori (eigi síðar en í lok maí) þar sem leiknir eru tónstigar, tækniæfingar og lög eða tónverk auk prófs í tónheyrn. Miðað er að mestu við stigakerfi Associated Board of the Royal Schools of Music (ABRSM) og bækur frá þeim notaðar fyrir viðmið í tónstigum og tækniæfingum. Nemendur á trommusett leika lög úr stigsbókum Trinity Rock & Pop kerfisins.

Allir nemendur gangast einnig að vori undir tónfræði- og tónheyrnarpróf þar sem prófað er úr námsefni vetrarins.

 

Einkunn er gefin af 100 mögulegum stigum ásamt umsögn og hvorutveggja afhent á skjali til nemenda/forráðamanna.

Að vori fá nemendur skriflega umsögn frá kennara sínum þar sem tekið er fram hver verkefni vetrarins voru og hvernig ástundun og tónlistarlegar framfarir nemandans voru. Hér koma einnig einkunnir úr vorprófum fram.

Aðrar upplýsingar

Aðbúnaður og aðstaða í skólanum: Tónskólinn hefur aðstöðu í tveimur kennsluherbergjum í kjallara húsnæðis Grunnskólans og hljóðfærakostur skólans er ágætur. Kennsla fer þar að jafnaði fram mánudaga til miðvikudaga sömu vikur og starf fer fram í Grunnskólanum en ábyrgir og vinnusamir nemendur geta samið um við deildarstjóra eða skólastjóra að fá aðgang að herbergjunum til að æfa sig utan kennslutíma.

 

Skrifstofutími: Tónskólinn hefur engan auglýstan skrifstofutíma en hægt er að ná í kennara skólans og skólastjóra í tölvupósti og eftir atvikum í síma.

 

Leiga á hljóðfærum: Nemendum sem læra á hljóðfæri við Tónskólann á Hólmavík býðst að leigja hljóðfæri til að taka með sér heim til æfinga. Hljóðfærin eru leigð út eina önn í senn og verðið fylgir gjaldskrá Strandabyggðar
Foreldrar eða forráðafólk bera ábyrgð á hljóðfærinu og skuldbinda sig til að greiða Tónskólanum viðgerðarkostnað eða andvirði nýs hljóðfæris ef hljóðfærið skemmist eða eyðileggst í þeirra umsjón eða umsjón barns þeirra.

 

Ástundun: Þau börn sem eru í námi í Tónskólanum og eiga heimili á þjónustusvæði Grunnskólans koma gjarnan í tónlistartíma á hefðbundnum skólatíma og því er óhjákvæmilegt að þau börn missi eitthvað af kennslustundum í Grunnskólanum.  Vakin er athygli á því að ætlast er til að viðkomandi börn séu sjálf nógu skipulögð til að vinna upp þá vinnu sem tapaðist við að missa af þessum kennslustundum og foreldrar aðstoði þau við það.

 

Samskipti við heimili: Kennarar Tónskólans eru í samskiptum við foreldra og forráðafólk nemenda (og í tilfellum fullorðinna nemenda við nemendurna sjálfa) eftir ýmsum boðleiðum – símtölum og ýmsum rafrænum aðferðum. 
Foreldrar eru hvattir til hafa samband við tónlistarkennarana í tölvupósti til að spyrjast fyrir um námsframvindu, ráðgjöf fyrir heimaæfingar og annað sem viðkemur náminu.

 

Samvinna í skólastarfi: Tónskólinn vinnur að ýmsum verkefnum í samstarfi við Grunnskólann, Leikskólann Lækjarbrekku, gestakennara, aðra tónlistarskóla og Leikfélag Hólmavíkur.

 

Sérstök viðfangsefni: Tónskólinn á Hólmavík býr við þá sérstöðu að starfa innan sameinaðs skóla Strandabyggðar og er þar af leiðandi aðili að ýmiskonar samstarfi milli skólanna þriggja. Það er stefna sameinaðs skóla að leggja áherslu á góð samskipti og samstarf milli stjórnenda og að hagur nemenda sé ávallt hafður að leiðarljósi.

 

Skólareglur: Almennar skólareglur Grunnskólans gilda í Tónskólanum.  Auk þess skulu nemendur ganga um hljóðfæri og annan búnað Tónskólans af virðingu og hlýða fyrirmælum tónlistarkennara varðandi umgengni í kringum hljóðfærin og í húsnæði Tónskólans almennt.


Uppfært í ágúst 2022